Archive for september, 2005

Klukkvírus

Það gengur vírus um bloggheima sem lýsir þannig að fólk er klukkað af öðrum og þarf þá að skrifa fimm staðreyndir um sjálft sig. Auður og Kristín Gróa klukkuðu mig þannig að ég er tvíklukkaður. Vonandi þýðir það ekki að ég þurfi að skrifa tíu atriði, hver semur annars reglurnar í þessu?

Jæja mínar fimm staðreyndir eru eitthvað á þessa leið.

  1. Besta bók sem ég hef lesið er Gerpla eftir Laxness. Mér fannst Dóri alltaf vera ofmetinn þangað til að ég las þessa. Engin bók hefur haft jafnmikil áhrif á mig. Mig langaði mest til að grenja yfir lokakaflanum en vegna þess að ég er jaxl þá lét ég það eiga sig. Hvað er svona gott við þessa bók? Ég get eiginlega ekki svarað því. Hún segir svo margt um manninn og hún hefur margar víddir sem hægt er að lesa margt úr. Svo er hún líka fyndin.

  2. Ég stunda engar íþróttir þrátt fyrir að mig langi til þess.

  3. Fyrsta minning mín er frá því að ég var fjögurra ára gamall og ég féll ofan í vatnsstampinn hjá kindunum í sveitinni heima.

  4. Þrátt fyrir að margt bendi til hins gagnstæða, þá er ég ennþá sannfærður um að ég búi yfir einhverri snilligáfu. Vandamálið er að draga hana á land sem ég veit ekki ennþá hvernig ég á að fara að. (OK, nú halda allir að ég sé geðveikur, takk Auður og Kristín fyrir að draga mig út í þetta.)

  5. Fallegustu konur í heiminum eru að mínu mati þær indversku.
Hmm, þetta var auðveldara en ég hélt.

Ég ætla að klukka Stínu systur, Gógó, Guðrúnu Helgu, Davíð og Katrínu Kenýabúa.

Vírusinn heldur áfram yfirreið sinni.

Fyrsti mánuðurinn

Í gær var eins mánaðar afmæli mitt hér í Svíþjóð. Ég hef aldrei áður verið jafnlengi utan íslenskrar landhelgi sem er reyndar hálfskrítið, orðinn þetta gamall. Ég sakna ekki Íslands að neinu leiti nema ég væri til í að fá mér slátur með rófustöppu.

Fyndið að það er maturinn sem flestir skiptinemarnir virðast sakna hér. Finninn sagði mér að hann væri til í að fá sér ofnbakaða lifur með rúsínum, það er víst eitthvað finnskt góðgæti. Mexíkaninn saknar sætrar gulrar mjólkurafurðar sem ég komst ekki til botns í hvað væri. Þjóðverjarnir sakna síns Schwarzbrot enda er sænskt brauð alls ekki gott.

Hvað skyldi sálfræðimenntað fólk segja um þetta? Er söknuðurinn eftir mat frá heimalandinu birtingarmynd einhvers annars niðurbælds söknuðar eða langar mig bara í lifrarpylsu með miklum mör?

Gláp

Nýlega horfði ég á tvær stórmyndir á DVD í fína reikniheilanum mínum. Fyrst var það Ray sem ég hafði mjög gaman af, þótt ekki væri nema vegna tónlistarinnar í myndinni. Jamie Foxx fór svo alveg á kostum sem blindi heróínfíkilinn og kvennabósinn Ray Charles, skemmtilegasta mynd.

Skemmtanagildið reis þó enn hærra í hinni myndinni, Shrek 2. Óhemjugóður húmor í þessum myndum en væmnin náði því miður á köflum undirtökunum. Kötturinn var í miklu uppáhaldi hjá mér, gullkornin hreinlega streymdu frá honum.

Ég veit að þetta eru gamlar myndir en ég horfi lítið á DVD þannig að ég hef misst af mjög mörgum myndum undanfarið.

Reykt svínaeyru

Hversu sjúkt er það að selja reykt svínaeyru í matvörubúðum fyrir hunda að japla á? Finnst það einkar ósmekklegt.

Nöfn og hús

Í skólanum mínum eru sæmilega falleg hús í góðum appelsínugulum lit að hætti H-listans. Þau heita samt ekkert eins og húsin í HÍ, bara A, B, C… o.s.frv. Hvers á fallegt hús að gjalda að heita bara t.d. G?

Junk Science

Um daginn sá ég vísað á síðuna JunkScience.com, minnir að það hafi verið hjá Vefþjóðviljanum en ég er ekki viss. Ég er dálítill áhugamaður um vísindi og líka um það hvernig þau eru misnotuð þannig að ég leit á þessa síðu að gamni.

Byrjunin lofaði ekki góðu. Á forsíðunni er mælir sem á að sýna hver kostnaðurinn er af Kyoto-bókuninni og sýnir líka hvaða hitastigslækkun bókunin mun skila árið 2050! Nú sem stendur er kostnaðurinn mældur sem ríflega 85 milljarðar bandaríkjadala og hitastigslækkunin er mæld sem 0.000885011°C. Rökstuðningurinn fyrir þessum tölum er ekki upp á marga fiska eins og við er að búast. Að grunni til er haldið fram sömu samsærissögunni um vinstri sinnaða fjölmiðla sem mata fólk á gegndarlausum áróðri græningja og þar fram eftir götunum.

En hvað um það. Gróðurhúsaáhrifin eru flókið mál og erfitt er að segja um með vissu um hvað sé rétt og rangt í því samhengi. Ég hélt því áfram að skoða síðuna og athugaði hvað hún hefði að segja um uppáhalds gervivísindin mín, sköpunarhyggju.

Því fletti ég upp orðinu „evolution“ í leitarvél síðunnar. Efsta greinin var eftir Phillip E. Johnson, höfundur bókarinnar „Darwin on trial“. Fyrir þá sem ekki vita þá var sú bók sköpunarsinnaáróður gegn þróunarkenningunni. Greinin hét „The Church of Darwin“ og menn geta farið nærri um innihald hennar.

Niðurstaðan er semsagt sú að Junk Science.com er einmitt það sem titillinn ber með sér, nefnilega rusl.

Davíð

Þetta nafn hefur sérstaka merkingu í hugum Íslendinga, því verður ekki neitað. Nú er hann hættur í pólitík, búinn að vera að frá því áður en ég fæddist.

Freyr súmmerar stöðuna upp í góðri grein á Kommúnunni.

Það hafa allir skrifað um Davíð, einna skemmtilegast fannst mér að lesa þetta hér hjá Ármanni Jakobs. Ég ætla ekki að bera í bakkafullan lækinn, segi bara bless Davíð. Gangi þér vel að kljást við afleiðingar efnahagsstefnu þinnar í Seðlabankanum. Lækkaðu nú vextina svo að útgerðin fari ekki á hausinn.

Bermúdaskál.

Hjól og samfélagsmál

Eitt af því fyrsta sem ég gerði eftir að ég flutti hingað var að fjárfesta í hjólhesti, miklum gæðingi með dempurum og öllu. Þetta var þriðja ódýrasta hjólið í búðinni og bilaði að sjálfsögðu strax eftir tvær vikur en Svíum er fleira til lista lagt en að búa til kjötbollur og þeir gerðu við hjólið snarlega. Nauðsynlegt er að eiga reiðhjól því það er spotti yfir í miðbæinn þaðan sem ég bý. Í miðbænum er nefnilega Willys sem er Bónus þeirra Svía, þar sem ég versla öll mín matvæli. Einnig er þar að finna Commerce sem er n.k. Kringla hér í Skövde en þar er að finna áfengisverslun ríkisins, System Bolaget sem er afar mikilvægur viðkomustaður stúdenta eins og gefur að skilja.

Ég setti inn nokkrar myndir hér frá Hasslum og Skövde. Þar má meðal annars sjá herbergið mitt, Hasslum og Volvo verksmiðjuna sem er hér í bænum. Samfélagið í Skövde hvílir á þremur meginstoðum er mér sagt, áðurnefnd Volvoverksmiðja, háskólinn og herstöð. Svíar hafa verið að skera niður í varnarmálum og fækkað herstöðum og stækkað þær sem eftir standa. Herstöðin í Skövde er ein þeirra sem verið er að stækka og hingað eiga eftir að flytjast nokkur hundruð fjölskyldur á næstu misserum vegna þess. Það er samsagt uppgangur hér og mikil bjartsýni að ég fæ best séð af dagblöðunum frá þessu svæði.

Annars er allt í góðu gengi hér. Ég hef náð þeim áfanga í lífinu að geta búið til forrit í Perl sem getur lagt saman þær tvær tölur sem notandinn óskar eftir. Mikið er ég stoltur af sjálfum mér.

Tilviljun?

Þessi grein er birt skömmu eftir þessa grein. Meira segja er talað um í seinni greininni um áfengiskaup í Lélect líkt og í mínum skrifum. Hér er greinilega eitthvað samsæri á ferðinni.

Heimkoma í júní

Þar sem Svíar hafa kennslukerfi sitt þannig uppbyggt að jólaprófin eru strax eftir jólaleyfið þá reikna ég ekki með því að koma heim um þessi jól. Ég veit það vel að ef ég fer til Íslands þá á ég ekki eftir að koma neinu í verk og því held ég að það sé betra að sleppa því. Þannig að ég sný ekki aftur fyrr en fyrsta lagi í júní. Næstu jól verða því fyrstu jólin sem ég er ekki heima í sveitinni en það er líka ágætt að breyta stundum út af vananum.

Annars var ég líka að hugsa um að reyna að fá einhverja vinnu hérna næsta sumar í fyrirtæki þar sem ég gæti líka unnið lokaverkefnið mitt en það er ennþá á hugmyndastiginu.