Pólsk stjórnmál

Það veitir manni nokkra innsýn í líf Pólverja þegar maður deilir herbergi með einum. Hann Maciej hefur sagt mér ýmislegt fróðlegt síðustu daga. Nú voru þingkosningar í Póllandi og flokkur Jaroslaw Kaczynski, Laga og Réttlætisflokkkurinn vann stórsigur og er stærsti flokkurinn á þinginu. Svo vill til að í október munu Pólverjar kjósa sér forseta og einn frambjóðendinn er Lech Kaczynski, tvíburabróðir Jaroslaw. Ég held meira að segja að þeir séu eineggja, þori samt ekki að fara með það.

Lech þessi er borgarstjóri í Varsjá og er ekki vel liðinn þar að sögn Maciej. Að hætti harðra hægri manna hefur löggæslan verið stórefld þannig að hver sá sem t.d. dirfist að sjást með áfengi á götum úti fær á baukinn hjá laganna vörðum. Ekki bætir úr skák að sannkristin stefna ræður ríkjum hjá þessum bræðrum og t.d. hefur Gay Pride ganga samkynhneigðra verið bönnuð í Varsjá eftir að Lech tók við stjórninni.

Úrslit þingkosninganna er nokkuð áfall fyrir frjálslynt fólk. Nú er sem dæmi farið að ræða í fullri alvöru að taka upp dauðarefsingar aftur í Póllandi. Maður veltir fyrir sér hvers vegna íhaldsdurgarnir virðast vera að sækja í sig veðrið allsstaðar.

Þrátt fyrir að flokkur Jaroslaw hafi tilnefnt annan mann, Kazimierz Marcinkiewicz, sem sitt forsætisráðherraefni þá er líklegt að hann verði lítið meir en strengjabrúða flokksformannsins. Það væri magnað ef Lech sigrar í forsetakosningunum en þá verða þessir tvíburabræður með óhemju mikil völd.

Lokað er fyrir andsvör.