Uppsala/Stokkhólmur

Rósa með nýjan stílSíðastliðinn föstudag steig ég upp í lest og hélt kátur af stað til Uppsala í heimsókn til Rósu. Kæti mín minnkaði ögn þegar að miðavörðurinn kom og rak mig aftur um fimm vagna því ég hafði í ógáti sest upp í fyrsta farrými. Í Enköpning fór ég svo úr lest í rútu sem tók mig síðasta spölinn til Uppsala. Þessi leið var valin einfaldlega vegna þess að hún er ódýrust. Þegar ég kom til Uppsala bjóst ég við hálfgildings stórborg en í raun var þar svipuð smábæjarstemning og hér í Skövde.

Bærinn á sér þó langa og mikla sögu og státar bæði af elsta háskóla og stærstu kirkju á Norðurlöndunum. Háskólinn þar er dreifður um allan bæinn í mörgum fallegum byggingum, sérstaklega er aðalbyggingin glæsileg. En fyrsta kvöldið var ég lítið í menningunni nema lágmenningunni, ég fór á eitthvað húllumhæ með Rósu og vinum hennar. Var þar glatt á hjalla og ég sá að Rósa var ekkert að ýkja með allt fallega kvenfólkið í Uppsala.

Daginn eftir fórum við til Stokkhólms sem er ein fallegasta borg sem ég hef séð. Reyndar hef ég ekki séð þær margar þannig að úrtakið er ekki tölfræðilega marktækt en fegurð er jú einnig illmælanlegt hugtak. Að byggja borg á mörgum eyjum og hólmum er góð hugmynd. Skora ég á borgaryfirvöld í Reykjavík að brúa sundin yfir í Viðey og Engey og byggja þar eitthvað sniðugt.Óneitanlega fallegur bær

Sérstaklega er gamli bærinn í Stokkhólmi skemmtilegur. Mjóar hlykkjóttar götur með endalausum smábúðum sem selja allt milli himins og jarðar. Götulistamenn og böskarar á hverju horni, fallegt mannlíf, falleg hús. Ef ég réði einhverju í Reykjavík myndi ég framkvæma stórfellda sögufölsun, koma flugvellinum úr Vatnsmýrinni og byggja þar nýjan gamlan miðbæ í nákvæmlega þessum stíl. Göturnar eru svo þröngar að bílar komast varla um þarna, enda eru margar göturnar einungis opnar fyrir leigubíla, þær sem eru bílfærar á annað borð.

Sunnudagurinn fór svo í að skoða Uppsala betur. Þar skoðuðum við m.a. dómkirkjuna sem er býsna tilkomumikil bygging. Þar eru hinir og þessir konungar grafnir og m.a. er þar að finna skríni Erik den helige og herbergi tileinkað Dag Hammerskjöld svo eitthvað sé nefnt. Rósa með nýjan stíl Eftir það fórum við meðal annars í garð Carls von Linné, höfund tvínafnakerfisins og einn af risunum í líffræði. Að sjálfsögðu þurfti ég að fá mynd af mér með kallinum. Í garði hans er að finna plöntur frá öllum heimshornum, sumar þeirra eru orðnar nokkur hundruð ára gamlar. Það gladdi mig að sjá þarna í fyrsta skipti plöntur af ættkvíslinni Laurus en nafn mitt Lárus er einmitt dregið af þessum plöntum. Leiðréttist hér með einnig sá þráláti orðrómur um að Lárus sé komið af latneska heitinu á mávaættinni Larus. Að sjálfsögðu lét ég Rósu taka mynd af mér með nafna mínum. Ekki er hægt að segja að þetta hafi verið fagnaðarfundir af hans hálfu en ég var allavega mjög glaður.

Sitthvað fleira var gert í Uppsala en ég nenni ekki að skrifa meira um þetta. Það var þó eftirminnilegt að bíða í tvo klukkutíma eftir hamborgara á stúdentapöbbnum vegna þess að kokkarnir voru í einhverri uppreisn gegn kúgara sínum matseljunni. Við fengum frían íspinna í sárabætur. Það var hreinlega ekki þess virði verð ég að segja.

En í heildina séð var þetta mjög góð ferð. Þrátt fyrir að hafa þurft að sofa í fatlaðasta svefnsófa sem ég hef séð og að við misstum af Kalla og sælgætisgerðinni, að hluta til vegna hrikalegrar biðraðamenningar Svía, og að ég fékk ekki miða með lestinni á sunnudeginum og þurfti að taka morgunlestina á mánudeginum og missti því af fyrirlestri þá skipti það litlu í heildina séð. Þetta var hin ágætasta ferð og gott að komast aðeins út fyrir Skövde. Næst fer ég líklega 17. október en þá ætla ég á tónleika með Bob Dylan í Stokkhólmi. Ég er nú þegar farinn að hlakka til þeirrar farar. Svo er kannski smuga að maður fari einhvern daginn til Kaupmannahafnar og heilsi upp á Davíð. Það er aldeilis munur að vera laus af eyjunni og að vera frjáls ferða sinna. Get bara farið þangað sem mér dettur í hug, næstum því. Rósa með nýjan stíl Myndir af þessum herlegheitum hafa verið færðar á myndasíðuna en hún er eiginlega að syngja sitt síðasta. Verð líklega að reyna að laga þetta (lesist: biðja Óla um að laga þetta). Sú síða fer að verða tveggja ára sem þykir örugglega gamalt í Netlandi.

Annars er það að frétta að ég er orðinn það sleipur í sænsku að ég get beðið um pulsu í sjoppu og cola með. Með þessu áframhaldi verð ég farinn að semja ljóðabálka á sænsku fyrir vorið. Einnig ber því að fagna að í dag fékk ég loksins sænska kennitölu og opnaði því samdægurs sænskan bankareikning. Sænska skrifræðið var í essinu sínu og ég fékk heilan haug af pappírum, tvo öryggiskóða, eitt skafkort og fæ loks debetkort fyrir helgi. Það er ótrúlegt hvernig einfaldir hlutir geta verið flóknir hér í Svíalandi. Þeir sem kvarta yfir skrifræði heima hafa líklega aldrei yfirgefið landið.

Læt ég þessum sundurlausa pistli hér með lokið.

3 andsvör við “Uppsala/Stokkhólmur”

  1. Óli

    jæja, kl að ganga þrjú og ég búinn að fiffa myndaalbúmið handa þér svo það er eins gott að þú farir að taka mikið af myndum framvegis! ;)

  2. Lalli

    Óli þú ert Maðurinn, eins og alltaf!

  3. Davíd

    Ertu med eitthvert símanúmer sem hægt er ad ná í thig í?