Archive for ágúst, 2005

Ferðin til Skövde

Ætla að taka saman nokkra punkta um ferðina hingað nú þegar ég er búinn að tengja kjölturakkann minn við Netið. Þetta er aðallega fyrir sjálfan mig svo að ég muni þetta þegar ég er orðinn gamall og ruglaður. Megið skoða þetta líka ef þið viljið.

Read the rest of this entry »

Intelligent design

Snilld

Hasslum

Fékk herbergi á einhverju stúdentakollegi hér í Skövde sem er á svæði sem kallast Hasslum og er í námunda við skólann. Skrifa meira þegar að ég get komið fartölvunni minni aftur í samband við Netið. Hef ekki þolinmæði í þessi sænsku lyklaborð sem hafa hvorki ð, þ né æ. Ég hef komist að því síðustu daga að þetta eru afar mikilvægir bókstafir.

Flyt á morgun af gistiheimilinu sem ég hef haldið til á síðustu daga. Það verður ágætt að fá alvöru húsnæði aftur. Get þá kannski sett inn ferðasöguna og myndir frá Skövde.

Rabbabarabragð

Í Svíþjóð er hægt að fá jógúrt með rabbabarabragði, afhverju er það ekki gerlegt á Íslandi?

Hver er annars Jasmine?

Nenni ekki að skrifa meira á þetta kjánalega lyklaborð. Hef það gott og fer að læra Perl forritunarmál í fyrramálið.

Hej do (ritað eftir framburði).

Halló Svíþjóð!!

Hér með tilkynni ég að útrás Kommúnunnar Grúpp er hafin. Fyrst tökum við Norðurlöndin og Svíþjóð er fyrsti viðkomustaðurinn.

Hér í Skövde er gott að vera, ég get ekki sagt annað. Það er alltaf gott veður hérna, steikjandi hiti og sól á hverjum degi. Þessi bær kom mér skemmtilega á óvart en það var búið að hræða mig standslaust með því að þetta væri krummaskuð hið versta. Í augum Íslendingsins er þessi bær stórfínn, ekkert heima jafnast á við hann nema líklega Reykjavík, en veðrið hér er miklu betra.

Félagslífið hérna er best lýst með orðinu svakalegt. Ætlast er til þess að við séum í standslausu partí núna í tvær vikur og alltaf til klukkan tvö á næturnar. Sem dæmi má nefna að næsta þriðjudag er drykkjukeppni sem hefst klukkan fjögur um daginn! Þetta er félagslíf sem mér líkar.

Aðbúnaður námsmanna í Svíþjóð er svo miklu betri en heima að það er hálfsvekkjandi að sjá. Sem lítið dæmi má nefna að nemandafélagið hérna hefur yfir að ráða stóru húsi sem ætlað er eingöngu til skemmtanahalds. Þar er m.a. stór salur með sviði fyrir hljómsveitir, þrír barir, setustofur o.fl. Hér er fólk líka virkilega hvatt til þess að fólk sé í skóla, ólíkt því sem mér finnst tíðkast heima.

Ég tók strax þá ákvörðun að kalla mig Lalla hér úti þar sem enginn gat sagt Lárus Viðar, skiljanlega. Indverski vinur minn Jaggy sagði mér að á hans tungumáli, einu af mörg hundruð sem töluð eru á Indlandi, þýðir Lalli fallegur, gáfaður og rjóður maður. Lalli er einnig til í finnsku en hin finnska Salle tjáði mér að Lalli er þjóðsagnapersóna sem fór að einhverju vatni og drapst líklega þar. Í Finnlandi er til staður sem heitir Hús Lalla á finnsku. Einhvern tímann ætla ég þangað og slá eign minni á þann stað.

Þessi orð eru rituð á netcafé. Þegar að húsnæðiskreppa mín leysist fæ ég nettengingu og þá skrifa ég eitthvað meira og set jafnvel inn myndir ef færi gefst.

Hej hej.

Bless Ísland

Mér skilst að ég eigi að mæta í flugvél á morgun sem fer í loftið kl. 7:30 og flýgur með mig til Kaupmannahafnar. Þaðan fer ég í lest til bæjarins Skövde í Svíþjóð og mun ég dunda mér þar í eitt og hálft ár.

Ég þakka öllum sem komu í frábært kveðjupartý í gær. Það er margt sem kemur upp í hugann á svona tímamótum en þar sem það er nótt, og ég á bara eftir að fá fjögurra tíma svefn í mesta lagi, þá ætla ég ekki að vera með langlokur að sinni.

Verið þið sælir Íslendingar. Megið þið lifa á athyglisverðum tímum.

Vrkjunarmótmæli

Líklega er ég ragmenni hið versta en ég hef gefist upp á því að mótmæla Kárahnjúkavirkjun. Stundum er einfaldlega komið að því að segja allt í lagi, byggið þessar stíflur ykkar og verði ykkur að því. Fáið álver í Reyðarfjörð ef það er það sem þið vlljið. Fyrst að fólki verður ekki haggað með rökum þá verður það að læra af reynslunni.

Fyrst að meirihluti Alþingis samþykkti þessa vitleysu, sem kosinn er af þjóðinni, þá beygi ég mig undir það með óbragð í munninum. Margir segja að nú ætti að nýta tækifærið og koma í veg fyrir að annað eins gerist aftur. Hins vegar er kannski vandamálið að þetta gerist aldrei aftur. Það er enginn raunhæfur virkjunarkostur á landinu sem á eftir að hafa jafn eyðileggjandi áhrif og Kárahnjúkavirkjun. Enginn.

Þetta er einhver sá versti virkjunarstaður sem hægt er að hugsa sér út frá umhverfisáhrifum, bæði þeim sem eru augljós og að ég tali ekki um hugsanleg áhrif sem þetta getur haft síðar meir. Ef allt fer á versta veg erum við að tala um versta umhverfisslys seinni ára í Evrópu.

Það er grátlegt að öll þessi fyrirhöfn og eyðilegging er til að skapa 600-800 störf á Austurlandi og auka þjóðartekjurnar. Það er gert með því að reisa álver. Ég hef unnið í álveri og það var viðbjóðsleg vinna sem enginn vill gera að ævistarfi sínu. Við skulum sjá til hvort að mannlíf á Reyðarfirði eigi eftir að blómgast eftir að þeir hafa fengið þessa verksmiðju. Ég ætla að leyfa mér að efast um það fyrirfram.

Þeir mótmælendur sem hafa verið að angra verktakana á svæðinu undanfarið eiga samúð mína en þetta er of lítið, of seint og á vitlausum stað. Verktakarnir eru einungis að vinna sína vinnu, hinsvegar á að beina mótmælunum að þeim sem taka ákvarðanir sem þessar.

Einn dagur eftir

Ég ætla að hafa morgundaginn sem minn síðasta vinnudag. Sé meira að segja fram á það að klára allt á morgun sem eftir stendur. Svo fer ég bara að pakka, kveð fólkið og flýg til Svíþjóðar á mánudaginn.

Verð að viðurkenna það að ég er enn ekki búinn að átta mig á þessu. Geri það vonandi á mánudaginn þegar að ég lendi í Kaupmannahöfn. Fjórða sinn á ævinni sem ég fer úr landi og í fyrsta sinn sem ég verð í útlöndum til langframa. Þetta verður nú skrítið en líklega skemmtilegt.

Dómsdagsmynd

Jæja, ég er margs vísari um global dimming. Annars var þessi mynd í dramatískari kantinum. Það vantaði bara Utangarðmenn til að spila undir með þulinum í þessari mynd: „Þið munuð öll, Þið munuð öll, Þið munuð öll, Deyja!„. Þvílíkt sem menn leggja sig fram um að hræða fólk með svona heimildarmyndum. Eins og efnið sjálft sé ekki nógu hræðilegt.

Hvað með það þá var þetta mjög fróðleg mynd um efni sem ég hafði lítið heyrt um áður. Annars ætti þetta kannski ekki að koma mikið á óvart. Hver sá sem séð hefur gervihnattarmyndir, sérstaklega af Kína og A-Evrópu, sér þvílík mengunarský maðurinn hefur búið sér til með iðnaðarbauki sínu.

Verst var þó niðurstaðan, að með minnkandi loftmengun eiga gróðurhúsaáhrifin að aukast hraðar. Þetta er aðstaða sem erfitt er að gera gott úr. Vonandi að efni þessara rannsókna og þessarar myndar eigi eftir að ná athygli almennings og ráðamanna. Loftslagsbreytingar virðast vera enn stærra vandamál en talið hefur verið, nóg var nú fyrir.

Einnig var það sorglegt að mengun frá Vesturlöndum er nú talin hafa valdið þurrkunum í Afríku sunnan Sahara á 8. og 9. áratugnum. Ekki nóg með að Vesturlöndin hafi arðrænt Afríku og rúið hana inn að skinni heldur sendu þau henni þurrka og ótrúlegar hörmungar, óafvitandi reyndar en samt. Hvers eiga Afríkumenn eiginlega að gjalda?

[Ég bið menn um að taka örlagahyggjuna sem kemur fram í síðustu málsgrein ekki alvarlega.]

Rökkvun og rústun

Það er athyglisverð heimildarmynd í kvöld á RÚV um rökkvun eða global dimming. Þrátt fyrir að stóru orðin séu ekki spöruð í umfjölluninni þá hefur ekki mikið heyrst um þetta nýfundna vandamál, þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig myndin tekur á þessu.

Spái því að Vefþjóðviljinn eigi eftir að birta umfjöllun í vikunni þar sem þessi mynd verður afgreidd sem áróður nýmarxista og öfgagræningja.