Archive for júlí, 2005

Sveitin um verslunarmannahelgina

Nú ætla ég í sveitina en það er nokkuð langt síðan að ég fór þangað síðast. Þetta verður í síðasta sinn sem ég verð í sveitinni þangað til um næstu jól. Það er nokkuð undarleg tilhugsun.

Þau ykkar sem ætla á hátíðir vil ég biðja um að ganga hægt um gleðinnar dyr og nota bílbelti og getnaðarvarnir þar sem það á við.

Friður sé með yður.

Andlaus í blíðunni

Nú hef ég eytt út tveimur óloknum pistlum sem áttu að fjalla um hryðjuverk, Egil Helgason o.fl. En þegar veðrið er svona gott á ég erfitt með að koma orðum að hlutunum. Auk þess hafa góðir menn sagt allt það sem ég vildi sagt hafa betur en ég gæti gert.

Af þeim sökum ætla ég ekki að sitja lengur eins og bjáni fyrir framan tölvuskerminn heldur ætla ég út að skokka í Fossvoginum eins og bjáni.

Nú væri gaman að eiga iPod til að troða í eyrun.

Fréttayfirlit

Líklega hef ég leyst strætómál mín til frambúðar með því að leggja á mig aðeins meiri göngu. Fyrst að það er sumar þá skiptir það litlu auk þess sem það er heilsusamlegt að ganga.

Ég og strætó

Þar sem ég er mikill umhverfisfasisti í mér þá hef ég hingað til aldrei fjárfest í bíl. Hefur það valdið mörgum nútímamanninum miklu hugarangri, því flestir telja sem svo að blikkbeljurnar veiti fólki ótakmarkaða lífsfyllingu og hamingju og skilja ekkert í þessu vali mínu. En ég er þrátt fyrir það á þeirri skoðun að námsmenn sem eiga ekki börn hafi lítið við bifreiðar að gera. Þess fyrir utan eru flestir bílar umhverfisspillandi.

Hvað um það, menn sem hafa valið eins og ég þurfa að leita á náðir almenningssamgangna, sem eru alls ekki í tísku þessa dagana. Um síðustu helgi tók Strætó upp nýtt leiðakerfi sem ég veit ekki hvað mér á að finnast um. Í rauninni er ég ekki í neinni aðstöðu til að sjá hvernig nýja kerfið kemur út í heildina séð. En ef ég tala einvörðungu út frá sjálfum mér er nýja kerfið hálfgerð hörmung.

Strætó nr. 7 hefur verið minn strætisvagn síðan ég flutti í Bústaðahverfið fyrir tveimur árum. Hann fer niður í HÍ og í sumar notaði ég hann til að fara upp í Ártún og þaðan yfir í Grafarvoginn þar sem Prokaria er staðsett.

Nú er hinsvegar Snorrabúð stekkur og við í Bústaðahverfinu sitjum uppi með einn strætisvagn, nr. 11, sem ekur Bústaðaveginn í stað fjögurra leiða áður. Sá keyrir á milli Mjóddar og Hlemms og því er skásta úrræðið fyrir mig að fara með honum upp í Mjódd og þaðan með nr. 24 yfir í Grafarvog. Ég hef reyndar verið að spukulera að ganga niður á Miklubraut og taka stofnleið 6 upp í Grafarvog. Gef skýrslu síðar eftir að ég hef reynt það. Allavega hefur leið mín í vinnuna lengst töluvert og mér finnst það fúlt.

Hins vegar sýnist mér að nýja hugmyndafræðin á bak við leiðakerfið, Think train – Drive bus, með sínum stofnleiðum sé ágætur grunnur til að byggja betra kerfi á heldur en það gamla var. Þannig að þrátt fyrir allt held ég að breytingarnar séu til hins betra, en eitthvað þarf að bæta kerfið áður en það telst vera gott. Með hækkandi olíuverði verða almenningssamgöngur mikilvægari eftir því sem árin líða þannig að líklega á kerfið eftir að eflast síðar meir.

Skaftafell

Ég verð í Skaftafelli um helgina og mun þar ganga á fjöll og drekka öl. Kem aftur á sunnudaginn líklega.

Friður.

Einn í vinnunni

Í vinnunni er núna svokallaður dauður tími. Ætlast er til þess að fólk sé í fríi þessa vikuna og tvær næstu. Þar af leiðandi eru aðeins örfáir að vinna núna, sumarstarfsmenn eins og ég hafa þó ekki efni á að taka sér frí enda þarf ég að klára nýsköpunarsjóðsverkefnið mitt.

Núna t.d. er ég aleinn eftir í vinnunni. Þetta væri reyndar gott upphafsatriði í hryllingsmynd. Litli sumarstarfsmaðurinn situr einn eftir í vonda líftæknifyrirtækinu og er að vinna að tilraunum. Skyndilega heyrast undarleg hljóð úr einum kæliskápnum, sem er merktur „Do not open, never“. Sumarstarfmaðurinn sér ekki miðann og kíkir inn í kælinn og er að sjálfsögðu étinn af einhverju skrýmsli sem vísindin hafa búið til með fikti sínum í genunum.

Önnur möguleg byrjun væri sú að ég ætti eftir að opna einhverja veirurækt í ógáti sem ætti eftir að breiðast út um Reykjavík og breyta öllum í zombies. Hmm, kannski maður ætti að fara heim bara áður en eitthvað hryllilegt gerist.

Keyrsla

Eins og svo oft áður er sumarið búið að vera nær standslaus keyrsla. Partý hér og þar, hátíðir, útilegur, útskrift, tónleikar o.fl. Eins og sumrin eiga að vera. Á laugardaginn fór ég frekar snemma að sofa og svaf almennilega út í fyrsta skipti í ca. 4 vikur. Ég tel það ekki að sofa út ef maður vaknar timbraður. Þá hefur maður líka oft ekki sofið nema í ca. 5 tíma.

Þetta sumar er þó búið að vera afar þægilegt hvað vinnuna snertir þannig að maður getur hvílt sig þar á milli helga.

Næstu helgi er svo útilega í Skaftafelli en eftir það er víst komin verslunarmannahelgi. Ég held að tíminn líði mun hraðar eftir því sem að maður hefur það betra. T.d. hef ég aldrei haft það betra enda hefur sumarið ætt áfram.

Þar sem ég fer einungis á skipulagðar útihátíðir á þriggja ára fresti þá veit ég ekki hvað ég á að gera af mér næstu verslunarmannahelgi. Ég fór á Galtalæk 1995, Akureyri 1998, Eldborg 2001 og Eyjar 2004 þannig að ég kemst ekkert fyrr en 2007. Líklega mun ég fara heim í sveitina um þessa verslunarmannahelgi og stinga út úr gömlu fjárhúsunum svo hrútarnir komist þar fyrir næsta vetur.

Það verður líka ágætt að taka smá hlé frá þessu öllu saman. Einnig veitir manni ekki af því að spara aurinn fyrir flutninginn til annars lands.

Snoop Doggy Dogg

Tónleikarnir í gær fóru fram úr björtustu vonum. Snoop fór algjörlega á kostum og tónleikarnir vel heppnaðir í alla staði. Upphitunarhljómsveitirnar fóru eiginlega fram hjá mér en Snoop sýndi snilldartakta og náði áhorfendum gjörsamlega með sér.

Þeir sem misstu af þurfa ekki að örvænta, því Snoop vill koma til Íslands sex sinnum á ári héðan í frá, sagði hann okkur. Líklega er því hægt að skrá enn eitt nafnið í Íslandsvinabókina.

Styttist í Snoop

Nú er einungis einn dagur í tónleikana með Snoop. Ég var á Hressó í gær og ég bað DJ Heiðar Austmann um að spila Snoop (já já, þetta var mjög plebbalegt allt saman). Síðan spilaði hann leiðinlegasta lagið með honum, Drop it like it’s hot. Mér fannst það ekkert sniðugt.

Að vera töff

Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir einna mestu máli í lífinu að vera töff. Með þetta viðhorf að leiðarljósi fór ég í sportfataverzlun og keypti mér föt fyrir ræktina, sem ég ætla mér að stunda með Guðjóni. Einungis var verzlaður hátískufatnaður af fínustu gerð sem ég vona að eigi eftir að fela að hluta í hversu lélegu formi ég er.