Archive for júní, 2005

Innganga í Amnesty

Fór áðan í Kringluna og keypti mér bjór og stuttbuxur fyrir útilegu helgarinnar. Á leið minni varð ung kona sem vildi endilega að ég gengi í Amnesty samtökin á Íslandi. Ég sagði bara já, veit um fá samtök sem ég ber jafnmikla virðingu fyrir og Amnesty. Þrátt fyrir að vera haldinn félagafælni þá gekk ég í þetta félag án þess að hika.

Síðan styrki ég starfið um 700 kall á mánuði, það er ekki einu sinni fyrir bíómiða þannig að ég hlýt að ráða við þau útgjöld.

Mengun frá álverum

Mig langar til að benda á nýlegt svar á Vísindavefnum, þar sem fram kemur að nýja álverið á Reyðarfirði á eftir að losa jafn mikið magn af koltvísýringi út í andrúmsloftið og 172.000 bílar losa á ári hverju. Það jafngildir nokkurn veginn öllum bílaflota landsins. Önnur mengun fylgir einnig álverum eins og brennisteinsdíoxíð og flúor sem á líklega eftir að valda mikilli staðbundinni mengun þarna fyrir austan.

Síðan eru uppi áform um að stækka álverið á Grundartanga og byggja nýtt á Húsavík og í Helguvík. Líklega getum við Íslendingar kvatt ímynd landsins á næstu árum, sem hefur verið kynnt sem frekar ómengað og ósnortið land.

Fjandans brjálæði er þetta í landi sem á að vera eitt af tíu ríkustu löndum heims. Þurfum við þessar eiturspúandi verksmiðjur út um allt? Höfum við ekki komist þetta langt án þeirra?

Upptekinn

Mér sýnist að næstu fjórar helgar séu fráteknar fyrir alls kyns atferli. Þetta verður mikil törn.

Eiríkur Jónsson

Ég ætlaði að segja eitthvað um Eirík Jónsson en ég sé að Ásgeir H er búinn að segja nokkurn veginn það sem ég vildi sagt hafa. Þannig að ég vísa bara á hann í staðinn og spara mér skrifin.

Útskriftarathöfnin

Menntunarstig íslensku þjóðarinnar hefur líklega hækkað í gær þegar ríflega 800 kandídatar úr Háskóla Íslands mættu upp í Egilshöll til að taka við prófskírteinum sínum. Athöfnin átti að hefjast kl. 1 en tafðist um ca. 20 mínútur vegna mikils umferðaröngþveitis sem myndaðist fyrir utan höllina, en það var óhemjumikið af fólki sem mætti til þessarar athafnar.

Mér fannst þessi athöfn vera afar virðuleg. Fyrst risu allir úr sætum sínum þegar að rektor ásamt deildarforsetum gekk í salinn. Allir voru þeir klæddir í skikkjur sínar og rektor var með stóra gullkeðju um hálsinn að hætti Ali G. Eftir stutt ávarp gengu kandídatar á svið hverjir á eftir öðrum og tóku við sínu skírteini frá sínum deildarforseta. Flottastir voru þeir forsetar sem notuðu latnesku titlana. Síðan var rektori heilsað og þá var það búið.

Á tímabili stressaðist ég upp áður en þetta fór í gang en svo sá ég að það var algjör óþarfi. Nú á ég semsagt skírteini sem segir:

Háskóli Íslands Raunvísindadeild gerir kunnugt: Lárus Viðar Lárusson hefur að loknu námi og tilskyldum prófum í líffræði á braut sameindalíffræði, frumulíffræði og örverufræði hlotið lærdómstitilinn Baccalaureus Scientiarum Reykjavík 25. júní 2005

Þetta er þvílíkur léttir verð ég að segja. Búinn að stefna að þessu markmiði síðan 1999 líklega. Samt skrítið að vera búinn að þessu, dálítil tómleikatilfinning sem fylgir í kjölfarið.

Ég hafði ekki planað neina veislu þar sem ég ætlaði að vera á reunion-móti Laugargerðisskóla í gærkvöldi en það fór út um þúfur. Í staðinn fórum við Elli og Jón Óskar að heimsækja Braga og þangað kom Ásgeir H einnig. Maður er orðinn svo gamall að ég tek hitting í heimahúsum fram yfir skemmtistaðina í miðbænum.

Allavega ég er laus úr HÍ. Leigubílstjórinn sem keyrði mig til Egilshallar spurði mig hvort að ég væri ekki feginn að vera búinn með þetta. Ég svaraði að ég hefði aldrei verið jafn feginn með neitt. Bráðlega ætla ég að taka saman árin í HÍ til minningar því það er ótrúlegt hvað maður er snöggur að gleyma hlutunum. Það er því von á langri og þreytandi færslu um mig og HÍ bráðum, bíðið spennt.

Kyoto bókunin

kyoto.jpg

Jónas og fleira

Jónas Kristjánsson er mjög róttækur og reiður oft í skrifum sínum, t.d. hérna. Þrátt fyrir að ég sé ekki skoðanabróðir hans í mörgu, þá er hressilegt að sjá menn tjá sig í botn. Það er ekkert verið að liggja á sínum skoðunum.

Besti félaginn

Þrátt fyrir að það sé mjög gott fólk í Prokaria kann ég þó best við einn róbótann eða þjarkann. Hann heitir Biomek 2000 og gerir allt sem ég segi honum að gera. Með glöðu geði pípettarar hann sýni í 384 holu bakka á 12 mínútum og hann kann líka að gera margt fleira eins og að hreinsa plasmíð.

Herra Biomek er dugnaðarforkur sem tekur sér aldrei kaffi eða sígópásu heldur vinnur ótrauður áfram, sólarhringum saman ef því er að skipta. Aðeins ef fleiri væru eins og herra Biomek, þá væri framlegðin nú meiri á Íslandi.

Hvað skyldi Marx hafa sagt ef hann hafði kynnst verkafólki á borð við herra Biomek? Ættu róbótar að fá að stofna stéttarfélög? Svona spurningar vakna þegar ég fylgist með herra Biomek strita fyrir mig.

Hátækniiðnaðurinn? Hann gæti alveg virkað held ég.

Stefnan

Ég þakka góð viðbrögð við grein gærdagsins! Veit ekki hvort maður ætti að leggja í blaðaskriftir en þetta verður allavega mitt fyrsta framlag til hins nýja vefrits Kommúnunnar þegar það opnar.

Annars hefur þetta mál verið lengi að brjótast um í mér en oft tekur það tíma fyrir heilann að raða efninu saman. Líklega hefði ég þó aldrei komið pistli sem þessum frá mér, ef það væri ekki fyrir kúrsinn sem ég tók í vor; þættir úr sögu og heimspeki vísinda. Hann er einstaklega gagnlegur að mörgu leiti, sérstaklega fyrir raunvísindafólk sem er dálítið matað af staðreyndum í gegnum sitt nám. Kannski ég taki það þó skýrt fram að ég tel ekki að raunvísindanám sé heilaþvottur eins og ákveðnir vísindasagnfræðingar halda fram. Hins vegar er þarna tekið öðruvísi á hlutunum en maður er vanur, auk þess sem maður lærir heilmargt í vísindasögu og vísindaheimspeki. Slík þekking verður svo aftur öflugt vopn til að herja á gervivísindapakkið.

Af umhverfismálum

Ég verð að taka undir með nýlegri grein á Múrnum sem fjallar um loftslagsmál. Þar er minnst á þá skrítnu staðreynd að þrátt fyrir þá almennu skoðun flestra vísindamanna heims í þessum fræðum, að loftslag á Jörðinni fari nú hlýnandi, fer samt mjög mikið fyrir skoðunum minnihlutans í þessum efnum í fjölmiðlum og víðar. Þ.e. að loftslag fari ekki hlýnandi og ef svo er sé það ekki af mannavöldum.

Nú er ég ekki á móti því að minnihlutinn tjái sig, síður en svo. En hins vegar skil ég ekki alveg þá afstöðu manna að hafna kenningum um loftlagsbreytingum af mannavöldum algjörlega. Yfirleitt er rökstuðningurinn á þá leið að á öðrum tímum jarðsögunnar hafi loftslag verið mun hlýrra en nú og því séu hitastigsbreytingar ekki í sjálfu sér óeðlilegar. Þrátt fyrir að þetta sé satt og rétt útilokar það ekki að núverandi loftslagsbreytingar séu einmitt af mannavöldum.

Í raun og veru er það álit flestra vísindamanna á þessu sviði að núverandi loftslagsbreytingar séu einmitt af mannavöldum. En hvað veldur þá þessari andstöðu meðal minnihlutans?

Vefþjóðviljinn er sá fjölmiðill sem hvað ötulast hefur bölsótast út í umræðuna um loftlagshlýnun. Reglulega eru dregnir fram í pistlum þeirra hinir og þessir vísindamenn sem segja að loftslagsbreytingar séu ekki neitt vandamál. Meira að segja sé þetta ekkert nema jákvætt því með auknum koltvísýringi í lofthjúpnum sé búið að auka næringarframboð fyrir plöntur!

Skoðun míns sjálfs á þessum málum er sú að loftslagsbreytingar séu að hluta til ofmetnar. Það þýðir þó ekki að gera eigi lítið úr þeim eins og Vefþjóðviljinn og co. gerir. Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum og reyna að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda með einhverjum hætti. Það þýðir lítið að ýta þessu hugsanlega vandamáli til hliðar með kæruleysislegum hætti og láta sem þetta sé hreinlega allt uppspuni frá rótum.

Andstaða Vefþjóðviljans við takmörkum gróðurhúsalofttegunda tel ég mega rekja til þess að hún er slæm fyrir efnahaginn, að minnsta kosti til skamms tíma litið. Í raun gildir það um flest alla umhverfisvernd að hún er vond fyrir budduna. Umhverfisverndarsinnar setja sig að sjálfsögðu á móti virkjunum, skógarhöggi, veiðum, losun úrgangs, bílum og hverju því sem valdið getur umhverfisspjöllum. Þetta kemur illa við iðnaðarstarfssemi af öllum toga því vissulega er ódýrara að menga umhverfið heldur en að vernda það, sé einungis reiknað fá ár fram í tímann.

Til að reyna að gera lítið úr græningjum, kalla Andríkismenn þá t.d. arftaka marxistanna, öfgamenn, heimsendaspámenn o.s.frv. Þrátt fyrir að það megi finna einstakar greinar sem styðja við umhverfisvernd, eins og t.d. um verndun Héðinsfjörðs, þá er það kannski ekki beint út frá umhverfissjónarmiðum heldur frekar efnahagslegum rökum, verndun eignaréttsins og þar fram eftir götunum.

Eins og ég lærði í vísindasögu um daginn, þá skiptir mestu máli fyrir tilgátur og kenningar í vísindum að þær hafi almennan stuðning vísindasamfélagsins. Yfirleitt má afskrifa hugmyndir manna um hitt og þetta í vísindum ef einungis fámennir hópar vísindamanna aðhyllast þær. Þrátt fyrir að hægt sé að sjálfsögðu að finna dæmi um nýjar kenningar sem hafa ekki verið útbreiddar í fyrstu en síðar fengið hljómgrunn, þá er hitt mun algengara, að menn hafi komið með tilgátur eða kenningar sem stóðust ekki. Oft fer þannig um slíkar kenningar að þær falla í gleymsku eftir að upphafsmenn þeirra falla frá sjálfir.

Eitt helsta einkenni gervivísinda er einmitt það að einungis fámennir hópar manna fylgja þeim. Í raun er líka margt sameiginlegt með þeim sem hafna loftslagsbreytingum af mannavöldum og öðrum þekktum hópi gervivísindamanna, nefnilega sköpunarsinnum. Sköpunarsinnar leggja sig mikið fram um að týna til vísindamenn sem hafna þróunarkenningu Darwins líkt og Andríkismenn vitna eingöngu í þá vísindamenn sem hafna kenningum um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Skiptir engu þrátt fyrir að hægt sé að finna þúsund vísindamenn á öndverðum meiði á móti hverjum einum sem þeir týna til, samt eru þeir sem eru sammála þeim mun marktækari en aðrir að þeirra mati. Hinir eru oft einfaldlega kallaðir vitleysingar eða öfgamenn og þar fram eftir götunum.

Einnig er það oft einkenni gervivísindamanna að andstaða við kenningar þeirra eru oft stimplaðar sem samsæri á móti þeim. Ekki er laust við að finna megi fyrir samsæriskenningunum hér og þar í Vefþjóðviljanum, þar sem því er m.a. haldið fram að vegna þess að umhverfisverndarsinnanir stjórni útgáfu vísindarita á borð við Science þá fái „hinir“ ekki að birta greinar sínar þar. Einnig neyða græningjar þá til að segja af sér störfum, sem efast um gróðurhúsaáhrifin. Þetta sama ofsóknarbrjálæði má einmitt sjá meðal sköpunarsinna, þar sem þeirra boðskap er að sögn haldið niðri af tímaritum líkt og Nature sem neita að birta greinar þeirra um sköpunarfræðin.

Þetta verður ekki lengra að sinni um gervivísindin en ég ætla í framtíðinni að reyna að setja eitthvað meira niður til gamans um umhverfismál, sem eru eitt af mínum áhugamálum. Í rauninni er langstærsta ástæðan fyrir því að ég kýs Vinstri-Græna er sú að ég er víst umhverfisverndarsinni. Ég veit ekki mikið um pólitík og er enginn sérstakur vinstrisinni þannig séð. Mér finnst umhverfisvernd skipta meiru máli heldur en dægurþras stjórnmálanna, því hún á eftir að hafa sín áhrif, löngu eftir að allir verða búnir að gleyma hver seldi hverjum hvaða banka í den.