Archive for maí, 2005

Upp og niður

Upp: Setti upp tölvu í básnum mínum í dag á skrifstofu Prokaria. Á básnum mínum má finna margt gagnlegt s.s. skrifborð, áðurnefnda tölvu af Hewlett Packard gerð, heftara, gatara, límband, lampa, síma, penna, bækur um erfðafræði í bókahillum og svona mætti lengi telja. Ég kann vel við mig hérna, í gær kláraði ég tveggja daga verkefni á þremur klst þannig að ég hef það rólegt í dag.

Byrjaði á rannsóknarstofuvinnunni í morgun. Fékk þar minn hvíta slopp og pípettur, hanska, fjólubláa PCR bakka, logbók með gylltu letri á kápu og bara allt sem hugurinn girnist. Finnst það skrítið að fyrir nákvæmlega ári síðan var ég að slá frá þakgluggum.

Samt sem áður hefði ég ekki treyst mér í þetta starf eða svipuð fyrir ári síðan. Ef ég hefði ekki verið að stússast í verkefnum þetta síðasta skólaár hefði ég skilið fátt af því sem hérna fer fram.

Besta vinna ever

Í dag byrjaði ég í nýju vinnunni og það er skemmst frá því að segja að þetta er langbesta vinna sem ég hef fengið, enda keppir hún ekki við mikilfengleg störf. Verkefnið mitt er mjög áhugavert og eins og kennarinn orðaði það þá endar það sem grein í Nature, þ.e. ef allt gengur að óskum sem ekki er svosem víst. Kannski rétt að taka fram að ég sé um lítinn hluta af stærra verkefni en ég fæ vonandi nafn mitt á greinina. Vinnuaðstaðan er góð og mórallinn virðist mjög góður.

Ég tel það nokkuð ljóst að fara úr því að skafa steypumót yfir í það að stunda rannsóknavinnu í líftæknifyrirtæki, sé stærsta stökk upp á við á framabrautinni sem sést hefur síðan John Travolta fór úr Look Who’s Talking Now yfir í Pulp Fiction. Svo fæ ég meira að segja far upp í Grafarvoginn á morgnanna þannig að þetta gæti varla verið betra.

Yeah baby yeah!

Árshátíð og vinna

Árshátíð Vantrúar var haldin í gær og heppnaðist hún vel. Boðið var upp á dýrindis sælkeramat og miklar umræður voru í gangi. Þarna var ég frá 7 til 4 að morgni þannig að þetta var mjög gott kvöld. Nennti ekki niður í bæ enda er yfirleitt skemmtilegast að vera í heimahúsum heldur en á einhverjum sóðabúllum niðrí bæ.

Götupartý

Ég sá dálítið skemmtilegt á rölti mínu um Þingholtin í gærkvöldi.

Íbúar Sjafnargötunnar höfðu lokað götunni sinni af með gulum lögregluborða, sem er ekki mikið mál í sjálfu sér þar sem hún er einstefnugata. Síðan var slegið upp mikilli grillveislu í góða veðrinu á miðri götunni, mörg grill voru í gangi og stillt hafði verið upp stólum og borðum úti á götunni. Þarna sátu menn og gæddu sér á steikum og öllu tilheyrandi. Allar kynslóðir voru þarna samankomnar og virtust hafa gaman af.

Undir þessu hljómaði angurvær rokktónlist frá áttunda áratugnum með undurfögrum hetjusólóum. Þetta fannst mér gaman að sjá, fagurt mannlíf í miðbæ Reykjavíkur. Eina hverfið í Reykjavík sem var ekki byggt til að þjóna einkabílnum, enda er það flottasta og mannlegasta hverfið að mínu mati.

Kæruleysi

Eftir langvarandi bjórþurrð og skemmtunarleysi er ég að spukulera í því að kíkja út á lífið í kvöld og annað kvöld. Þetta átti ekki að vera svona en ég er hreinlega kominn út að mörkum hins bærilega í þessum efnum.

Samkvæmt þessari dagbók sýnist mér að ég síðast skemmt mér fyrstu helgina í apríl. Reyndar fór ég út aðeins í apríl og niður í bæ en það telst ekki með. Ég hreinlega verð að komast í smá sukk og svínarí, meira en mánuður síðan að ég fékk síðast bjórsopa. Þessi ölskortur gengur ekki lengur.

Mas á miðvikudegi

Gene Roddenberry sagði víst að tíminn væri sá eldur sem við öll brennum í. Allavega hefur tíminn þau áhrif á síðuna mína að hún hverfur smátt og smátt ef skrifin eru vanrækt. Það viljum við ekki því fátt er jafn aumkunarvert og tóm síða.

Síðasta skrefið

Kominn aftur í bæinn eftir dvöl í sveitinni. Mér finnst Reykjavík vera mjög rólegur og notalegur staður núna eftir að hafa verið umkringdur af móðursjúkum kindum og ofvirkum afkvæmum þeirra í nokkra daga. Í sveitinni bar fátt til tíðinda utan ógeðfellds veðurs, en vorið 2005 er þegar komið með stimpilinn harðindavor fyrir norðan, og fær það bráðlega fyrir vestan líka ef ekki fer að rætast úr þessu.

Núna þarf ég að klára fimm eininga ritgerðina mína fyrir 10. júní. Þrátt fyrir að ég þurfi í rauninni ekki að skrifa hana, þá finnst mér það aumt að klára ekki þetta verkefni sem ég hef eytt alltof miklum tíma í undanfarna fimm mánuði.

Ég þarf að skrifa hana með vinnunni reyndar sem hefst næsta mánudag en ég hugsa að ég hafi þetta af, hef skrifað eina þriggja eininga ritgerð fyrir þannig að ég veit hvernig þetta á að líta út.

Eftir að ég hef lokið því vona ég að ég hafi skemmtilegri hluti til að færa til bókar en leiðindin í HÍ.

Sveitin

Senn held ég upp í sveit til að taka á móti litlum lömbum. Í sveitinni tíðkast ekki svokallað internet og því verður ekkert skrifað hér í bráð né mun ég svara tölvupósti.

Kem einhvern tímann í næstu viku.

Megið þið lifa á áhugaverðum tímum. (þetta segja þeir í Kína)

Bókaútsala

Þessa dagana er mikil bókaútsala í Bóksölu stúdenta en allar útsölubækur eru á 70% afslætti. Ég stóðst ekki freistinguna og keypti eftirfarandi bækur.

Watson and DNA, Making a scientific revolution. Höf. Victor K. McElheny. Bók um James Watson og byltinguna í sameindalíffræði sem hann á stóran þátt í.

The Island of dr. Moreau. Höf. H. G. Wells. Hin fræga skáldsaga Wells í kiljuformi sem kostaði 160 krónur. Ég gat varla annað en keypt hana.

The diversity of living organisms. Ritstj. R. S. K. Barnes. Handhæg bók um flokkun og fjölbreytileika allra núlifandi fylkinga lífvera. Gott að hafa hana við hendina í framtíðinni.

Instant notes in animal biology. Höf. Richard D. Jurd. Bók sem mig minnir að lagt hafi verið til að kaupa í Dýrafræði A. Sá hana liggja þarna á 70% afslætti þannig að ég bætti henni í safnið. Virðist reyndar vera mjög sniðug bók sem ég vildi að ég hefði keypt mun fyrr.

Evolution of the vertebrates, A history of the backboned animals through time. Höf. Colbert & Morales. Þessi var svo stór og þung að ég varð að kaupa hana líka. Fer vel í hillu ef ég endist ekki til að lesa hana og svo er ágætt að hafa hana við hendina síðar meir.

Það er gaman að lesa góðar bækur þannig að nú á ég nóg að lesa í bili. Ef einhver heldur að ég sé einhvers konar nörd þá er það hinn mesti misskilingur.

Gamaldags

Hvaða forneskja er það eiginlega að þurfa að skila útfylltu eyðublaði upp á skrifstofu verkfræði- og raunvísindadeildar, ef maður vill útskrifast?