Archive for apríl, 2005

Benedikt XVI

Nú hefur nýr staðgengill Jesú Krists á jörðu verið valinn af öldungaráði kaþólsku kirkjunnar. Mun hann þýskur vera að uppruna og tekur hann sér nafnið Benedikt nr. 16 en það fylgir víst starfinu að skipta um nafn.

Eftirfarandi ummæli birtust á síðu Egils Helgasonar, fjölmiðlamanns með meiru, um þessar breytingar:

Það verður spennandi að fylgjast með þessum meinta rottweilerhundi kirkjunnar. Hann kemst að minnsta kosti ágætlega að orði þar sem hann varar við „harðstjórn afstæðishyggju sem ekki viðurkennir að neitt sé fullvíst og á sér ekkert markmið annað en sitt eigið sjálf og eigin þrár“. [hlekkur látinn halda sér]

Það er hálf undarlegt af Agli að velja einmitt þessi orð og hampa þeim, en líta fram hjá öllu hinu sem fram hefur komið á mbl.is um hinn nýja leiðtoga. (Burtséð frá því hversu ósvífið það er af pistlahöfundi á vísi.is að hlekkja í frétt á mbl.is)

Í annarri frétt um hinn nýja verðandi dýrling segir:

Hin mikla andstaða Ratzingers við því að kirkjan verði nútímavædd hefur gert hann að svörnum óvini frjálslyndari manna innan kirkjunnar. Hann hafnar því að konur fái að verða prestar, og að prestar fái að gifta sig auk þess sem hann fordæmir samkynhneigð. Hann hefur einnig fordæmt rokktónlist og segir hana „tjáningu hinna óæðri hvata“. Þá er Ratzinger andsnúinn því að Tyrkir fái inngöngu í Evrópusambandið og segir það „gríðarleg mistök“ ef land sem að mestu er byggt múslimum gangi í sambandið. Hann segist einnig andsnúinn kommúnisma, og segir slíkar stjórnir hafa verið smán okkar tíma. Hann vill að stefna kirkjunnar verði í takt við íhaldssömustu hópana innan hennar og að það eigi að gera til að bregðast við fækkun fólks í kaþólsku kirkjunni í Evrópu.

Í stuttu máli er hinn nýi páfi forpokaður afturhaldsseggur, þjakaður af fordómum gagnvart konum, samkynhneigðum, rokktónlist og múslimum!

Það verður semsagt lítil framför í stefnu kaþólsku kirkjunnar næstu árin og ekki hægt að vonast eftir neinum jákvæðum breytingum. Smokkar verða áfram mikið ó-ó en skírlífi verður líklega boðað af miklum móð. Prestum verður áfram bannað að giftast sem þýðir það að áfram eiga barnaníðingar eftir að flykkjast í þessi embætti, eins og hingað til.

Vonandi verður þó nýi páfinn öflugur í að boða frið, sá gamli mátti eiga það að hann var mjög á móti stríðsátökum. Reyndar eins og allir hugsandi menn eru.

Ég og Gegnir

Nú í febrúar skilaði ég af mér þriggja eininga rannsóknarritgerð um mæði-visnu veiruna. Eitt eintak af henni fór upp á Þjóðarbókhlöðu, svo að aðrir gætu notið þessa einstaka ritverks. Áðan sat ég fyrir framan Gegni upp á Hlöðu og prufaði að gamni mínu hvort að ég væri kominn inn í gagnagrunninn með mitt fyrsta opinbera verk.

Ég varð mjög hissa með niðurstöðuna því að í ljós kom að ég hef verið á skrá Landsbókasafnsins síðan 1998. Það ár kom út skólablað NFFA „Betra er seint en aldrei„, í ritstjórn Sigurðar Tómasar Helgasonar og ég var víst titlaður aðstoðarritstjóri.

Ég man hversu mjög Siggi bölvaði þessu blaði allt skólaárið 1997-1998. Venjan er að út komi tvö skólablöð í FVA, eitt um haustið og annað um vorið. Á þessu skólaári kom af ýmsum ástæðum einungis eitt blað um vorið og gott ef það kom ekki út fyrr en í vorprófunum sjálfum. Eftir þetta minnkaði áhugi Sigurðar á félagsmálum mjög mikið ef ég man rétt.

Mitt framlag til blaðsins var reyndar ekki mikið. Ég tók einhverjar myndir að mig minnir og svo aðstoðaði ég við eitt viðtal sem við tókum við Megas. Það fannst mér magnað að hitta sjálfan meistarann og spjalla við hann.

Allavega þá er ég skráður fyrir tveimur verkum í Gegni, geri aðrir betur. Reyndar grunar mig að flestir sem lesi þetta séu skráðir fyrir fleiru en ég.

Wikipedia

Það var fyrst fyrir nokkrum vikum að ég fór að skoða alfræðiorðabókina Wikipedia, sem er eins og margir vita byggð á framlögum fólks og er opin öllum þeim sem vilja bæta við eða breyta einhverju. Þetta er nokkuð sniðug hugmynd í sjálfu sér og gott framtak.

Í íslensku útgáfunni má finna ýmislegt, þar á meðal hluta sem fjallar um líffræði. Ég renndi aðeins yfir þetta en það er ekki mikið efni komið inn þarna ennþá. Sumt af því er með mörgum villum auk þess að einhver bjálfinn hefur lagt það af mörkum að búa til kafla um DKS sem er íslenskuð útgáfa af DNA. Enginn sameindalíffræðingur með sómatilfinningu tekur sér orðið DKS í munn, svo mikið er víst.

Einnig hefur einhver talið bráðvanta fróðleik um fyrirbærið dauðaholdris og smellt inn grein um það fyrirbæri. Líklega einhver sem hefur horft of mikið á CSI.

En þrátt fyrir þetta finnst mér Wikipedia bráðsniðug og hver veit nema að maður eyði einhverjum stundum eftir útskrift í að besserwissast og bæta við fróðleik um líffræði á íslensku útgáfuna. Eitthvað verður maður að dunda sér við á veturnar þegar að enginn verður skólinn lengur.

Tilfinningarök

Oft er sagt við mig og fleiri sem mótmæla rugli á borð við Kárahnjúkavirkjun að við séum einungis að beita tilfinningarökum umhverfisverndarsinna. Ég spyr á móti, eru það ekki tilfinningarök að vilja græða sem mestan pening? Er það ekki bara eitthvað sem manni finnst?

Eru þá öll rök kannski tilfinningarök að grunni til? Hvað skyldu rökfróðir menn segja um það?

Stuttlegt

Alltaf ætla ég að setjast niður og rita einhverjar hugleiðingar um stóru málin. T.d. ætla ég alltaf að taka saman mínar hugmyndir um skipulagsmál í Reykjavík, en þau eru mjög í tísku þessa daga.

Svo virðist að Kárahnjúkavirkjun verði verri hugmynd með hverjum degi sem líður á framkvæmdirnar, mikið væri hægt að skrifa þar líka.

Samgöngumálaráðherra er líklega fremstur meðal jafningja í ríkisstjórn, ásamt iðnaðarmálaráðherra, í kjördæmapoti og vitleysisgangi. Þar gæti ég mokað upp miklum hroða um fyrsta þingmann míns fyrrverandi kjördæmis. Það verður að bíða betri tíma.

En ég kem mér aldrei að þessu því að nú hefur verið skipt í prófgírinn. Eftir prófin leyfi ég heimsbyggðinni (þ.e. íslenskumælandi hluta hennar) að njóta þess sem ég hef um málin að segja.

Kvabb

Eftir því sem ég hef meira að gera því minna geri ég. Ég hef varla gert neitt af viti í þessari viku og það er að koma helgi.

Vona að starfsmannastjórinn í DeCode lesi ekki þessa síðu. Gæti komið illa út fyrir mig.

30%

Vefþjóðviljinn segir að um 30% starfandi manna vinni hjá hinu opinbera. Mér finnst það eiginlega skuggalega hátt hlutfall. Stenst þetta eða er þetta vitleysa?

Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem vitleysa kæmi úr því vefriti.

Vísavandræði

Fólk les þennan pistil á eigin ábyrgð. Hann er um sameindalíffræði.

Read the rest of this entry »

ÍE

Ég hringdi í Íslenska Erfðagreiningu í dag og spurði hvort að þeir vildu ekki njóta minna frábæru starfskrafta og yfirgengilegu rannsóknarhæfileika. Þeir sögðu kannski og boðuðu mig aftur í viðtal! Fannst það greinilega ekki nóg að taka rúmlega klukkutíma viðtal við mig um daginn.

Hómer Simpson er kommúnisti

Allvega samkvæmt þessu hér. Simpson fjölskyldan er boðberi byltingarinnar, ekki var ég búinn að fatta það.