Magnaður maí

Maí heitir í höfuðið á gyðjunni Maju sem var dóttir Atlasar í rómverskri goðafræði. Hún átti soninn Merkúríus með Júpíter, en Merkúríusi var reist mikið hof á Aventínusarhæð í Róm sem vígt var 15. maí árið 495 f.Kr. Sá dagur var eftir það sérstakur hátíðisdagur þeirra Maju og Merkúríusar.

Maí er góður mánuður af ýmsum ástæðum. Í maí kemur sumarið af fullum krafti, skólum lýkur og ég á afmæli. Maí er líka oft mjög erfiður mánuður því þá þurfa námsmenn að standa skil á námsefni vetrarins í prófum. Ég fer einungis í tvö stór lokapróf að sinni en samt er þetta alltaf jafn leiðinlegt. Einnig er erfitt að eiga afmæli á þessum tíma, sem sést á því að ég hef eiginlega aldrei haldið upp á það, nema e.t.v. þegar ég varð 21 árs, því þá var ég ekki í skóla. Það var þó hálf slappur fagnaður að mig minnir.

Maí verður sérstaklega leiðinlegur þetta árið. Fyrir utan prófin þarf ég að gera tvær ritgerðir. Aðra í vísindasögu sem ég er reyndar kominn langt með, hina fyrir fimm eininga verkefnið mitt. Einnig þarf ég að halda áfram með tilraunirnar eftir prófin og reyna að fá einhverjar haldbærar niðurstöður því þær vantar algjörlega. Að auki þarf ég að fara í sauðburðinn í sveitinni strax eftir prófin þannig að það lítur út fyrir strembinn maí.

Svo þarf ég að redda atvinnu í sumar. Vona að Nýsköpunarsjóður námsmanna reddi sumrinu fyrir mig, annars byggi ég hús enn eitt sumarið.

Lokað er fyrir andsvör.