Pakki í póstinum

Ég fæ mjög sjaldan merkilegan póst en breyting varð þar á í dag. Hvítt stórt umslag frá Högskolan Skövde kom heim og þar með var mér tilkynnt að ég hafði fengið inngöngu í meistaranám í lífupplýsingafræði sem byrjar nú í ágúst.

Satt best að segja gerði ég ekki ráð fyrir þessu þar sem ég var alltof seinn að sækja um. Ég er eiginlega á báðum áttum hvað ég eigi að gera þar sem Svíarnir sem ég vinn með, eða einn þeirra, var ekki viss um ágæti þessa skóla.

Best að búa til lista.

Kostir við að fara til Skövde: A) Mér finnst eiginlega nauðsynlegt fyrir alla að hafa búið úti í löndum í einhvern tíma, víkka sjóndeildarhringinn o.s.frv. B) Ef ég hætti í námi núna þá minnka líkurnar stórlega á því að ég haldi áfram seinna. Peningar eru ávanabindandi. C) B.Sc. gráða í líffræði er góðra gjalda verð en maður fær fyrst raunverulegt ríspekt þegar M.Sc. gráðu er náð. D) Að ná færni í Norðurlandamáli er alltaf gott. E) Ég hef mikinn áhuga á lífupplýsingafræði.

Gallar við að fara til Skövde: A) Peningar. Ég er á hausnum en hinsvegar geri ég ráð fyrir því að vinna fyrir mér í ca. 40 ár eftir að skóla lýkur þannig að ég gæti líklega náð að vinna þetta af mér. Í rauninni er langt síðan að ég gaf það upp á bátinn að verða nokkurn tíma ríkur þannig að þetta gæti sloppið með því að taka skuldabréf og meiri námslán. B) Einn Svíinn var að tala um að þetta væri ekki nógu fínn skóli. Á móti kemur að ég er ekki af aðalsættum þannig að hann er e.t.v. nógu góður fyrir mig. C) …..

Kostirnir eru semsagt fleiri en gallarnir. Ég hef undanfarið reynt að smygla mér inn hjá DeCode en ég hef það á tilfinningunni að það sé ekki alveg að ganga upp eins og stendur. Kannski er málið að fara út og læra aðeins meira meðan maður er ennþá barnlaus piparsveinn.

Best að sofa aðeins á þessu.

P.S. Þakka # fyrir að hvetja mig til að sækja um og ég óska honum einnig til hamingju með dótturina.

5 andsvör við “Pakki í póstinum”

 1. Óli

  Hér með hvet ég þig til að taka á þínum stóra og halda til Strumpalands á vit ævintýrana og verða mikill að vitum.

  Ég horfi oft til baka og spyr mig hvað ef ég hefði farið í skólan. Maður getur alltaf fengið vinnu en maður fær ekki alltaf tækifæri til að mennta sig.

  Ég vona að þú vaknir bara á morgun og takir þann póli í hæðina að fara til Strumpalands og taka þér bók í hönd.

  Nema þú viljir kanski koma uppá Skaga að vinna í Slippnum?

 2. silja

  áfram svíþjóð! ég get meiraðsegja lagt þér línurnar… köp blåbär och choclad!- ekkert subjekt í þessari setningu því hún er í boðhætti. en mask…eee i mysen- það er maðkur í mysunni…getur sagt þetta ef hlutirnir fara að fara úrskeiðis á rannsóknarstofunni. hästen äter gräs- ef þú yrðir spurður útí íslenska hestinn. skoh, held þú sért tilbúinn bara:)

 3. Gógó

  Til hamingju með inngönguna og sofðu rótt ;)

 4. Guðjón

  Ég sé þig í anda á íshokký leik að öskra ofram skovde, ofram skovde og eftir 2-3 mánuði verðuru farinn að þekkja alla leikmennina með nafni og farinn að safna íshokkýmyndum

 5. Lalli

  Ég þakka ykkur krakkar fyrir stuðninginn, sérstaklega Silju fyrir sænskukennsluna. Það er rétt það sem Óli segir, maður getur alltaf unnið fyrir sér en erfiðara er að fá góð tækifæri til menntunar.