Íslandsvinir

Ég ætla að herma aðeins eftir Sverri Jónssyni sagnfræðingi og setja gamlan texta inn. Þetta er brot úr grein eftir Björn Sigurðsson lækni sem heitir „Þekking og þjóðfrelsi, sjálfstæðishugvekja„, og birtist hún í Helgafelli 1944.

Eitt augljóst dæmi um vanmetakennd vora er hið ógeðfellda ginnkeypi fyrir lofi útlendinga. Það er ekki fátítt, að dagblöðin hér í Reykjavík birti, með augljósum fagnaðarlátum, væmið og iðulega óréttmætt hól um Ísland og Íslendinga, eftir útlenda menn, sem hafa verið hér á ferð eða líta af öðrum ástæðum á sig sem svokallaða Íslandsvini. Menn sem í heimalandi sínu mundu oft og tíðum ekki teljast verðskulda sérlega eftirtekt, dvelja hér í nokkra daga eða vikur, verða frægir Íslandsvinir, og ummæli þeirra eru síðan birt almenningi hér til fagnaðarríkrar umþenkingar. Allir kannast ennfremur við þá sérkennilegu ritmennsku, er miðar að því að sanna fyrir alþjóð, að sumir íslenzkir unglingar hafi námsgáfur, jafnvel í meðallagi og þar fyrir. Fyrir nokkru birtist í einu dagblaðinu hér í Reykjavík heilsíðugrein um dreng af íslenzku foreldri, sem orðið hafði efstur í sínum bekk í barnaskóla einum vestan hafs. Sannarlega er vonandi, að þjóðarstolt vort eigi völ á öðrum og styrkari stoðum en þessháttar fréttastarfsemi.

Sumir hlutir breytast aldrei, eða í það minnsta mjög, mjög hægt.

Lokað er fyrir andsvör.