Archive for apríl, 2005

Færsla Hringbrautarinnar

Í stað þess að læra um nýmyndun glútamats fór ég að gamni mínu að skoða hvenær færsla Hringbrautarinnar á að klárast. Þá rakst ég á þessa mynd sem mér fannst dálítið áhugaverð.

Read the rest of this entry »

Kransablegg

Davíð skrifar um greinina sem Jón Valur Jensson ritaði í Fréttablaðið fyrir skömmu. Fjallaði þessi grein um samkynhneigð en annars hefði hún líklega fjallað um fóstureyðingar, að fenginni reynslu af Jóni Vali.

Það hlýtur að vera einkennilegt hugarástand að vera kaþólskur á okkar dögum.

Ég hvet Davíð til að skrifa svargrein í Fréttablaðið. Svona skrifum á að svara, alltaf.

Magnaður maí

Maí heitir í höfuðið á gyðjunni Maju sem var dóttir Atlasar í rómverskri goðafræði. Hún átti soninn Merkúríus með Júpíter, en Merkúríusi var reist mikið hof á Aventínusarhæð í Róm sem vígt var 15. maí árið 495 f.Kr. Sá dagur var eftir það sérstakur hátíðisdagur þeirra Maju og Merkúríusar.

Maí er góður mánuður af ýmsum ástæðum. Í maí kemur sumarið af fullum krafti, skólum lýkur og ég á afmæli. Maí er líka oft mjög erfiður mánuður því þá þurfa námsmenn að standa skil á námsefni vetrarins í prófum. Ég fer einungis í tvö stór lokapróf að sinni en samt er þetta alltaf jafn leiðinlegt. Einnig er erfitt að eiga afmæli á þessum tíma, sem sést á því að ég hef eiginlega aldrei haldið upp á það, nema e.t.v. þegar ég varð 21 árs, því þá var ég ekki í skóla. Það var þó hálf slappur fagnaður að mig minnir.

Maí verður sérstaklega leiðinlegur þetta árið. Fyrir utan prófin þarf ég að gera tvær ritgerðir. Aðra í vísindasögu sem ég er reyndar kominn langt með, hina fyrir fimm eininga verkefnið mitt. Einnig þarf ég að halda áfram með tilraunirnar eftir prófin og reyna að fá einhverjar haldbærar niðurstöður því þær vantar algjörlega. Að auki þarf ég að fara í sauðburðinn í sveitinni strax eftir prófin þannig að það lítur út fyrir strembinn maí.

Svo þarf ég að redda atvinnu í sumar. Vona að Nýsköpunarsjóður námsmanna reddi sumrinu fyrir mig, annars byggi ég hús enn eitt sumarið.

Charlie nikótínfíkill

charlie.jpgSimpansinn Charlie reykir sígarettur og finnst það gott enda orðinn háður þeim. Ég velti því reyndar fyrir mér, hver gefur honum eld?

Annars þegar ég sá myndir af Charlie þá hló ég mikið og lengi. Það er nefnilega svo apalegt að reykja yfir höfuð. Legg til að Charlie verði notaður í næstu áróðursherferð gegn reykingjum. Hann er flottur.

Flytjum sígarettusöluna í ÁTVR og hækkum verðið til að mæta kostnaði samfélagsins af reykingum. Ég sé ekki afhverju reyklausir eiga að borga undir fólk sem vill stunda þessi dýrlegu fjöldasjálfsmorð.

Sannur Íslendingur

Eins og sönnum Íslendingi sæmir þá jók ég í dag þensluna í hagkerfinu með lántökum í banka, bæði til að greiða niður yfirdráttinn og svo til að eiga smá pening fyrir Svíþjóðarför. Líklega get ég huggað mig við það að þetta fer í menntun en ekki í eitthvað drasl eins og jeppa eða sumarbústað.

Þannig að núna í fyrsta skiptið síðan í janúar 2003 verð ég ekki í mínus á bankareikningnum heldur hef ég svissað yfir í langtímaskuldir. Það er líklega heldur skárra en hitt.

Af þessu tilefni sé ég mig knúinn til þess að biðja Jóhönnu Sigurðardóttir afsökunar á því að auka skuldir heimilanna. Vona ég að hún erfi þetta ekki við mig. Ég lofa að borga þetta niður eftir nokkur ár.

Yfirlýsing

Hér með kunngjöri ég þá ákvörðun mína að þann 17. ágúst næstkomandi mun ég hefja nám við Háskólann í Skövde, sem staðsettur er í Svíþjóð. Heimskt er heimaalið barn, segir málshátturinn og því til að losa um þessa heimsku sé ég mig knúinn til þess að yfirgefa Ísland og halda á vit ævintýranna í Volvo-landi.

Það verður því að bíða um sinn að ég selji sálu mína vondum líftæknifyrirtækjum og þess háttar arðræningjum.

Um jólin 2006 og eftir það mun ég því geta titlað mig M.Sc. ef allt fer samkvæmt áætlun. Þá verður nú gaman.

Pakki í póstinum

Ég fæ mjög sjaldan merkilegan póst en breyting varð þar á í dag. Hvítt stórt umslag frá Högskolan Skövde kom heim og þar með var mér tilkynnt að ég hafði fengið inngöngu í meistaranám í lífupplýsingafræði sem byrjar nú í ágúst.

Satt best að segja gerði ég ekki ráð fyrir þessu þar sem ég var alltof seinn að sækja um. Ég er eiginlega á báðum áttum hvað ég eigi að gera þar sem Svíarnir sem ég vinn með, eða einn þeirra, var ekki viss um ágæti þessa skóla.

Best að búa til lista.

Kostir við að fara til Skövde: A) Mér finnst eiginlega nauðsynlegt fyrir alla að hafa búið úti í löndum í einhvern tíma, víkka sjóndeildarhringinn o.s.frv. B) Ef ég hætti í námi núna þá minnka líkurnar stórlega á því að ég haldi áfram seinna. Peningar eru ávanabindandi. C) B.Sc. gráða í líffræði er góðra gjalda verð en maður fær fyrst raunverulegt ríspekt þegar M.Sc. gráðu er náð. D) Að ná færni í Norðurlandamáli er alltaf gott. E) Ég hef mikinn áhuga á lífupplýsingafræði.

Gallar við að fara til Skövde: A) Peningar. Ég er á hausnum en hinsvegar geri ég ráð fyrir því að vinna fyrir mér í ca. 40 ár eftir að skóla lýkur þannig að ég gæti líklega náð að vinna þetta af mér. Í rauninni er langt síðan að ég gaf það upp á bátinn að verða nokkurn tíma ríkur þannig að þetta gæti sloppið með því að taka skuldabréf og meiri námslán. B) Einn Svíinn var að tala um að þetta væri ekki nógu fínn skóli. Á móti kemur að ég er ekki af aðalsættum þannig að hann er e.t.v. nógu góður fyrir mig. C) …..

Kostirnir eru semsagt fleiri en gallarnir. Ég hef undanfarið reynt að smygla mér inn hjá DeCode en ég hef það á tilfinningunni að það sé ekki alveg að ganga upp eins og stendur. Kannski er málið að fara út og læra aðeins meira meðan maður er ennþá barnlaus piparsveinn.

Best að sofa aðeins á þessu.

P.S. Þakka # fyrir að hvetja mig til að sækja um og ég óska honum einnig til hamingju með dótturina.

Afríkublogg

Ég er ekki frá því að magnaðasta íslenska bloggsíðan sé sú sem Skagamaðurinn Sigga Víðis heldur úti. Núna er hún t.d. í svörtustu Afríku á einhverju flakki, í Úganda. Á sama tíma vekur hún athygli manna á ástandinu í Afríku, og hversu lítið þarf til að gera líf fólks bærilegra þar syðra. Mér finnst þetta allt saman til fyrirmyndar.

Þetta er eitthvað sem mig langar til að gera, ferðast aðeins um heiminn á eigin vegum. Þessar hugsanir ágerast alltaf þegar prófatörnin stendur yfir og maður er að farast úr leiðindum og viðbjóði.

Hver vill koma með mér til Eyjaálfu?

10 ár

Ríkisstjórn vor verður 10 ára á morgun, eins og Deiglan bendir á. Hvernig skal því fagnað?

Íslandsvinir

Ég ætla að herma aðeins eftir Sverri Jónssyni sagnfræðingi og setja gamlan texta inn. Þetta er brot úr grein eftir Björn Sigurðsson lækni sem heitir „Þekking og þjóðfrelsi, sjálfstæðishugvekja„, og birtist hún í Helgafelli 1944.

Eitt augljóst dæmi um vanmetakennd vora er hið ógeðfellda ginnkeypi fyrir lofi útlendinga. Það er ekki fátítt, að dagblöðin hér í Reykjavík birti, með augljósum fagnaðarlátum, væmið og iðulega óréttmætt hól um Ísland og Íslendinga, eftir útlenda menn, sem hafa verið hér á ferð eða líta af öðrum ástæðum á sig sem svokallaða Íslandsvini. Menn sem í heimalandi sínu mundu oft og tíðum ekki teljast verðskulda sérlega eftirtekt, dvelja hér í nokkra daga eða vikur, verða frægir Íslandsvinir, og ummæli þeirra eru síðan birt almenningi hér til fagnaðarríkrar umþenkingar. Allir kannast ennfremur við þá sérkennilegu ritmennsku, er miðar að því að sanna fyrir alþjóð, að sumir íslenzkir unglingar hafi námsgáfur, jafnvel í meðallagi og þar fyrir. Fyrir nokkru birtist í einu dagblaðinu hér í Reykjavík heilsíðugrein um dreng af íslenzku foreldri, sem orðið hafði efstur í sínum bekk í barnaskóla einum vestan hafs. Sannarlega er vonandi, að þjóðarstolt vort eigi völ á öðrum og styrkari stoðum en þessháttar fréttastarfsemi.

Sumir hlutir breytast aldrei, eða í það minnsta mjög, mjög hægt.