Archive for febrúar, 2005

Sambönd

Það getur borgað sig að hafa sambönd á réttum stöðum.

Íhaldssemi

Fátt leiðist mér meira en íhaldssemi, í hvaða mynd sem hún birtist. Sú hugmyndafræði að breytingar eru í sjálfu sér vondar er vægast sagt heimskuleg. Hefðu íhaldsseggirnir verið alráðir værum við líklega enn á steinaldarstiginu því öll framþróun krefst jú breytinga af einhverju tagi.

Íhaldið stendur í vegi fyrir því að trúboði sé hætt í opinberum skólum því það krefst einhverra breytinga. Íhaldið stendur í vegi fyrir því að Þjóðkirkjan sé tekin af ríkisspenanum því ekki má hrófla við skipulagi þjóðfélagsins. Íhaldinu finnst nútíminn alltaf vondur og á leiðinni til andskotans, því hverjum tíma fylgja einhverjar breytingar. Svoleiðis hefur það alltaf verið.

Að ríghalda í grónar hefðir, sama hvort þær séu til góðs eða ills, er háttur íhaldsmanna. Það fer virkilega í taugarnar í mér. Órökstuddur ótti við breytingar er kjánalegur, það verður að segjast eins og er.

Innlit – Útlit

Mikið eru nú Innlit-Útlit leiðinlegir þættir en samt hafa þeir verið í loftinu í sex ár. Futurama endist ekki nema í þrjú eða fjögur ár, þó voru það skemmtilegir þættir.

Tryggingarfélög

Oft finnst mér tryggingarfélögin vera ógeð. T.d. þetta mál er gott dæmi. Tryggingafélagið TM tryggingar ætlaði að koma sér hjá því að greiða dánarbætur vegna konu sem fórst af slysförum á Kanaríeyjum. Ástæðan? Jú, konan féll fram af svölum og taldi tryggingafélagið hana hafa verið það drukkna að ferðatryggingin hefði ekki átt við í þessu tilfelli!

Ætli þetta fólk sofi á næturnar?

Afraksturinn

Eftir mikið vísindastarf síðan í janúar, þrotlausar tilraunir og mörg PCR er afraksturinn ….. ca. 6 nanógrömm af DNA.

Það er ekki upp í nös á ketti, vægast sagt. Samt sem áður vantar ekki mikið upp á, ef ég fæ 9 ng í viðbót er ég sáttur.

Verkalýðsfélagið Hlíf

Fékk í pósti félagsskírteini fyrir Verkalýðsfélagið Hlíf. Aðild fylgja ýmisleg fríðindi eins og aðgangur að orlofshúsum og sjúkrasjóði. Það stakk reyndar í augum að hægt er að sækja um styrk úr sjúkrasjóðnum vegna nálastungnameðferðar en það er frekar sorglegt að fólk geti sólundað peningum verkalýðsfélags í slíkt húmbúkk.

Finnst það annars skondið að vera í verkalýðsfélagi. Ég er ekki að fíla mig sem verkalýðshetju þessa dagana.

Af kvikskurði

Í Þáttum úr sögu og heimspeki vísinda var í dag fjallað m.a. um þegar menn voru að skera upp lifandi dýr og jafnvel menn. Voru haldnar sýningar á þessu sem þóttu hin besta skemmtun enda örugglega lítið til dægrastyttingar á 17. öld. Einhvern veginn fannst mér eins og fólki í tímanum þætti þetta ógeðfellt.

Ég ætlaði að segja frá því að þetta er reyndar stundað í líffræðikennslunni að skera upp lifandi rottur o.fl. í tilraunaskyni en gleymdi því svo. Enda hefðu líffræðinemar líklega verið stimlaðir dýraníðingar í þessum áfanga um alla framtíð.

Meiri kristnifræði, stöðvum kynfræðslu

Ég vil benda á þetta blogg hér hjá ágætum manni sem vil efla kristnifræði í grunnskólum en hætta allri kynfræðslu.

Í fyrstu ætlaði ég að skrifa stórkostlega háðsgrein um þetta en komst svo að því að það er nákvæmlega ekkert fyndið við þetta. Svona hugmyndir eru sjúkar.

Afabróðir

Í gær fékk ég nýjan titil en nú er ég orðinn afabróðir. Af því tilefni ætla ég að kaupa mér sixpensara og hnésíðan köflóttan frakka. Einnig mun ég skipta linsunum út fyrir gleraugu með þykkri brúnni umgjörð. Göngustaf tel ég nauðsynlegan vegna þessara breytinga og líklega fjárfesti ég einnig í kuldastígvélum.

Það er asnalegt að verða afabróðir áður en maður verður 25 ára. Skil ekki hvernig þetta gat gerst.

Letilífi lokið

Er víst orðinn nógu hraustur til að setjast aftur á skólabekk. Nenni því samt varla, það getur verið ágætt af og til að vera latur.

Nú verður þetta tekið með trukki. Síðustu mánuðir mínir í HÍ eiga að vera til fyrirmyndar og ekkert rugl.