Archive for janúar, 2005

Félag stúdenta með skólagjöldum

Man einhver eftir þessu ógæfufólki sem sá sig knúið til að stofna félag um áhugamál sitt, skólagjöld. Sem betur fer hefur síðan þeirra og þetta félag verið steindautt og ég vona að svo verði áfram.

Tatchersisminn er úreltur, megi hann hvíla í friði.

Alþýðulistinn

Ég er orðinn leiður á því að gúgla Alþýðulistann og fá engin svör. Þess vegna hef ég samið pistil þar sem þetta nafn kemur fyrir og því á ég bráðum eftir að fá einhver svör frá herra Google varðandi þennan lista. Þrátt fyrir að það sé minn eigin pistill.

Þetta er vissulega sjálfhverft, ég viðurkenni það fúslega.

Háskólalistinn skráður hjá Mikkavef

Ný síða Háskólalistans er komin á skrá hjá Mikkavef eins og sjá má hér til hægri. Við fengum fagurbláan lit fyrir okkur, spurning um hvort að Mikkivefur sé tilbúinn til þess að breyta litnum yfir í appelsínugulan.

Annars skiptir það litlu máli. Háskólalistinn er litblindur í eðli sínu.

Listakynning

Minni á listakynningu Háskólalistans sem fer fram á Stúdentakjallaranum kl 20:00 annað kvöld (28. jan).

Komið og sjáið með eigin augum hvaða úrvalsfólk prýðir listann í ár.

Allir velkomnir.

Bill Gates slær á puttana

Fyrir nokkru sendi ég tölvuna mína í stafræna gjörgæslu til aðhlynningar og viðhalds. Hún fór frá mér þjökuð af sjúkdóm þeim er kallast bláir hundar. Sá meinlegi kvilli lýsir sér þannig að af og til verður ungfrú Toshiba blá í framan og segir mér að þetta forrit hafi framið einhverja skelfilega óhæfu og því verði að loka án tafar. Kunnum vér engin deili á orsök þessarar skæðu veiki.

Einnig fékk hún stundum stífkrampa en þá stirðna upp öll hennar helstu líffæri og hún fær hvorki hreyft mús né hnapp. Hef ég reynt það af eigin raun að ekki þýðir að öskra á hana né hóta að henda henni fram af svölunum í slíkum bráðatilfellum, það hefur lítil sem engin áhrif. Reyndist yfirleitt heillavænlegast að rjúfa lífsæð hennar frá Illvirkjun og ræsa hana aftur nokkru síðar.

Þjökuð af þessum farsóttum, ásamt einhverjum öðrum smávægilegum veirum sem fundu sér leið inn á heimili vort gegnum óravíddir Netsins, fór ungfrú Toshiba Gervihnattardóttir í sitt Extreme Makeover og kom aftur heilsuhraust og glöð í bragði. Færustu tölvulæknar höfðu fjarlægt hið ljóta illkynja stýrikerfi Windows ME úr skrokki hennar og sett í staðinn hið undursamlega Windows 2000 sem mun vera mesta uppfinning mannkyns á eftir dósamat.

Sagt er að böggull fylgi hverju skammrifi. Líklega hefur umrætt skammrif verið sett í ungfrú Toshibu því svo sannarlega kom líka böggull í ljós nú í kvöld.

Svo virðist sem upp hefur komist um glæpsamlega iðju mína sem hefur staðið yfir nú hartnær í fjögur ár. Ég hef nefnilega drýgt þá stórsynd að setja inn tónlist á tölvuna mína sem ég borgaði ekki fyrir í beinhörðum peningum.

Gamla heimska Windows ME hafði aldrei neitt út á þetta athæfi mitt að setja. Hið nýja Windows 2000 er hinsvegar búið svo öflugri gervigreind að helst má líkja því við Skynet úr Tortímandamyndunum víðfrægu.

Ég ætlaði nú í kvöld að hlýða á undursamlega tóna helstu listamanna vestrænnar menningar. Ekki vildi betur til en svo að upp komu persónuleg skilaboð til mín frá Windows samsteypunni þess efnis að hin og þessi popplög væru vernduð af hinum og þessum lagabálkum og ég skildi ekki dirfast að hlýða á þau nema ég gæti sýnt kvittun fyrir þeim úr löggiltri plötuverslun.

Í fyrstu hló ég að þessum tilburðum rindilsins Bills Gates og sagði honum að eta það sem enginn ætti annars að leggja sér til munns. Ég ætlaði mér einfaldlega að skipta út Media Player fyrir nýmóðins spilara. En svo kom í ljós að hvorki iTunes, WinAmp né VLC vildu taka að sér að spila gósslögin mín. Þetta er mér mikið áfall.

Er virkilega búið að svipta mann þeim réttindum að mega setja lög inn á tölvuna sína og spila sér til dægrastyttingar? Hvernig er hægt að snúa á þessa kóna?

Svör óskast.

Meira um Össur

Össur Skarphéðinsson er mér hugleikinn þessa dagana. Nú er kallinn byrjaður að blogga af krafti. Já, Össur er ekki að misskilja bloggið eins og svo margir stjórnmálamenn gera. Hann er ekki að skrifa blaðagreinar heldur er þetta ekta blogg hjá krataleiðtoganum.

Það verður athyglisvert að sjá hvort að hann haldi þetta út. Það verður skemmtun þegar að Davíð Oddson byrjar að kommenta hjá honum. „Össur þú ert dóni!“.

Mikið er nú Netið skemmtilegt, það verður ekki annað sagt.

Gleymska

Einhvern veginn afrekaði ég það í dag að gleyma að mæta í tíma. Þetta mun líklega vera í fyrsta skiptið sem ég missi af kennslustund í HÍ hreinlega vegna gleymsku. Fyrir vikið missti ég af framsögunni hans Jakobs sem hefur án efa verið stórfengleg.

Ég er hálfsvekktur út í heilabúið eins og stendur vegna þessarar óhæfu. Líklega stafar þessi gleymska af því að ég hef ekki fengið fisk að borða í alltof langan tíma. Vonandi kemur Guðjón sem fyrst af sjónum með nokkur kíló af ýsu handa manni. Þá kemst heilastarfsemin í gang að nýju.

Ný síða Háskólalistans

Ætli það sé ekki tímabært að opna fyrir aðgang að nýrri og endurbættri heimasíðu Háskólalistans. Nú vil ég bara hvetja Háskólalistafólkið til þess að skrifa hárbeitta pistla um hvað eina sem liggur því á hjarta varðandi hagmunabaráttu stúdenta.

Hvað er jú betra fyrir fátækt framboð en að heyja kosningabaráttuna á vefnum? Bæði sparar það pappír og veitir möguleika á beinum samskiptum kjósenda og frambjóðenda.

Háskólalistinn, sífellt nýr og betri kostur.

Framboðsmál

Það er sama hvernig á það er litið, Háskólalistinn lítur einstaklega vel út í ár.

Það heitir allavega enginn Bræðraborgarstígur á okkar lista, eða e-ð í þá áttina.

Dugnaður

Fór á fætur 6:45 í dag, mætti í fyrirlestur í líftæknilegri örverufræði kl 8:15, gerði PCR með hitastigli á labbanum og var búinn að þessu fyrir hálf ellefu.

Ég vona að þetta haldi svona áfram í dag og næstu daga.