Archive for nóvember, 2004

Afturhaldskommatittur

Ég hér með lýsi því yfir að ég er, samkvæmt skilgreiningu háttvirts utanríkisráðherra, afturhaldskommatittur. Það ber þó ekki að skilja sem svo að ég sé Samfylkingarmaður. Ég er einn af þeim mönnum sem erum á móti árásarstríði trúarnöttarans George Walker Bush et al á hendur Írökum.

Einnig vil ég leiðrétta þann misskilning sem virðist vera ríkjandi meðal stjórnarherranna að árás sé sami hluturinn og uppbygging. Þeir virðast nefnilega vera haldnir þeirri meinloku að fólk sem mótmælir árás á land X sé þar af leiðandi líka að mótmæla uppbyggingu í landi X.

Að vísu má færa fyrir því sterk rök að til að stunda uppbyggingu þjóðfélags þarf fyrst að leggja það í rúst. Þannig að þeir sem mótmæla þeim verknaði að leggja lönd í rúst eru þá líklega einnig að mótmæla uppbyggingu þess, þ.e. ef þeir mótmæla innrás áður en hún er gerð.

Einnig vil ég beina því til forsætisráðherra að reyna ekki að vera fyndinn framar. Tilburðum hans í þá áttina má líkja saman við lesblindan mann í stafsetningarkeppni, það hreinlega gengur ekki upp.

Ritgerð

Ég þurfti einungis að skila af mér einni ritgerð þetta misserið. Eins og nærri má geta þá er ég ekki búinn með hana heldur sit á laugardagskveldi og rita um rafskynjun og rafmyndun fiska.

Skilafrestur er til 1. desember. Þegar ég hef lokið þessari ritgerðarsmíð þá er kúrsinn búinn. Góðir þessir próflausu áfangar, það mætti fjölga þeim í líffræðiskor.

Ef einhver á bókina Fishes: An introduction to Ichthyology eftir P. B. Moyle og J. J. Cech þá vil ég fá hana lánaða takk :þ

Ég er ekki að nenna þessu…

Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld

Nú baðar jörð í blóði,
og barist er af móði,
og þessu litla ljóði
mun lítil áheyrn veitt.
Og þótt ég eitthvað yrki
um Englendinga og Tyrki,
má telja víst það virki
sem verra en ekki neitt.
Ég ligg hér einn og lúinn, úr lífsins harki flúinn, og vilja og vopnum rúinn á vinsamlegum stað. Manns hug ei hátt skal flíka, ég hefi barist líka og átt við ofraun slíka. En ekki meira um það. Vort líf er mikil mæða og margt vill sárið blæða, og knappt til fæðu og klæða er kannske nú sem þá. En samt skal sorgum rýma, þótt sækist hægt vor glíma, því eflaust einhverntíma mun einhver sigri ná. Og berjist þeir og berjist og brotni sundur og merjist, og hasli völl og verjist í vopnabraki og gný. Þótt borgir standi í báli og beitt sé eitri og stáli, þá skiptir mestu máli að maður græði á því.
Steinn Steinarr

Sótt um vinnu

Ég er búinn að koma frá mér fyrstu atvinnuumsókninni fyrir næsta sumar. Vinna við rannsóknir í sameindaerfðafræði, ef ég fæ starfið kem ég með krassandi starfslýsingu þannig að þið skuluð bíða spennt.

Held að það sé kominn tími til að verkamaðurinn innra með mér fái að fara á eftirlaun og sloppalíffræðingurinn geti tekið við. Búinn að fá nóg af endalausu streði og skít.

Hr. Kapítalistasvín

Ég fékk að gjöf í dag bláan sparigrís frá Íslandsbanka. Hann hefur fengið nafnið Hr. Kapítalistasvín og prýðir nú arinhillu vora. Hlutverk hans í lífinu er að éta klinkið mitt og geyma til hörðu áranna.

Reyndar vona ég að hörðu árin séu núna í gangi og gósentíð sé að hefjast innan fárra ára, allavega hjá mér.

Mórall í UVG

Ég er ekki sáttur við þá tilburði í VG að vilja rifta samstarfi R-listans. Vísa í þessa grein á vinstri.is.

Ég held að fólk sé búið að gleyma hversvegna R-listinn var stofnaður til að byrja með.

Trúarofstækir trúleysingjar

Á baksíðu Fréttablaðsins í dag má sjá furðulega bakþanka Þráins Bertelssonar. Þar er ráðist mjög harkalega á trúleysingja og þeim fundið allt til foráttu.

Ímyndið ykkur ef trúleysingjar væru ekki umfjöllunarefni bakþanka hans heldur t.d. fólk sem aðhyllist íslam eða búddistar. Þá held ég að eitthvað myndi heyrast í fólki og líklega fengi þessi pistill aldrei birtingu í Fréttablaðinu sökum þess trúarofstækis sem Þráinn gerir sig sjálfan sekan um.

Fáfræði Þráins skín úr hverju orði skrifa hans. Hann leggur að jöfnu trúleysi og tómhyggju ásamt því að rekja nokkur vandamál nútímans til trúleysis. Verst er þó þegar að hann fer að spyrða trúleysið saman við útlendingahatur og fasisma.

Hvernig fær hann það út að trúleysi leiði til útlendingahaturs? Gæti hann nefnt einhver dæmi um slíkt? Nasistarnir voru kristnir, Ku Klux Klan voru kristnir, Osama Bin-Laden er heittrúaður. Spænski rannsóknarrétturinn, Ísraelsstjórn, fyrrverandi stjórnvöld S-Afríku, allt eru eða voru þetta sanntrúaðir menn en það stoppar þá ekki í útlendingahatri sínu.

Pistill Þráins er skot í fótinn. Hann sakar einhverja ákveðinn hóp um hitt og þetta sem hann gerist óafvitandi sekur um sjálfur með heimskulegum skrifum sínum. Það er vonandi að Fréttablaðið sjái sóma sinn í því að hleypa svona níðskrifum ekki aftur í blaðið.

Hækkun innritunargjalda

Hefur einhver talnaglöggur maður reiknað út hvernig námslán stúdenta við HÍ kæmu út ef innritunargjöldin yrðu skilgreind sem skólagjöld? Það væri athyglisvert að sjá hvernig það kæmi út.

Eftir hækkunina verða innritunargjöldin orðin 45.000 krónur. Er einhvers staðar hægt að sjá hvernig þessum peningum er varið?

Annað hvort eru konurnar á Nemandaskrá með þeim hæst launuðu á landinu eða það er eitthvað verulega bogið við þessar hækkanir.

Lallabátur

Ég fékk mér hádegismat á Stjörnubátum í dag. Hafði aldrei komið þangað inn áður og ákvað að prufa. Þetta er staður í ætt við Hlölla og Nonnabita ásamt því að bjóða upp á fleira.

Þegar að ég renndi yfir matseðilinn kom ég auga á bát sem bar nafnið Lallabátur. Að sjálfsögðu var ég snöggur að panta mér svoleiðis, þar sem þetta hlaut að vera bátur fyrir mig.

Og viti menn, þetta var hinn ágætasti bátur. Nautahakk með hvítlauki og eitthvað fleira sem ég man ekki. Þetta var mun lystugra en t.d. ruslið á Hlölla en þangað ætla ég aldrei aftur eftir síðustu reynslu mína af þeim sorastað.

Það er ólíkt mér að skrifa um mat en ég varð að deila honum með ykkur, deginum sem ég fann Lallabát.

Sunnudagspistill

Nú er rétt liðið ár síðan að ég skráði mig úr samfélagi við Jesú Krist og söknum við hvorugir hins. Ég vil enn og aftur hvetja þá trúleysingja sem enn hengslast innan Þjóðkirkjunnar af gömlum vana til að segja skilið við þann sértrúarsöfnuð.

Það skekkir mjög þá mynd sem dregin er upp af trúarlífi landsmanna hversu margir eru hirðulausir um trúfélagsskráningu sína og vita jafnvel ekki hvar þeir eru skráðir. Þannig er vafalaust hlutfall þeirra landsmanna sem eru skráðir í Þjóðkirkjuna í litlu samræmi við raunverulegar trúarskoðanir fólks.

Einnig vil ég benda á þá staðreynd að yfirmaður Þjóðkirkjunnar heitir Karl Sigurbjörnsson. Sá ágæti maður, ásamt öðrum prestum Þjóðkirkjunnar, hefur lýst því yfir að trúleysi og siðleysi sé í raun sami hluturinn. Vilja menn virkilega hafa svona yfirboðara?

Er ekki nóg komið af fylgispekt við mörg þúsund ára hugaróra hirðingja frá Mið-Austurlöndum? Er ekki rétt að koma kirkjunni og öllu því sem henni fylgir þangað sem það á heima, á Þjóðminjasafnið?

Eyðublaðið er hér.