Archive for október, 2004

Þjóðsöngurinn tekinn fyrir

Skrifaði grein á Vantrú um þjóðsöng okkar Íslendinga. Fyrsta greinin sem ég sem, hinar tvær sem ég hef birt hafa verið þýðingar.

Þar sem þetta var þriðja greinin eftir mig þá hef ég færst yfir í það að vera titlaður penni á Vantrú. Ég fæ líklega ekki vinnu hjá ríkinu í bráð en sama er mér :þ

Tvennt ólíkt

Í dag voru tveir gjörningar framkvæmdir sem eiga eftir að hafa einhver áhrif á lífshlaup mitt.

Fyrri gjörningur átti sér stað um hádegisbilið þegar að ég fjárfesti í HAXA skírteini og miða á kræklingakvöldið víðfræga. Miðað við dagskránna þá verður það af óhugnalegu háu sukkstigi og mun eflaust enda með ósköpum.

Síðari gjörningur átti sér stað um hálfátta leitið þegar að fyrsti fundur Skeptíkusar var haldinn. Skeptíkus er félag efahyggjumanna innan HÍ og ég er víst titlaður varaformaður í þeim félagsskap.

Fyrst og fremst lít ég á þetta félag sem tilraun og verður gaman að sjá hvort að það nær að festa rætur innan háskólasamfélagsins. Er ekki líka ágætt að hafa einhvert varaformannsembætti á CV-inu þegar fram í sækir?

Farsímakynslóðin vanmetin?

Ég vona að Þorvaldur Gylfa hafi rétt fyrir sér í þessum pistli.

Í stuttu máli þá eru allar skoðanakannanir fyrir forsetakosningarnar í BNA byggðar á hringingum í fastlínusíma. Ör farsímavæðing undanfarinna ára hefur aðallega átt sér stað hjá yngra fólki sem er líklegra betur menntað og upplýstara en almennt er raunin hjá Kananum.

Það fólk er líklegra til að kjósa Kerry en þessi hópur kemur ekki fram í skoðanakönnunum þar sem það á ekki endilega fastlínusíma.

Óskhyggja? Ef til vill en við sjáum hvað gerist á þriðjudaginn. Spurning um að halda kosningavöku….

Hugarangur

Hvað á ég að verða þegar að ég verð stór?

Þegar að ég var krakki ætlaði ég alltaf að verða mjólkurbílstjóri. Ég hugsa að það hafi eftir allt saman ekki verið vitlaus hugmynd.

Þá þyrfti ég allavega ekki að brjóta heilann um það daglega eins og maður gerir núorðið.

Skeptíkus

Það stendur til að stofna nýtt stúdentafélag innan HÍ. Kallast það Skeptíkus og er félag efahyggjumanna.

Ég veit að einhverjum finnst það undarlegt að stofna félag um efahyggju innan háskólans, þrátt fyrir að þeir sömu menn eru efahyggjumenn sjálfir. Þá er best fyrir þá að mæta einfaldlega á fundinn og sjá hvað er í gangi.

Stofnfundur verður í Öskju næstkomandi fimmtudag klukkan 19:30 í stofu 131.

Ákveðið heildi

Það fór um mig nettur hrollur í efnafræði í dag þegar að dósentinn byrjaði að heilda hraða efnahvarfa á töflunni eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Ég tel mig ekki vera sleipan í stærðfræði þrátt fyrir að hafa útskrifast af náttúrufræðibraut í framhaldsskóla og verandi stúdent í raunvísindadeild HÍ. Sú grein hefur aldrei höfðað til mín þrátt fyrir að ég geri mér fullkomnlega grein fyrir mikilvægi hennar.

Það eru liðin þrjú ár síðan ég þurfti síðast að takast á við heildunardæmi og ég gæti vel hugsað mér lífið án þess að ég þurfi nokkurn tímann aftur að heilda eitt né neitt.

Fíkniefnaverslun ríkisins?

Jónas Kristjánsson skrifaði nýverið pistil þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að ríkið eigi að taka að sér sölu fíkniefna. Smá tilvitnun:

Bezt er að hefja ríkisrekstur fíkniefnasölu á sama hátt og ríkisrekstur áfengissölu. Þá tekur ríkið brauðið af kóngum fíkniefnaheimsins og tryggir gæði efnanna. Mestu máli skiptir þó, að slíkt mundi losa fíkniefnanotendur undan ofurvaldi neðanjarðarhreyfingar, sem grefur undan ríkinu. Ef fíklarnir geta keypt efnin hjá ríkinu, fellur niður milljarða hagkerfi, sem snýst um innflutning, heilsölu og smásölu fíkniefna, innheimtu skulda og varðveizlu þessa neðanjarðarhagkerfis gegn eftirliti ríkisins. Það er til mikils að vinna og lausnin felst í ríkisrekstri fíkniefna. Úr því að ríkið selur hættulegasta fíkniefnið, það er að segja áfengi, og hefur af því stórfelldar tekjur, ætti ekki að vera neitt siðferðilega athugavert við, að það taki líka yfir sölu fíkniefna.

Ég veit ekki hvað skal segja, það er margt til í þessum pistli en þetta er flókið mál sem ég treysti mér ekki til að skera úr um.

En eftir því sem þetta vandamál grasserar áfram og versnar með hverju árinu þá vakna spurningar um hvort leiðir eins og Jónas bendir á séu eitthvað endilega verri en ástandið sem við búum við í dag.

Ég frábið mér alhæfingar og strámenn í andsvörum.

Y kynslóðin

Sú umræða hefur oft komið upp á góðum stundum varðandi hvaða kynslóð fólk á mínum aldri teljist tilheyra. Yfirleitt hafa þó engin svör fengist við slíkum spurningum.

Núna hef ég semsagt fengið svarið. Í bók um neytandahegðun í eigu Stínu systur, sem nemur um þessar stundir kapitalísk fræði við Háskólann á Bifröst, voru kynslóðirnar greindar niður í kjölinn. Þar kom fram að þau sem eru fædd eru á árunum 1979-1994 hafa verið köllluð Y kynslóðin. Ennfremur kom þar fram að börn „baby boomers“ kynslóðarinnar sem fæddust á árunum 1964-1977 kallast X kynslóðin. Tímasetningar eru þó nokkuð á reiki meðal fræðimanna í þessum efnum.

Það var nokkuð fróðlegt að sjá hvað bókin sagði um muninn á X og Y kynslóðunum. Fólk af X kynslóðinni var talið sjálfhverfara, líf þeirra miðaði að því að njóta lífsins til fullnustu og að hafa flottan lífsstíl. Einstaklingshugsunin er í fyrirrúmi.

Y kynslóðin er öðruvísi. Svo virðist sem hóphugsunin sé meiri, hún sé pragmatísk og raunsæ í hugsun og umhverfismál skipta hana meira máli en fyrri kynslóðir. Veit samt ekki hvernig þeir fá það út fyrir fólk sem fæðist 1994 því þau eru jú einungis 10 ára í dag!

Mér finnst reyndar skrítið að segja vegna þess að þú fæddist árið a þá hugsar þú b. Á hinn bóginn þá er ég ekki frá því að vissrar hugarfarsbreytingar sé að finna hjá fólki á mínum aldri ef miðað er við fólk sem er einungis nokkrum árum eldra en við. Ég hef þó náttúrulega ekkert í höndunum sem staðfestir þennan grun enda erfitt að mæla hugarfarsbreytingar.

Ég hef skoðað nokkrar síður sem fjalla um þessi kynslóðamál og þær eru mjög misvísandi. Sumar segja að Y kynslóðin sé þvert á móti eigingjarna kynslóðin, alin upp við allsgnægtir og er kröfuhörð og sjálfselsk. En allt sem ég hef séð um þetta kemur frá Bandaríkjunum þannig að það er líklega ekki hægt að heimfæra þetta beint upp á Frón.

Það eru þó viss vonbrigði að okkar kynslóð skuli ekki hafa fengið skárra nafn en Y kynslóðin. Ég sé fyrir mér í náinni framtíð í fjölmiðlum menn sem teljast vera talsmenn upsilonkynslóðarinnar. Hvað finnst upsilonkynslóðinni um þetta og hitt?

Ég vona bara að þegar mín kynslóð kemst til valda að við náum að gera betur en undanfarnar kynslóðir hafa gert.

Lárus Viðar af upsilonkynslóðinni.

Sveitin

Ég ætla vestur í sveitina á eftir í þeim tilgangi að binda enda á lífsferil nokkur hundruða Ovis aries. Verð þar um helgina.

DV tekið fyrir

Þessir atburðir á DV í dag eru óhuggulegir svo ekki sé meira sagt. Mér finnst DV vera að gera þarft verk, hvað sem um blaðið sjálft má segja. Það er sjálfsagt að upplýsa fólk um svona hyski og gera í því að birta myndir af þeim.

Allt hjal um mannorðsmissi og persónuárásir í þessu sambandi er girlyman-talk.