Archive for september, 2004

Snillingar dagsins

Ég tilnefni Daníel og Óla Gneista snillinga dagsins fyrir framtak sitt, að undanskilja sig undan dómum Hæstaréttar!

Spurning um hvort maður eigi að gera slíkt hið sama….

Aftur á Vantrú

Setti inn aðra þýðingu af The Skeptic’s Dictionary á Vantrúarvefinn. Þýddi grein um Nostradamus og spádóma hans að gamni mínu.

Það var hlekkjað á þetta af B2.is, fyrrverandi batman.is. Þetta er í fyrsta sinn sem sá mikli vefur tengir sig við mig. Það liggur við að ég sé stoltur af því.

Þegar búinn að fá nokkur komment, þar af frá einum sem segir greinina illa orðaða og bjagalega á köflum…

Enginn er fullkominn býst ég við :þ

Óvænt tíðindi

Jón Steinar skipaður hæstaréttadómari. Hver hafði trúað því fyrirfram…?

Nojararnir græða

Samkvæmt þessari frétt hækka tekjur norska ríkisins um 500 milljarða ISK vegna hækkana á olíuverði undanfarið.(!)

Hvernig væri nú að e-n sniðugir jarðfræðingar færu nú að finna smáolíu í íslenskri landhelgi? Þá gætum við öll hætt að vinna 35 ára.

Fjárhagsvandi Háskólans

Ég er farinn að halda að fjárhagsvanda Háskólans megi að mestu rekja til nýhafins masterssnáms Guðrúnar Helgu.

Pabbi minn…

Það er virkilega fyndið að mönnum skuli detta það í hug að skrifa lofsrullur um pabba sinn í blöðin, til að hjálpa honum í baráttu sinni fyrir sæti í Hæstarétti. Mér finnst það eiginlega lýsa hálfgerðum dómgreindarskorti.

Hér er ég að sjálfsögðu að tala um skrif Gunnlaugs Jónssonar um föður sinn Jón Steinar Gunnlaugsson í Fréttablaðinu í gær.

Þessi partur er t.d. ekkert annað en snilld.

Ég held að í þessu máli komi fram ástæða þess að sumir beita sér af hörku gegn því að Jón Steinar verði skipaður hæstaréttardómari. Hann stendur með fólki sem er misrétti beitt. Hann ver réttlætið. Alltaf. Hann er engin heybrók, eins og svo margir, sem eru alltaf að passa að hafa alla góða og vera þess vegna óumdeildir. Fleiri þyrftu að vera eins og hann. Of mikið óréttlæti viðgengst vegna þess að gott fólk þorir ekki að takast á við það. Ég er ekki sammála þeim, sem virðast telja að hæstaréttardómarar eigi helst aldrei að hafa tjáð skoðanir sínar. Við eigum ekki að telja það mönnum til tekna, að þeir sitji aðgerðalausir hjá, þegar réttindi fólks eru brotin.

Semsagt ástæða þess að menn eru á móti því að Jón Steinar verði hæstaréttadómari er sú að hann stendur með fólki sem er misrétti beitt! Þeir sem eru á móti okkur pabba eru bara vont fólk og það ætti að skammast sín.

Það er leiðindaútúrsnúningur þegar að menn spyrja hvort hæstaréttadómarar megi ekki hafa skoðanir á hlutunum lengur. Málið snýst ekki um það heldur er það vitað að Jón Steinar er harður fylgismaður og persónulegur vinur þeirra sem nú ráða ferðinni á Alþingi. Einnig hefur það sýnt sig að hann er mjög óvæginn lögmaður sem ég vildi ekki hafa til að skera úr þeim viðkvæmu deilumálum sem koma koma til kasta Hæstaréttar.

Ætla ekki annars allir að kjósa Frjálshyggjufélagið ef það býður fram í næstu kosningum….

Afnám verkfallsréttarins

Ég kætist alltaf þegar að menn á borð við Sigurð Kára mæta í umræðuþætti í sjónvarpinu. Þá er bókað að einhver atkvæði fljúga burt frá Sjálfstæðisflokknum.

Í gær í Silfrinu byrjaði sá ágæti maður að tjá skoðanir sínar á verkföllum. Fannst honum tímabært að fara að „endurskoða“ verkfallsréttinn því að það er svo ótrúlega gamaldags að fara í verkföll, það á bara ekki við í dag.

Egill Helga spurði hvað hann ætti við, á að afnema verkfallsréttinn? „Nei, nei, ég vil ekki ganga svo langt“, svaraði talsmaður frjálshyggjunnar. Hvað getur „endurskoðun“ verkfallsréttarins þýtt annað en afnám hans?

Það er alltaf hálf ömurlegt að hlusta á menn sem sjálfir hafa tekjur sem nema líklega 6-7 földum kennaralaunum, kvarta yfir því að fólk skuli berjast fyrir bættum kjörum sínum. Kjaradómur sér til þess að laun alþingismanna hækka og hækka umfram aðra ár eftir ár meðan að kennarar hafa dregist aftur úr á undanförnum áratugum.

Að vilja hindra fólk í því að fara í verkfall er náttúrulega valdníðsla af verstu sort. Hægri menn mala um frelsi og réttlæti daginn út og inn en þegar að kemur að frelsi manna til að selja vinnu sína þá skyndilega kemur annað hljóð í strokkinn.

Svíþjóð?

Eftir hörmuleg mistök í pistli mínum um skipulagsmál Reykjavíkurborgar hef ég ákveðið að skrifa ekki um alvarleg málefni fyrst um sinn.


Er það góður kostur að fara í framhaldsnám til Svíþjóðar? Hvað halda lesendur um það land, er það jive land eða vinstrikrata staðleysa?

Bjáni ég

Ég mismælti (misskrifaði) mig áðan. Skrifaði gatnamótin Langahlíð/Miklabraut þegar að ég meinti Snorrabraut/Miklabraut. Leiðréttist það hér með.

Sverrir alltaf með kjaft….

Mislæg eða hvað?

Stundum heyri ég pólitíkusa í borginni segja að ef mislæg gatnamót verða sett á Kringlumýrarbraut/Miklubraut vegamótin þá væri hætta á að umferðarþvagan færðist neðar að gatnamótum Lönguhlíðar/Miklubrautar.

Ég hélt alltaf að argafarganið sem nú á sér stað í Vatnsmýrinni væri til þess að færa Hringbrautina/Miklubrautina undir Lönguhlíðina, þ.e. að þar ætti að vera mislæg gatnamót. Þar af leiðandi ættu þessar vangaveltur um aukinn umferðarþunga þar ekki lengur við.

Annars er umferðin á þessum slóðum alveg fáránlega mikil. Mér dettur helst í hug Bangkok þegar að maður er þarna á ferðinni á morgnanna.

Síðan er það undantekning ef ég sé fleiri en einn í hverjum bíl á meðan að strætisvagnarnir eru vannýttir. Þessi umferðarþungi er algjörlega heimatilbúið vandamál sem væri lítið mál að draga úr með forræðishyggjufasistaaðferðum.

p.s. Búinn að athuga málið, þau verða mislæg sjá hér.