Archive for ágúst, 2004

Nefndarmaður

Nú hef ég tekið sæti í minni fyrstu nefnd. Ég er fulltrúi Háskólalistans í nefnd um nýnemavikuna. Sverrir og ég höfum tekið að okkur það verkefni að sjá um Kollgátuna sívinsælu.

Þannig að nú ligg ég í símanum og spjalla við ókunnugt fólk alla daga. En það er gaman að vera í nefnd, hef hvort eð er ekkert að gera fyrstu vikuna í skólanum.

Ökuníðingur

Frétt um ökuníðing á RÚV.is vakti athygli mína, flott orð ökuníðingur. Svo er hún líka svo vel skrifuð. Alltaf gaman af skondum stafsetningarvillum.

Ökuníðingur tekinn við Húsavík
Maður á þrítugsaldri grunaður um ölvun sem ók á 20 km hraða milli Akureyra og Húsavíkur í morgun var færður í fangageymslur lögreglunnar á Húsavík. Hann má eiga von á því að verða sviptur ökuleyfi.

Já þessir ökuníðingar, stórhættulegir. Ætli hann hafi verið með hatt?

Fönkveisla

Nú er ég búinn að sjá James Brown halda tónleika og er mjög sáttur. Þetta var eins og við var að búast gríðarlega góðir tónleikar og vel fönkaðir. Mér fannst þeir reyndar frekar stuttir, bjóst einhvern veginn við lengri tónleikum. Kannski er það út af því hversu skemmtilegir þeir voru.

Reynt var að klappa kallinn upp en hann lét ekki sjá sig aftur, fannst það reyndar skrítið. Ég hélt að hann tæki It’s A Man’s Man’s Man’s World sem uppklappslag.

Síðan tók við allsherjar sukk heima hjá Rósu sem endaði með ósköpum vegna þess að einhverjum bjánum datt í hug að fara í drykkjuleiki. Drykkjuleikir eru þjóðarböl sem ber skilyrðislaust að berjast á móti hvar sem þá er að finna.

Afleiðingarnar voru m.a. deilur við dyraverði á Gauknum og mikil líkamleg vanlíðan í dag.

og það er borað í hausinn á mér, ég fylltur lygatjöru með stórri tregt. og það er borað í hausinn á mér, ég tappa af til að skilja eitthvað.

Versta martröðin

Það allraversta er getur hent harðsvíraða húsasmiði og þræla þeirra, stundum nefndir verkamenn, er sá hryllingur er steypumót springa. Þessi svitablauta martröð varð að veruleika í gær, fimmtudag, þegar að við vorum að steypa stóran, langan vegg, 25 cm þykkur, tvöföld járnabending að sjálfsögðu.

Að horfa á eftir steypunni renna úr mótunum niður á plötu er tilfinning sem erfitt er að finna samsvörun við í hinu daglega lífi. Helst væri að líkja því við það að fá gat á magann og horfa á eftir innyflunum renna niður á gólf.

Þannig fór það næstsíðasta daginn minn í vinnunni að ég var til hálf níu um kvöldið að moka steypu í síló sem aftur var hellt í mótin. Það var svo leiðinlegt að ég get ekki lýst því, einungis þunglyndissjúklingar held ég að geti þekkt þá tilfinningu.

Dagurinn í dag teygðist líka í annan endann og ég held að pólitískur ferill minn sé í gríðarlegu uppnámi þar sem fyrsti nefndarfundurinn minn var í kvöld en ég missti af sökum yfirvinnu.

En nú er það allt um garð gengið, hættur í vinnunni og skólinn tekur við. Vona að maður nái að standa sig síðasta árið.

Sá óra tími

Dagurinn í dag var svo hryllilegur að orð fá honum vart lýst. Ég trúi því varla að á morgun sé síðasti dagurinn í vinnunni. Þar sem morgundagurinn er þegar byrjaður þá ætla ég að kveðja verkamannalífið í bili og vonandi fyrir fullt og allt með eftirfarandi kvæði.

Verkamaður

Hann var eins og hver annar verkamaður,
í vinnufötum og slitnum skóm.
Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður
og átti ekki nokkurn helgidóm.
Hann vann á eyrinni alla daga,
þegar einhverja vinnu var hægt að fá,
en konan sat heima að stoppa og staga
og stugga krökkunum til og frá.
Svo var það eitt sinn þann óra tíma, að enga vinnu var hægt að fá. Hver dagur varð harðsótt og hatrömm glíma við hungurvofuna, til og frá. Þá ólgaði hatrið sem öldur á sænum, og auðvaldsins harðstjórum ristu þeir níð. Og loksins kom að því þeir börðust í bænum, um brauð handa sveltandi verkalýð. Þann dag var hans ævi á enda runnin og enginn veit meira um það. Með brotinn hausinn og blóð um munninn, og brjóst hans var sært á einum stað. Hans fall var hljótt eins og fórn í leynum, í fylkinguna sást hvergi skarð. Að stríðinu búnu, á börum einum, þeir báru hans lík upp í kirkjugarð. Og hann var eins og hver annar verkamaður, í vinnufötum og slitnum skóm. Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður og átti ekki nokkurn helgidóm. Engin frægðarsól eða sigurbogi er samantengdur við minning hans. En þeir segja, að rauðir logar logi á leiði hins fátæka verkamanns.
Steinn Steinarr

William Jefferson Clinton

Maður gat ekki annað en borið saman Clinton við Bush yngri þegar að sá fyrrnefndi leit hérna við í gær og fékk sér pylsu. Bill Clinton er skýr náungi, kemur vel fyrir og er með sitt á hreinu. George W. Bush kemur varla frá sér óbjöguðum setningum, virðist aldrei vita nákvæmlega hvað hann er að tala um og hefur engan karakter.

Líklega eiga Bandaríkjamenn sem og fleiri eftir að líta til baka á Clinton árin sem gullnu árin. Þegar að flest lék í lyndi og það eina sem repúblikanir gátu gert á móti Clinton var að hamra á sögum af framhjáhaldi hans, því ekki gátu þeir sett út á efnahagsstjórnunina eða hvernig hann beitti sér í málefnum heimsins.

Núna er efnahagurinn í djúpri lægð, ófriður í heiminum hefur ekki verið meiri í áratugi og hálfgerð ógnarstjórn óttans ræður ríkjum í Bandaríkjunum. Enda er óttinn besta stjórntækið sem völ er á.

Það er annars skrítið hversu mikið maður veit um bandarísk stjórnmál. Ég veit t.d. ekkert um færeysk stjórnmál en ég man alla Bandaríkjaforseta frá lokum seinna stríðs. Það er frekar skrítið.

Farenheit 9/11

Fór á Farenheit 9/11 í kvöld. Kom dálítið á óvart að klukkan átta á þriðjudagskvöldi var setið í nær hverju sæti í sal 2 í Laugarásbíói, á heimildarmynd! Sem þar að auki er búin að vera í sýningu í dágóðan tíma.

Mér fannst myndin afar góð og fróðleg samantekt á þróun mála í BNA eftir valdarán George W. Bush í kosningunum 2000. Það er vel þess virði að fara að sjá hana, sérstaklega í þessu kvikmyndahallæri sem hefur verið í gangi undanfarið.

Myndin náði að skerpa aðeins á reiði minni í garð yfirvalda í BNA og öllum þeim sem hafa stutt þá í brjálæði undanfarinna ára. Það var alveg sérstaklega ömurlegt að sjá Iceland nefnt í hópi þeirra staðföstu þjóða sem fylgja Kananum að málum í myndinni, til þess eins að hæðast að The Coalition.

Michael Moore á hrós skilið fyrir að gera góðar áróðursmyndir. Hvernig væri ef fólk tæki sig til og gerði myndir t.d. um afrek ríkisstjórnarinnar? Kannski væri hægt að fá fólk til að hætta að kjósa þetta hyski yfir okkur trekk í trekk….

Í morgunsárið

Stóð í morgun um hálfátta fyrir framan húsið mitt og beið eftir að vinnufélagi minn kæmi til að skutla mér í vinnuna. Kom þá aðvífandi kona um sextugt sem var mikið niðri fyrir. Hófst þá undarlegt samtal. Það skal tekið fram að allt sem brjálaða konan sagði var mjög hátt og skerandi í eyrum.

Brjáluð kona: Ertu að segja mér að þú vitir ekki afhverju hann Ólafur er að hætta!?!

Tek það fram að þetta var það fyrsta sem hún sagði, það var ekkert verið að bjóða góðan daginn eða neitt slíkt. Ég var mjög undrandi, svona nývaknaður og ekki í stuði til að spjalla við tjúllaðar kellingar. Ákvað að vera kurteis og hress (eins og hægt er að vera klukkan hálf átta á mánudagsmorgnum).

Lárus: Ha, nei hvaða Ólafur er það?

Á þessum tímapunkti hafði ég ekki hugmynd um hvað hún var að tala um.

Brjáluð kona: Nú hann Ólafur Stefánsson í handboltanum! Á ég að segja þér afhverju hann er að hætta, veistu það!?!
Lárus: Nei, afhverju?
Brjáluð kona: Það er útaf þessum andskotans Garcia, hann er frá Kúbu! Helvítis Rússarnir þurfa alltaf að eyðileggja allt!
Lárus: Já er það já?

Sem betur fer kom vinnufélagi minn akkúrat á þessari stundu og ég hrökklaðist inn í bílinn hans og slapp þannig. Úti var konan og bölvaði kommúnistum og útlendingum meðan hún strunsaði að útidyrahurðunum hjá sér. Sá þá að þetta mun vera nágranni minn í einungis tveggja íbúða fjarlægð. Það er gott að eiga góða granna.

Í bílnum horfði vinnufélagi minn á mig með spurnarsvip.

Vinnufélagi: Var þessi að reyna við þig?

Þannig hófst síðasti mánudagurinn sem ég þarf að vinna í sóðalegu vinnunni minni í bili. Húrra fyrir því.

Menningarnótt

Ég fór í fyrsta sinn á ljóðakvöld á Menningarnótt og það stendur eiginlega uppúr. Það var einnig kíkt á tvö listasöfn, þ.e. Listasafn Íslands við Lækjargötu og Hafnarhúsið.

Ljóðakvöldið var n.k. ljóða-idol. Voru ca. 15 keppendur (þegar að ég kom inn) og þeir fluttu ljóð eftir sig og voru síðan dæmdir af dómnefnd. Í dómnefndinni var kona sem ég kannaðist ekki við, Sverrir Stormsker og Erpur Eyvindarson. Síðan völdu áhorfendur tvo áfram í úrslit og síðan ákváðu dómararnir hvor ætti skilið að vinna.

Það er alltaf gaman að koma í Hafnarhúsið og skoða verkin eftir Erró. Mér finnst Erró einfaldlega vera langflottastur og þegar að ég verð ríkur kaupi ég eingöngu verk eftir Erró fyrir heimilið.

Annars var ekkert sérstakt jamm um kvöldið, fórum á Grandrokk eftir flugeldasýninguna þar sem ágætis reggí-band var að spila (man ekkert hvað þeir kölluðu sig). Það var fínt að vera þar en svo þurftu allir að æða út að tónleikunum loknum að leita að betri stað en að sjálfsögðu var allt troðfullt þannig að þetta lognaðist út af eftir það. Menn fóru heim strax um tvöleitið, ég og J.Ó. hengum niðrí bæ og hittum e-ð af sniðugu fólki en komust að sjálfsögðu ekkert inn neins staðar.

Jammið var semsagt undir meðallagi þennan laugardaginn, var reyndar mun betra á föstudeginum í afmælispartý Stínu. Það verður þó örugglega betra næsta laugardag þegar að James Brown tekur gott sprell í Laugardagshöll.

Myndablogg

Ég sé það að ég hef gert stór mistök fyrir ári síðan þegar að ég keypti mér símann minn. Hann er nefnilega það hipp að hann er með innbyggðri myndavél og því hefði ég getað startað myndabloggi einhversstaðar. Núna er annar hver maður kominn með svona myndablogg og því er það ekki frumlegt lengur að starta svoleiðis dæmi.

Læt því bara myndasíðuna mína duga í bili.