Næstsíðasta bloggið

Tilurð þessarar síðu má rekja allt aftur til sumarsins 2001. Það sumar ákváðu fjórir ungir menn með stóra drauma, sem þá voru búsettir á Akranesi, að flytja til Reykjavíkur og hefja nám við Háskóla Íslands. Þeir voru fyrir utan mig sjálfan, Sverrir, Márus og Davíð. Ákváðum við um sumarið að freista þess að komast inn á Stúdentagörðunum eða þá fá okkur stóra íbúð sem við gætum allir fjórir leigt í. Sú hugmynd gekk eftir og síðsumars fluttum við fjórir í stóra og vistlega íbúð í Skafthlíð 10, uppi á fjórðu hæð með ágætis útsýni. Kölluðum við þetta Kommúnuna og var þetta alvara hin mesta í alla staði. Þar undum við glaðir og hýrir (þ.e. Davíð) fyrsta misserið okkar í HÍ. En þá ákvað leigusalinn, sem síðar var nefndur Hóruson og öðrum verri nöfnum, að endurnýja ekki leigusamning okkar og voru þá góð ráð dýr. Neyddumst við Sverrir, Davíð og ektamaður hans Heiðar til að flytja okkur um set niður í 101 í íbúðarkytru við Njálsgötuna, síðar nefnt grenið og öðrum verri nöfnum. Sú íbúð var um 1/3 af stærð þeirrar sem við höfðum áður til umráða og öll hin óhrjálegasta. Frægar eru sögur okkar Sverris um þegar að það kom fyrir, oftar en einu sinni, að svo kalt var í greninu nokkra vetrarmorgna að við komust ekki í skólann á morgnanna. Eitt baðherbergi var í greni þessu sem var lítið, eins og allt í þessari íbúð, og þar að auki sameiginlegt með hinni íbúðinni þannig að sjö manneskjur brúkuðu það að staðaldri.

Of langt mál og sorglegt væri hér að telja upp öll þau óþægindi sem fylgdu dvöl okkar í hreysi þessu. Kostirnir voru aftur á móti þeir að við kynntumst því hversu ágætt það var að eiga heima í 101 og einnig komust við í kynni við sjoppuna Drekann, en sú sjoppa er ennþá uppáhaldssjoppan mín, en hún er beint á móti húsinu sem við hýrðumst í. Þegar að vormisseri lauk flúðum ég og Sverrir upp á Akranes um sumarið og þá leigði ég hjá Óla, Knúti og Helga Þór í partýíbúðinni á Kirkjubraut. Leið svo sumarið við skemmtanahöld og öldrykkju.

Leið svo að öðru skólaári mínu í HÍ og þá um sumarið 2002 kviknuðu hugmyndir um endurreisn Kommúnunnar. Var það samkomulag á milli okkar Sverris, Jakobs og Hauks um að taka nú góða íbúð í Reykjavík á leigu, allrahelst og eiginlega bara í 101, og stofna þar nýja kommúnu. Einnig kom Sverrir fram með þá hugmynd að stofna skyldi bloggsíðu þar sem allir kommúnumeðlimir hefðu tækifæri til að viðra skoðanir sínar. Ég man að í fyrstu skyldi ég ekki orðið blogg og þurfti að útskýra það fyrir mér. Í fyrstu var ég efins um þessa hugmynd því að ég þekkti þá nokkra sem stunduðu slíkt athæfi og var ég viss um að ég nennti alls ekki að standa í þessu. Þannig að ef Sverrir hefði ekki troðið þessari síðu upp á mig, sem hann bjó til, væri óvíst að ég ætti svona síðu núna í dag.

Fyrsta bloggið birtist á síðunni þann 8. ágúst 2002 og var það eftirfarandi:

já halló skrifað af Sverrir Aðalsteinn Jónsson klukkan 01:41

Svona varð þessi síða til. Skömmu síðar náðum við að redda okkur húsnæði og var það Jakob sem átti mestan heiður að því. Í Óðinsgötunni fengum við okkar eigið hús í bakgarði og var það alveg frábært húsnæði, þrátt fyrir að útsýni hafi skort nokkuð. Fluttum við þangað inn 1. september og var þá skrifað að því tilefni daginn eftir:

Í upphafi var orðið og orðið var hjá kommúnunni og orðið var kommúnan. Kommúnan er ekki lengur aðeins til í draumum okkar og vonum, hún er ekki lengur hugarfóstur nokkurra einstaklinga, hún er orðin að veruleika. Í gær, sunnudag, var flutt inn á Óðinsgötuna í glæsilegt einbýlishús þar sem Arnar Jónsson leikari tók á móti okkur og kenndi okkur hvernig best væri að búa um rúmin (!).

Eigendur voru Arnar Jónsson leikari og Þórhildur Þorleifs leikstjóri og áttum við þar ágætis búsetu fyrstu vikurnar við skákiðkun og pilsnerdrykkju. En svo syrti í álinn þegar að Sverrir ákvað áður en mánuður var liðinn að flytja sig yfir á Stúdentagarðana, réttara sagt 30. september:

Ótrúlegir hlutir gerast með miklum hraða núna í kommúnuni, einn meðlimur er lagður á flotta úr þessu bæli drykkjuskapar og ómennsku, já ég!!! Mér hefur verið úthlutuð einstaklingsíbúð á Stóragarði að Eggertsgötu 24 (Ásgarðar).

Þetta féll í fyrstu í grýttan jarðveg hjá öðrum kommúnumeðlimum. Ég skrifaði e-ð á þessa leið sama dag:

Sverrir leggur á flótta til Stúdentagarðalands, líkt og nazistarnir flýðu til Argentínu á sínum tíma.

Jakob bætti aldeilis um betur og skrifaði um einni og hálfri klukkustund síðar:

Já Sverrir Aðalsteinn Back stapping Júdas son of bitch Jónsson ætlar að fara. Það var hvort sem er alltaf vond lykt af honum. Mér er illa við vonda lykt.

Sverrir brást ókvæða við þessu og sleit sig burt úr kommúnusíðunni með eftirfarandi lokaorðum.

Ég hef aldrei vitað annan eins móral í nokkrum mönnum eins og Lalla og Jakobi, megi þeir bara éta skítinn hvor úr öðrum þarna á Óðinsgötunni. Hér með er það tekið fram að ég fer í fússi og ætla ekki að lána ykkur sófann minn, þið getið setið á gólfinu hundingjar. Ég er hættur að skrifa á þessa síðu….

Dramatíkin reis aldrei jafn hátt á þessari síðu síðan þá. Í stað Sverris fengum við kvikmyndargerðarmanninn Sigurð Tómas sem meðleigjanda en hann var þá að glíma við stúdentsprófið í FB. Siggi kom með ferska strauma inn í kommúnuna, hann kunni að elda ýmislegt sniðugt og færði með sér kvikmyndalistina í spóluformi. Fljótlega varð þó ljóst að ég var virkastur allra í þessari nýju dellu blogginu. Þetta var einmitt mjög vinsælt í umræðunni þá og var t.d. einn Kastljós þáttur helgaður blogginu. Skrifaði Jakob við það tækifæri 11. október:

Ég hef ekki enn þá náð þessu, sérstaklega eftir Kastljós þáttinnn þar sem voru einhverjir ofur bloggarar sem blogga daglega um allskyns óþarfa og brjálæði, feit kelling sem var í of stórum jakka og lítill kall með krullað hár og talið af sannfæringu, sannfæring er dýflisa. Þau töluðu um blogg og hvað það væri nú frábært, svo fóru þau heim til sín og blogguðu um það að þau hefðu verið að tala um hvað blogg er frábært svo hafa þau gefið katta hjörðinni sinni og skipt á rúmunum og gufusoðið nærbuxurnar sínar.

Haukur var aldrei mjög virkur í þessu enda var hann vinnandi maður og hafði lítinn tíma fyrir rugl. Eitt það eftirminnilegasta sem kom frá honum birtist 30. nóvember og er alveg gríðarlegur einkahúmor sem fáir skilja.

Gáfulegar samræður á Óðinsgötu: Kommúnus 1: Ég gef mig allan fyrir ykkur. Þessi kaka sem ég gef ykkur er í raun og veru myndlíking fyrir annað og mikið meira. Kommúnus 2: Er þessi kaka þá myndlíking fyrir tertu?

Einnig fannst mér merkileg 10 þrepa áætlunin hans til að losna við leiða sem skrifuð var 8.desember.

1: Þaga í heilan dag. (let´s see where that gets me.) 2: Geng í Votta Jehóva. 3: Húðflúra nafn og kennitölu ókunnugrar manneskju á mig og fer og sýni henni það. 4: Stofna Emo hljómsveit með mömmu minni. 5: Gerist Apostate úr Vottunum (maður sem hefur einu sinni verið vottur en er hættur vegna þess að annaðhvort fannst honum þetta bara ekki rétt, eða þá að hann hefur verið rekinn. Vottunum er bannað að tala við slíkan mann, jafnvel mega þeir ekki heilsa honum úti á götu…slíkt er brottrekstrarsök. Þar af leiðandi ætti maður að vera laus við þá for good.) 6: Vingast við Pólverja. 7: Horfi á Pantera – Vulgar vídeóið 12 sinnum sleitulaust. (God knows why.) 8: Sef heilan dag. (Hér fer hreinsunin fram.) 9: Fer á brandaranámskeið hjá Halla og Ladda. (Frjóvgun Hugans.) 10: Vef mig í sellófan, læt bera mig niðrá Austurvöll þar sem ég ríf mig úr því fyrir framan helst sem flesta. (Tákngerving fyrir umbreytingu, þið vitið: púpa/fiðrildi, mjög falleg athöfn.)

Sigurður skrifaði líka ekki oft og yfirleitt var það súrrealískt með afbrigðum. Einnig voru hægðir honum oft hugleiknar eins og glögglega mátti sjá á færslu frá 14. október.

Bloggið virðistt bara vera röfl í öðru fólk. Á þetta fólk ekki vini sem þau geta ssetið í stofunni og röflað með; Já jói ég reyki altof mikið og hvað er þessar serviettur osfrv. Já eg er Kjartan. Lásrus trúir því ekkki . ég er ekki bastarður lárus éttu skít. ég held að þessi síða se til staðar svo að við, gaurarninr í kommúnni geta talað illa um hvorn annan. Jakob éttu skítinn úr rassinum á dauðri rollu og Lárus éttu skítinn sem jakobkúkar út. Ahahhahahahhahhahahhahhahha

Um áramótin 2002-2003 fluttu bæði Siggi og Haukur út á land, Siggi til Grundarfjarðar og Haukur til Akraness. Í stað Sigga kom bróðir hans Adam Kári. Ef kommúnan hafði verið konungsríki hefði Adam verið titlaður hirðfíflið. En við höfðum öll mjög gaman að honum þrátt fyrir allt þannig að ég vona að hann móðgist ekki. Þó tel ég ólíklegt að hann hafi enst til þess að lesa alla leið hingað. Adam er í minningunni maðurinn sem sat fyrir framan sjónvarpið, eftir að hann vaknaði kl. 3 á daginn, á stuttbuxum iðullega vafinn teppi með kókflösku og sour cream and onion kartöfluflögur. Hann skrifaði ekki oft á þessa síðu og yfirleitt náði ég því ekki hvað hann var að skrifa um. Fyrsta færsla hans birtist 23. janúar og var eftirfarandi:

Er jörðin skalf og fólk hlupu um einsog hauslausir kjúklinga stóð einn maður, stór maður og mikill maður. Adam er ég og ég er komin á Kommúnuna til að vera! Adam Kári Helgason heiti ég (bróðir Sigurðar T Helgasonar) og flutti um áramótin seinustu. Mín valdatíð í kommúnuni verður farsæld með fullt að kvennmönnum og sælgæti og ég vona að eitthvað annað en þetta rugl komi úr mér í framtíðinni, það er að segja hápólitíska pistla sem munu hrista upp í kjarna samfélagsins. Takk

Verra var það þó með brotthvarf Hauks þar sem enginn leigjandi fannst fyrst í stað hans. Eftir mikla leit, viðtöl við ýmislegt fólk, samtöl í reykfylltum bakherbergjum og auglýsingar á opinberum stöðum fengum við yndislega stúlku sem meðleigjanda, Berglindi að nafni og flutti hún inn í byrjun mars. Af einhverjum ástæðum fékk hún þó aldrei aðgang að þessari síðu. Í millitíðinni gerði ég einu útlitsbreytingar sem gerðar hafa verið á síðu þessari og hefur hún haldið útlitinu síðan. Þessi vetur og vorið einkenndust mikið af umfjöllun, ritdeilum og mótmælum um Íraksstríðið. Einnig voru alþingiskosningar um vorið og þá var oft dýrt kveðið á ritvellinum. Þessi síða reyndist svo vel þegar að ég fór um vorið með líffræðinemum til Tælands en þar komst ég nokkrum sinnum á Netið og gat skrifað nokkra pistla þaðan. Það vor leystist kommúnan upp þar sem leigusamningur okkar gilti bara út maímánuð og ekki var hægt að leigja húsið yfir sumarið. Ég flutti þá til Stínu systir eftir stutta viðkomu í íbúð Katrínar á Stóragarði. Þá ætlaði ég mér alltaf að loka þessari síðu þar sem kommúnan sem hún var byggð í kringum var ekki til lengur. Einhvern veginn tímdi ég því samt ekki og að lokum ákvað ég að taka yfir síðuna, rak Adam og Jakob burt og tók mér alræðisvald. Það gerðist 22. júní.

Í dag tók ég öll völd á þessari síðu fyrir fullt og allt. Adam Kári og Jakob voru sendir í hina stafrænu fallexi og héðan í frá á ég þessa síðu. Að vísu voru þeir löngu hættir að skrifa en þeir höfðu ekkert merkilegt að segja hvort eð er. Nú er það spurning hvað maður gerir við síðuna. Ég er ekki alveg viss hvað ég á að gera af mér í því sambandi. Á ég að halda þessu gangandi áfram eða hætta þessu? Upphaflega planið var að hætta eftir að kommúnan flutti út en núna er ég ekki svo viss.

Þetta sumar og allt fram að áramótum var ég að vinna hjá byggingarverktaka og síðan hóf ég aftur mitt háskólanám eftir áramótin. Fátt markvert gerðist á þessum tíma, það merkilegasta sem ég gerði var að skrá mig úr Þjóðkirkjunni þann 17. nóvember. Síðan tók ég að mér 11. sætið á Háskólalistanum um veturinn og við unnum nokkurn kosningasigur þótt ég telji að það hafi verið minnst mér að þakka þar sem ég var lítið virkur í starfinu. Svo leið vetrarmisserið með hefðbundum ofurprófum um vorið, síðan kom sumarið og nú er ég hér.

Eins og titillinn ber með sér er þetta næstsíðasta bloggið sem skráð verður á þessa síðu. Hún á einungis eftir um einn og hálfan mánuð til þess að ná tveggja ára aldri en þeim aldri nær hún ekki. Það hefur gefið mér nýtt sjónarhorn á tilveruna að skrifa um hana í þessa vefdagbók. Ég er mjög sáttur við það að hafa verið hálfvegis troðið inn í þennan bloggheim því hann er þegar að öllu er á botninn hvolft, skemmtilegur. Það er með hálfvegis eftirsjá sem ég kveð þessa síðu því að hún hefur fylgt mér eins og áður sagði í hartnær tvö ár. Ég mun þó ekki hætta þessu opinbera tuði heldur flytja það annað. Tilkynning um það verður gefin út með síðustu færslunni sem birt verður hér.

Vertu sæll Blogger minn, ég veit að ég hef margoft öskrað á þig og kallað þig óviðeigandi nöfnum en þú varst, þrátt fyrir allt, einfaldur og ókeypis.

We all have big changes in our lives that are more or less a second chance.
Harrison Ford

Lokað er fyrir andsvör.