Vísindi og gervivísindi

Birgir Baldursson, einn af þeim sem standa að Vantrú.net setti eftirfarandi texta inn á kommentakerfi Vantrúarvefsins. Þetta er brot úr bók Carl Sagans, Demon Haunted World, og þetta er afar gott dæmi um hvernig gervivísindi, hjátrú og rugl vaða uppi í samfélögum nútímans þrátt fyrir að fólk ætti nú að vita betur. Ég ákvað að stela þessu og birta hér, kommentið birtist upphaflega hér. Þýðingin er eftir Birgi sjálfan.

Þegar ég kom út úr flugvélinni beið hann eftir mér með pappaspjald á lofti og hafði klórað á það nafnið mitt. Ég var á leið á ráðstefnu vísindamanna og sjónvarpsstöðva, en hún var helguð því vonlausa verkefni að bæta úr framsetningu vísindaefnis á hinum einkareknu sjónvarpsstöðvum. Þeir sem skipulögðu þetta höfðu verið svo almennilegir að senda mér bílsstjóra. „Er þér sama þó ég spyrji þig einnar spurningar?“ sagði hann meðan við biðum eftir farangrinum. Já, mér var svosem sama. „Veldur það ekki ruglingi að heita sama nafni og vísindagaurinn þú veist?“ Ég var smá stund að átta mig. Var hann að stríða mér? Loks rann upp fyrir mér. „Ég er hann þessi þarna vísindagaur,“ svaraði ég. Hann var hljóður um stund en brosti svo. „Fyrirgefðu, þetta er mér eilífðarvandamál. Mér datt í hug að þú ættir við það sama að stríða.“ Hann rétti mér höndina. „Hemmi Gunn hér“. (Auðvitað hét hann ekki Hemmi Gunn en hann hét sama nafni og umdeild sjónvarpsstjarna og hefur sjálfsagt þurft að þola feiknin öll af góðlátlegu gríni.) Þegar við höfðum komið okkur fyrir í bílnum og hin langa ökuferð hófst, rúðuþurrkurnar í taktföstu ískri, sagði hann mér að það gleddi sig að ég væri „þessi vísindagaur“ – hann langaði að spyrja svo margs um þau mál. Væri mér ekki sama? Jú mér var alveg sama. Svo hófust samræðurnar. En í ljós kom að þær höfðu ekkert með vísindi að gera. Hann vildi tjá sig um geimverur, sem áttu að vera djúpfrystar í herstöð nálægt San Antonio, „ómkristal“ (notaður til að heyra hugsanir látins fólks – hefur reynst árangurslítil aðferð), spádóma Nostradamusar, stjörnuspeki, líkklæðið í Túrin… Hann vék að hverju undraverðu málefninu af öðru með sama glaðbeitta áhuganum. Í hverju einasta tilviki varð ég að valda honum vonbrigðum: „Sannanir eru ófullnægjandi“, sagði ég hvað eftir annað. „Það er til mun einfaldari skýring.“ Hann var á sinn hátt víðlesinn. Hann kunni náin skil á ýmsum getgátum um t.d. hina sokknu heimsálfur Atlantis og Lemúríu. Hann hafði það á hreinu að neðansjávarleiðangrar voru í þann veginn að finna fallnar súlur og brotna turna af því sem eitt sinn var mikil siðmenning en var nú aðeins heimsótt af lúsíferum og risasjóskrímslum. Nema hvað…þrátt fyrir að úthöfin geymi margan leyndardóminn, þá vissi ég sem var að það er ekki vottur til af neinu í djúpsjávarfræðum né í landfræðilegum skilningi sem rennt getur stoðum undir tilvist Atlantis og Lemúríu. Séð frá sjónarhóli vísindanna getur tilvist þeirra ekki nokkurn tíman hafa átt sér stað. Og þar sem ég var orðinn svo tregur í taumi, lét ég þá vitneskju mína í ljós. Ég gat séð, þar sem við ókum áfram í rigningunni, hvernig vonbrigðin hrönnuðust upp í andlitinu á honum. Enda var ég ekki einungis að hafna einhverjum fræðikenningum, ég var að lýsa frati í heimsmynd þá er var honum svo mikils virði. En samt er í vísindunum svo ótal margt sem ekki er síður spennandi, jafnvel enn dularfyllra og skorar vitsmunina enn djarfar á hólm – auk þess að vera svo miklu nær sannleikanum. Var honum kunnugt um allt lífræna efnið sem svífur þarna úti í köldu tóminu, í þunnum gasskýjum milli fastastjarnanna? Hafði hann heyrt um fótspor forfeðra okkar sem fundist hafa í fjögurra milljón ára gömlu gosgjalli? Hvað með þá staðreynd að Himalayafjallgarðurinn hefur risið sökum þess að Indland þrýstir sér upp að meginlandi Asíu? Eða það að veirur sem eru í sköpulagi eins og sprautur losa erfðaefni sitt inn fyrir varnir hýsils síns og breyta frumum í þeirra eigin útungunarverksmiðjur, nú eða leitina að vitsmunalífi í alheimi gegnum útvarpssjónauka, hvað þá hina nýuppgötvuðu fornmenningu á Eblu þar sem finna má auglýsingar um gæði Eblubjórsins? Nei, hann hafði ekki heyrt um þetta. Ekki hafði hann heldur minnstu hugmynd um óreiðukenningu skammtafræðinnar og DNA var fyrir honum aðeins skammstöfun sem hann hafði séð mikið notaða. „Hemmi Gunn“ – svo vel að máli farinn, greindur og forvitinn – hafði varla nokkurn nasaþef að nútíma vísindum. Að undrast furður veraldar var honum þó eiginlegt. Það fannst í honum þrá eftir vísindalegri þekkingu. Gallinn var bara sá að öll hin vísindalega vitneskja hafði skolast burt áður en hún barst honum til eyrna. Helstu gildi menningar okkar, menntakerfið og samskiptakerfið höfðu brugðist þegar kom að honum. Og það sem samfélagið þó hafði borið honum á borð var örðugt skilnings og ruglingslegt. Það hafði aldrei kennt honum að greina á milli raunverulegrar vísindaþekkingar og ódýrra eftirlíkinga. Hann vissi ekkert um hvernig starfi vísindanna er háttað. Það eru til hundruð bóka um Atlantis – þetta dularfulla meginland sem sagt er að hafi átt sér tilvist fyrir um eitthvað 10.000 árum í Atlantshafinu. (Eða einhversstaðar. Nýleg bók tilgreinir það á Suðurskautslandinu.) Fyrstu heimildir eru frá Platóni. Hann greindi frá vitrun sem hann sagði að borist hefði sér aftan úr forneskju. Nýlegar bækur lýsa fjálglega þróaðri tækni Atlantisbúa, siðferði og trú ásamt þeim hörmulega atburði þegar heil heimsálfa sökk í sæ með manni og mús. Svo er það „Nýaldar“- Atlantis sem frægt var af háþróaðri tækni sem aðallega fólst í kristalsvísindum. Í bókaþrennu sem ber nafnið Uppljómun kristallanna og er eftir Katrinu Raphaell – en þessar bækur eru helsti valdur kristallaæðisins í Bandaríkjunum – er fullyrt að Atlantiskristallar nemi hugsanir og útvarpi þeim, auk þess að vera geymslustaður hins forsögulega og upprunalíkan egypsku píramíðanna. Engu því sem líkst gæti sönnunum er varpað fram þessum fullyrðingum til stuðnings. (Endurvakning kristallaæðisins gæti komið í kjölfar nýlegra uppgötvanna raunverulegra vísindamanna í jarðskjálftafræðum sem fundið hafa út að kjarni jarðar er að líkindum mótaður úr einum tröllauknum og nærri fullkomnum kristal – úr járni.) Fáeinar bækur – ein að nafni Þjóðsögur Jarðar eftir Dorothy Vitaliano svo að dæmi sé tekið – túlka á skilningsríkan hátt þjóðsöguna um Atlantis með heimildum um smáeyju í Miðjarðarhafinu sem gereyddist í miklum eldsumbrotum, eða með forsögulegri borg sem sökk í Korintuflóa eftir jarðskjálfta. Þetta gætu vel verið, hvað snertir vitneskju okkar, orsakir þjóðsögunnar, en þær jafnast í engu á við rústun heillar heimsálfu sem hafði getið af sér óheyrilega þróað samfélag í tæknilegum og andlegum skilningi. Það sem nær ávalt skortir – þegar kemur að bókasöfnum, tímaritum eða vönduðum sjónvarpsþáttum – eru sannanir af hafsbotni eða í landrekskenningunni, ekki er þær heldur að finna í kortlagningu djúpsjávarbotnsins en hún sýnir á óyggjandi hátt að engin heimsálfa getur hafa verið milli Evrópu og Ameríku innan þeirra tímamarka sem möguleg eru. Falskar frásagnir sem fanga hinn trúgjarna eru víða fáanlegar. Mun erfiðara er að finna gagnrýna meðhöndlun efnistaka. Efahyggjan er ekki mjög söluvænleg. Hundrað – eða þúsund sinnum líklegra er að skörp og forvitin manneskja, sem aðeins leitar heimilda í lággróðri menningarinnar að málefnum á borð við Atlantis, endi með skáldaðar og ógagnrýnar heimildir í höndunum en raunsæja og yfirvegaða meðhöndlun. Ef til vill ætti „Hemmi Gunn“ að vera gagnrýnni á það sem hent er í hann af vinsældarlistanum. Að því slepptu er þó erfitt að koma auga á sök hans. Hann hefur einungis tekið inn það sem aðgengilegast og auðfáanlegast er af þeim upplýsingum sem haldið er fram að séu sannar. Honum hefur, í barnslegri einlægni sinni, verið kerfisbundið villt sýn og hann ruglaður í ríminu. Vísindin vekja undrunina í brjóstum okkar. En það gera gervivísindin einnig. Léleg og fátækleg útbreiðsla vísindanna skilur eftir tómarúm sem gervivísindin fylla samviskusamlega upp í. Ef fullur skilningur væri á því að meint þekking útheimtir haldgóðar sannanir áður en hægt er að taka hana til greina þá væri harla lítið rúm fyrir gervivísindi. En í alþýðumenningu okkar ríkir nokkurs konar Greshamslögmál þar sem vond vísindi kaffæra þau góðu.

Lokað er fyrir andsvör.