Archive for mars, 2004

Næsta skólaár

Þar sem geypileg ritstífla er í gangi ætla ég að halda áfram innantómu blaðri hér í Netheimum. Nú eru allir búnir að velja sér kúrsa fyrir næsta ár. Til þess að þurfa ekki að telja þá upp, ef ég verð spurður, ætla ég að birta kúrsana mína hérna og vísa svo á þessa síðu ef einhverjir byrja að forvitnast.

Haust 2004

Almenn efnafræði 1, já já já, tveimur árum eftir fyrri tilraun sný ég aftur í efnafræðiskor. Þetta verður einfaldlega að takast í þetta skipti, failure is not an option. Bragi kenndur við bleik er líka hættur að kenna þannig að maður á kannski einhvern séns núna.

Samanburðarlífeðlisfræði, hljómar töff.

Mannerfðafræði, illar tungur segja leiðindi þess kúrs stefna á óendanlegt, það eru örugglega bara ýkjur.

Frumulíffræði II, sagt er að námsefni sé ofhlaðið á nemendur í þessum kúrs því að kennarinn vill hafa þetta sem fjögurra eininga kúrs en er sem stendur einungis þrjár. Ég hugsa að það sé engin lygi. Það eru sjö kennarar skráðir fyrir þessum kúrs þannig að eitthvað hlýtur maður að læra á þessu.

Vor 2005

Efnagreining, daddara, einnig mun ég snúa aftur í þennan efnafræðikúrs dauðans II. Ég er þó sem betur fer búinn að leggja verklega hlutann í báðum þessum efnafræðifögum að baki þannig að þetta ætti að hafast núna.

Líftæknileg örverufræði, þetta er náttúrulega málið fyrir menn eins og mig, sem einhvern veginn slysuðust til að fá áhuga á líftækni og þess háttar vísindum.

Frumuerfðafræði, nýjasta nýtt í líffræðiskor. Verklegt námskeið sem keyrt er á fullu í tvær vikur undir stjórn Kesöru og svo fær mar þrjár einingar fyrir. Gott mál.

Þættir úr sögu og heimspeki vísindanna, heimspekin er grundvöllur allra vísinda og ekki seinna vænna en að fara að kynna sér hana betur. Mér skilst að maður að nafni Jakob hyggist einnig sækja þennan kúrs þannig að mikið debat er örugglega í vændum á þessum vettvangi.

Rannsóknarverkefni 5e, ég taldi vera kominn tíma á það að ég færi að stunda einhverjar sjálfstæðar rannsóknir í þessum geira. Ég fékk náðarsamlegast leyfi hjá erfðafræðiklíkunni sem ætla að leiðbeina mér í gegnum þetta. Nú vantar mig bara góða hugmynd að einhverju verkefni sem verður helst að skila mér Nóbelsverðlaunum, annars nenni ég varla að leggja þetta á mig.

Þannig að í vændum er stórt og mikið ár. Ég á eftir að fara langt yfir 90 einingarnar en svona fer þetta þegar að skipulagið klikkar hjá manni. Svo útskrifast maður í júní 2005 með B.S. gráðu, ekki slæmt. Samt eru allir farnir að tala um það að B.S. gráða sé nú ekki merkilegur pappír. Þetta er svipað og þegar að stúdentinn var kláraður, þá var manni sagt að þetta væri nú ekki mikil menntun. Oss þykir hart að hafa lagt að baki 17 og hálft ár í skóla en vera þó rétt svo búinn með grunnnámið. Á þetta sér engan enda? Ef ég klára masterinn, byrja þá ekki allir að tala um að masterinn sé nú ekki mikil menntun?

Ég gaf það víst út fyrir nokkrum árum að ég stefndi á doktorsgráðu í líffræði. Sá ásetningur stendur enn óhaggaður. Til hvers að byrja á þessu ef maður ætlar sér ekki að klára? :þ

Ritgerðarsmíðar

Að hefja ritgerðarsmíð getur stundum tekið á. Það sem liðið er af þessari önn hef ég náð að setja saman 20 bls. ritgerð og 20 mín. fyrirlestur um sjálfkrafa stökkbreytingar fyrir sameindaerfðafræði. Sú ritgerð er reyndar sem stendur í tjékki hjá prófessorum og öðrum lærðum mönnum en fær samt vonandi grænt ljós, þrátt fyrir að ég þurfi örugglega að bæta einhverju við hana. Einnig hef ég nú lokið við 15-20 mín fyrirlestur um samanburð á mismunandi burðarpróteinum bóluefna og frekari þróun þeirra gegn Haemophilus influenzea b fyrir ónæmisfræði sem vonandi á eftir að slá í gegn.

Það slæma er að á föstudaginn þarf ég að skila ca. 15 bls ritgerð um bólusóttarveiruna, variola, og ég er varla byrjaður á henni enn. Kennarinn ákvað það með 10 daga fyrirvara að ritgerðarskil ættu að vera 2. apríl, þrátt fyrir að fyrirlestur minn um sama efni er ekki fyrr en í þriðju viku apríl. Ef hann væri ekki svona gamall og skemmtilegur kall þá væri ég örugglega fúll út í hann. Ég þarf því líklega að fara til hans í fyrramálið og biðja um frest. Ég hef aldrei lent í öðru eins síðan að ég hóf nám mitt við HÍ.

Síðan þegar að því verður lokið þarf ég að setja saman ca. 15 bls ritgerð og 15 mín fyrirlestur í almennum stjarnvísindum um uppruna lífsins. Það ætti nú að vera leikur einn samanborið við hin verkefnin. Sérstaklega í ljósi þess að kennarinn er menntaður í stjarnvísindum og veit ekkert um líffræði. Ég get bara skáldað einhverja vitleysu þess vegna. Það verður reyndar merkileg reynsla að flytja fyrirlestur í þeim kúrs þar sem aðeins örfáir eru í líffræði. Getur maður þá notað flókin og löng orð eða verður maður að tala á almennum nótum? Hehehe….

Falluja

Það fór nettur hrollur um mann þegar að ég las fréttina um þessa fjóra verktaka í Falluja í Írak sem voru myrtir. Þeir voru síðan brenndir, dregnir eftir götunum og hengdir upp í næstu brú eins og gripir sem búið er að slátra.

Merkilegt hvað þeir sem studdu árásina á Írak hafa hægt um sig undanfarið. Ætli þeim hafi snúist hugur? Flestir þeirra voru líka aumingjar sem þorðu ekki að segja skoðanir sínar opinberlega. Enda voru þær ógeðfelldar svo maður vitni í Foringjann.

I’m an Atheist!

atheist.jpg Jæja þetta kom svosem lítið á óvart.

Sjálfhverfni

Óttalega var síðasta blogg sjálfhverft og leiðinlegt…..

Öld sameindalíffræðinnar

Daddara, samkvæmt þessari frétt frá HÍ fer nú að hefjast öld sameindalíffræðinnar. Þá hef ég aldeilis veðjað á réttan hest í lífinu af þetta er rétt.

Sérstaklega ef maður lítur til þess að það hefur orðið ótrúleg aukning í atvinnuleysi hjá háskólamenntuðu fólki. Fög eins og tölvunarfræði, viðskiptafræði og hagfræði sem þóttu eitt sinn afar örugg til að fá góða atvinnu, það er bara nokkuð mikið atvinnuleysi í þeim geira núorðið eða nífalt miðað við árið 2000. Atvinnuleysi hjá fólki með félagsvísindamenntun hefur svo ríflega tvöfaldast.

Annars er ótrúlega mikið af fólki sem er með mér á þriðja ári í líffræði sem ætlar að taka kennsluréttindanámið. Persónulega ætla ég að reyna að komast hjá því eins og mögulegt er að verða framhaldsskólakennari. Ekki það að eitthvað sé að því, mér finnst líftæknin og allur sá pakki mun áhugaverðari. Og þá er ég ekki að spá í launahliðina. Ég gæti einfaldlega aldrei gert neitt að ævistarfi mínu sem ég hef lítinn áhuga á. Þá er öll þessi háskólapæling farin í hundana að mínu mati.

Andleysi

Það er bara ekkert að ske þessa dagana……

Sálfræði er vafasamur pappír

Í dag þegar að ég sat í sakleysi mínu á Kaffi Náttúru, át samloku og las flokksblað Sjálfstæðisflokksins kom til mín ung kona og gaf sig á tal við mig. Vildi hún endilega að ég tæki nú þátt í könnun fyrir sig en hún var víst nemi í sálfræði. Ég kunni ekki við að segja henni að snáfa þannig að ég tók við blaðinu og byrjaði að fylla út.

Þessi könnun var um hvernig maka ég vildi hafa, þ.e. hvaða kosti þyrfti verðandi eiginkona mín að hafa. Það segir sitt um rótgróið piparsveinaeðli mitt að ég hafði í raun aldrei svo lítið sem leitt hugann að þessu. Ég byrjaði að gefa kostum einkunnir s.s. trúrækni, góður kokkur, þroskuð manneskja, góð manneskja, menntun, sambærileg áhugamál o.s.frv.

Þegar að ég loks hafði komið þessu frá fattaði ég að hinu megin á blaðinu var önnur könnun um sama málefni, öðruvísi upp sett þó. Allavega, það sem mér fannst skemmtilegasti kosturinn sem spurt var um þeim megin var um erfðafræðilega eiginleika. Hversu mikilvæga telur þú erfðafræðilega eiginleika maka þíns, væri eins hægt að spyrja. Mér fannst þessi félagslegi Darwinismi sem þarna kom fram mjög skoplegur.

Ekkert kareokae í dag en hvað með Pravda?

Fyrirsögnin talar sínu máli.

Vefritið sem…

Vefritið sem lofar efnahagsstjórnarhætti Bush, sem heldur að Tactcher sé einn af merkustu stjórnmálaleiðtogum 20. aldarinnar, sem hatar strætó, sem finnst mikið til hálf-fasískar ríkisstjórnar Anders Fogh Rasmussen koma, sem fannst innrásin í Írak algerlega réttlætanleg, sem nafngreinir ekki pistlahöfunda, sem skrifaði lofspistil um José María Aznar, sem er á móti umhverfisvernd, sem þolir ekki forseta íslenska lýðveldisins og sem birtir svo marga pistla sem eru vitleysa frá a til ö birtir enn einn slíkan í dag.

Vefþjóðviljinn birtir í dag pistil þar sem andstæðingar skólagjalda eru gagnrýndir fyrir að vera vondir við skattborgara. Ég vildi óska þess að ég hefði eins einfalda og barnalega lífsýn og aðstandendur þessa vefrits, þá hugsa ég að líf mitt væri einfaldara í alla staði.

Það er samt hollt að lesa það sem fylgismenn skólagjalda halda fram. Nauðsynlegt er að vita forsendur þeirra og rök svo hægt sé að hrekja þau. Gott er einnig að lesa síðuna skólagjöld.is þar sem áhugamenn úr hinum ýmsu skólum hafa myndað samtök sem styðja skólagjöld. Fólk jafnvel úr skólum þar sem skólagjöld eru nú þegar þannig að í raun er þetta hyski að berjast fyrir því að aðrir þurfa að borga skólagjöld.

Ég legg því til að stofnuð verða samtök í HÍ sem munu berjast fyrir því að hebreska verði kennd í öllum háskólum landsins. Ekki er nóg að hebreska sé kennd é HÍ heldur vil ég að allir háskólar í landinu kenni hebresku. Það mun bæta menntakerfið verulega og auka vitund nemenda um mikilvægi þess. Ekki satt?