Af reykingum

Síðasti pistill var skrifaður í nettu pirringskasti vegna þess að ég var búinn að fá nóg af því að vakna upp, einu sinni einn, daginn eftir miðbæjarskemmtan og lykta eins og notaður, sjúskaður sígarettufilter.

En það sem er skrifað af einhverri tilfinningu vekur alltaf upp bestu viðbrögðin. Á síðunni hennar Rósu er spurt í kommentakerfinu, um þetta mál, hvort að hið sama eigi þá ekki að gilda um áfengi og sígarettur, þ.e. hækka verðið til að standa straum af samfélagskostnaði. Samkvæmt tölum frá 2003 nam áfengissala ÁTVR um 11,6 milljörðum með virðisaukaskatti. Tóbakssala ÁTVR er um helmingur af því en ég veit reyndar ekki hvort að það sé heildarsala tóbaks á landinu.

Hagnaður ríkisins af áfengissölu er því líklega (án þess að geta algerlega staðfest það) mun meiri en nokkurn tímann af tóbakssölu.

Í þessari samantekt kemur hins vegar hinn gífurlegi kostnaður sem Íslendingar gjalda vegna tóbaksreykinga. Reyndar er þar minnst á óáþreifanlegan kostnað vegna þjáninga sem ég veit ekki hvort hægt sé að meta til peninga. Allavega þá er niðurstaða þessarar samantektar sú að kostnaðurinn gæti verið 20-21 milljarður á ári eða 71-74 þús kall á mann!

Fram kemur einnig í samantektinni að fleiri deyja af völdum reykinga en af völdum ólöglegra fíkniefna, áfengisneyslu, umferðarslysa, morða, sjálfsmorða og alnæmis samanlagt eða um 350–400 manns á ári. Meginorsök sjúkdóma í dag á Vesturlöndum eru reykingar og reykingamenn lifa sjö og hálfu ári skemur en þeir sem ekki reykja. Það kemur einnig fram í samantektinni að tekjur af tóbakssölu til ríkisins sé um 4,6 milljarðar. Er málið þá ekki það að hækka verðið á tóbaki um 500 % til þess að hlífa okkur hinum við því að þurfa sífellt að standa straum af vitleysunni í öðrum? Það finnst mér…….. og ég er ekki að grínast…..

Vitaskuld verða reykingamenn brjálaðir og tala um frelsisskerðingu og jafnvel mannréttindabrot. Hvað um hinn þögla, ekki-reykjandi meirihluta fólks sem borgar háa skatta til þess að halda í ykkur lífinu? Sættið ykkur við það, þið eruð fíklar og þið þurfið spark í rassinn til þess að átta ykkur.

Að lokum vil ég benda á reyklaus kaffihús og veitingastaði. Kaffihúsin eru reyndar örfá en þeim fer vonandi fjölgandi. Einnig vona ég að það verði sett bann við reykingum á börum og skemmtistöðum bráðlega. Mér finnst það alveg sjálfsagðasti hlutur í heimi.

Lokað er fyrir andsvör.