Nóg komið

Ég hef fengið nóg, miklu meira en nóg. Ég er búinn að nóg af þeim kvikindum sem reykingamenn kallast.

Það er ekki hægt að bregða sér niður í bæ nema með þeim skilyrðum að þurfa að umgangast þetta misheppnaða fólk. Það kemur sér fyrir allstaðar, á öllum skemmtistöðum og börum, hreiðrar um sig eins og rottur og byrjar að púa og brenna þurrkuð tóbakslauf eins og þeim væri borgað fyrir. Hvað á þessi hegðun að þýða?

Afleiðingarnar af þessu verða svo ætíð þær að andrúmsloftið á skemmtistöðunum verður hálffljótandi blanda hins eitraða tóbaksreyks sem umlykur mann allan. Reykurinn fer í augun á manni, í hárið og í fötin að ekki sé minnst á öndunarfærin þar sem hin fjölmörgu krabbameinsvaldandi efni keppast við um að stytta líf manns. Að lokinni góðri kvöldstund er maður orðinn angandi eins og gamall öskubakki. Afhverju þarf ég að búa við þetta ástand?

Að auki nægir þessum vesalingum ekki að menga loftið fyrir manni heldur þurfa þeir að sóa dýrmætum gjaldeyri til að hægt sé að flytja inn líkkistunagla fyrir þá. En það nægir ekki því að svo þurfa þessir aftanúrkreistingar að reyna að hætta að reykja. Þeir þurfa að fá bækur, tyggjó, nefúða, plástra, námskeið og ég veit ekki hvað svo að þeir geti látið af ósiðum sínum. Allt í allt er „hætta að reykja“ bransinn orðinn heilmikil gróðamylla fyrir sniðuga bissnessmenn sem notfæra sér veiklyndi fólks.

En það er ekki nóg fyrir niktótínfíklana. Kostnaðurinn fer fyrst að taka til sín þegar að þessi úrhrök samfélagsins fara að fá alls kyns sjúkdóma af völdum reykinga. Þeir hlaupa grátandi á sjúkrahúsin og skilja ekkert í því afhverju þeir þjást af lungnaþembu, krabbameinum, öndunarfærasjúkdómum og hvað eina sem rekja má beint til reykinga. Kostnaður vegna þessa hleypur ekki á tugum milljóna, ekki hundruðum milljóna, heldur þúsundum milljóna á ári. Miljarðar fara í það að reyna að bjarga fólki frá heimskunni í sjálfu sér árlega sem mætti svo sannarlega ráðstafa betur á þessum síðustu og verstu niðurskurðartímum.

Ég vil stöðva reykingar. Ég vil útrýma reykingum úr samfélaginu fyrir fullt og allt. Ég vil að verð á tóbaki verði hækkað þannig að sala á tóbaki standi undir öllum kostnaði samfélagsins vegna reykinga. Það er algerlega réttlátt að mínu mati.

Lokað er fyrir andsvör.