Archive for janúar, 2004

Ellefti maður

Í gær var framboðslisti Háskólalistans til Stúdentaráðs kynntur formlega á Stúdentakjallaranum. Ég tók að mér ellefta sætið og er stoltur af því að vera með á svo frambærilegum og fallegum lista. Nú er ekkert annað að gera en að byrja að kynna okkar málefni því að tíminn er að renna frá okkur.

X-H

Listakynning

Ég vil minna á listakynningu Háskólalistans á Stúdentakjallaranum í kvöld kl. 20:00. Mætum öll og styðjum við bakið á eina listanum sem vit er í.

Ugly naked guy

Í gær gekk ég út á svalir á heimili mínu að Ásgarði, Bústaðahverfi. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að mér varð litið yfir í næsta hús. Á efstu hæðinni þar var maður að strauja skyrtuna sína, ber að ofan. Mér varð dálítið hverft við og leit undan. Hugsaði svo, mér hlýtur að hafa missýnst og leit aftur. Þá gekk maðurinn inn í íbúð sína, frá glugganum og kom í ljós að hann var ekki bara ber að ofan heldur ber, punktur.

Ég er semsagt með einhvern natúralista í næsta húsi. Sagt er að sést hafi til naktrar konu í sömu íbúð þannig að þetta eru einhverjar hippar örugglega eða þaðan af verra. Ég þori varla út á svalir til að skoða stjörnurnar lengur.

Stjórnmál í USA

Nú fylgist allur heimurinn með forvali Demókrata á forsetaframbjóðanda fyrir kosningarnar í nóvember. Ég vona alveg innilega að einhver hæfur verði fyrir valinu. Það er afar mikilvægt að koma Bush og stórkapítalistastjórn hans frá. Það veit það hver maður með viti……

Breytingar

Í dag skrifaði ég undir plagg sem á eftir að hafa nokkur áhrif á mitt líf. Nú verð ég að vera afar málefnalegur og rökfastur næstu tvær vikurnar eða svo. Ég mun reyna að hafa áhrif á aðra stúdenta og kenna þeim aðferðir til að bæta Háskólann. Það verður ekki auðvelt verkefni.

Arísk upprisa

Af umræðum á netinu sem ég sá vísað í hjá Munda uppgötvaði ég tilvist samtakanna Arísk upprisa. Þessi samtök kenna sig við þjóðernissinnaðan sósíalisma eða nasisma og virðast vera full alvara með þessu. Þetta virðist vera einhver grein úr samtökum íslenskra þjóðernissinna. Ég á erfitt með það hreinlega að trúa á tilvist slíkra samtaka. Hvað gengur fólki eiginlega til?

Þarna eru birtar greinar um hvernig Gyðingar ráða heiminum, hvernig helförin var uppspuni, hvernig vegið er að hvítu fólki og að það sé í útrýmingarhættu og bla bla bla. Ég er orðlaus, hreinlega. Get ekki sagt meira um málið.

Mér skilst að batman.is hafi einhvern tíma hlekkjað í síðuna þannig að einhverjir kannast við hana. Hvernig væri að draga þetta fólk fram í dagsljósið og fá það til að tjá sig um málefni sín? Það á eftir að gera sig að athlægi en það kenndi þeim kannski eitthvað. Reyndar held ég að það sé ekki hægt að kenna svona hlandvitlausu fólki nokkurn skapaðan hlut.

Af reykingum

Síðasti pistill var skrifaður í nettu pirringskasti vegna þess að ég var búinn að fá nóg af því að vakna upp, einu sinni einn, daginn eftir miðbæjarskemmtan og lykta eins og notaður, sjúskaður sígarettufilter.

En það sem er skrifað af einhverri tilfinningu vekur alltaf upp bestu viðbrögðin. Á síðunni hennar Rósu er spurt í kommentakerfinu, um þetta mál, hvort að hið sama eigi þá ekki að gilda um áfengi og sígarettur, þ.e. hækka verðið til að standa straum af samfélagskostnaði. Samkvæmt tölum frá 2003 nam áfengissala ÁTVR um 11,6 milljörðum með virðisaukaskatti. Tóbakssala ÁTVR er um helmingur af því en ég veit reyndar ekki hvort að það sé heildarsala tóbaks á landinu.

Hagnaður ríkisins af áfengissölu er því líklega (án þess að geta algerlega staðfest það) mun meiri en nokkurn tímann af tóbakssölu.

Í þessari samantekt kemur hins vegar hinn gífurlegi kostnaður sem Íslendingar gjalda vegna tóbaksreykinga. Reyndar er þar minnst á óáþreifanlegan kostnað vegna þjáninga sem ég veit ekki hvort hægt sé að meta til peninga. Allavega þá er niðurstaða þessarar samantektar sú að kostnaðurinn gæti verið 20-21 milljarður á ári eða 71-74 þús kall á mann!

Fram kemur einnig í samantektinni að fleiri deyja af völdum reykinga en af völdum ólöglegra fíkniefna, áfengisneyslu, umferðarslysa, morða, sjálfsmorða og alnæmis samanlagt eða um 350–400 manns á ári. Meginorsök sjúkdóma í dag á Vesturlöndum eru reykingar og reykingamenn lifa sjö og hálfu ári skemur en þeir sem ekki reykja. Það kemur einnig fram í samantektinni að tekjur af tóbakssölu til ríkisins sé um 4,6 milljarðar. Er málið þá ekki það að hækka verðið á tóbaki um 500 % til þess að hlífa okkur hinum við því að þurfa sífellt að standa straum af vitleysunni í öðrum? Það finnst mér…….. og ég er ekki að grínast…..

Vitaskuld verða reykingamenn brjálaðir og tala um frelsisskerðingu og jafnvel mannréttindabrot. Hvað um hinn þögla, ekki-reykjandi meirihluta fólks sem borgar háa skatta til þess að halda í ykkur lífinu? Sættið ykkur við það, þið eruð fíklar og þið þurfið spark í rassinn til þess að átta ykkur.

Að lokum vil ég benda á reyklaus kaffihús og veitingastaði. Kaffihúsin eru reyndar örfá en þeim fer vonandi fjölgandi. Einnig vona ég að það verði sett bann við reykingum á börum og skemmtistöðum bráðlega. Mér finnst það alveg sjálfsagðasti hlutur í heimi.

Nóg komið

Ég hef fengið nóg, miklu meira en nóg. Ég er búinn að nóg af þeim kvikindum sem reykingamenn kallast.

Það er ekki hægt að bregða sér niður í bæ nema með þeim skilyrðum að þurfa að umgangast þetta misheppnaða fólk. Það kemur sér fyrir allstaðar, á öllum skemmtistöðum og börum, hreiðrar um sig eins og rottur og byrjar að púa og brenna þurrkuð tóbakslauf eins og þeim væri borgað fyrir. Hvað á þessi hegðun að þýða?

Afleiðingarnar af þessu verða svo ætíð þær að andrúmsloftið á skemmtistöðunum verður hálffljótandi blanda hins eitraða tóbaksreyks sem umlykur mann allan. Reykurinn fer í augun á manni, í hárið og í fötin að ekki sé minnst á öndunarfærin þar sem hin fjölmörgu krabbameinsvaldandi efni keppast við um að stytta líf manns. Að lokinni góðri kvöldstund er maður orðinn angandi eins og gamall öskubakki. Afhverju þarf ég að búa við þetta ástand?

Að auki nægir þessum vesalingum ekki að menga loftið fyrir manni heldur þurfa þeir að sóa dýrmætum gjaldeyri til að hægt sé að flytja inn líkkistunagla fyrir þá. En það nægir ekki því að svo þurfa þessir aftanúrkreistingar að reyna að hætta að reykja. Þeir þurfa að fá bækur, tyggjó, nefúða, plástra, námskeið og ég veit ekki hvað svo að þeir geti látið af ósiðum sínum. Allt í allt er „hætta að reykja“ bransinn orðinn heilmikil gróðamylla fyrir sniðuga bissnessmenn sem notfæra sér veiklyndi fólks.

En það er ekki nóg fyrir niktótínfíklana. Kostnaðurinn fer fyrst að taka til sín þegar að þessi úrhrök samfélagsins fara að fá alls kyns sjúkdóma af völdum reykinga. Þeir hlaupa grátandi á sjúkrahúsin og skilja ekkert í því afhverju þeir þjást af lungnaþembu, krabbameinum, öndunarfærasjúkdómum og hvað eina sem rekja má beint til reykinga. Kostnaður vegna þessa hleypur ekki á tugum milljóna, ekki hundruðum milljóna, heldur þúsundum milljóna á ári. Miljarðar fara í það að reyna að bjarga fólki frá heimskunni í sjálfu sér árlega sem mætti svo sannarlega ráðstafa betur á þessum síðustu og verstu niðurskurðartímum.

Ég vil stöðva reykingar. Ég vil útrýma reykingum úr samfélaginu fyrir fullt og allt. Ég vil að verð á tóbaki verði hækkað þannig að sala á tóbaki standi undir öllum kostnaði samfélagsins vegna reykinga. Það er algerlega réttlátt að mínu mati.

Pravda

Nú eru loksins komnar nýjar myndir á myndasíðuna mína. Líffræðinemar héldu bjórkvöld á Pravda og ég tók vélina með og skrásetti þann viðburð á spjöld sögunnar. Mér skilst að skrifa texta um viðburði gangi ekki lengur því að hægt er að túlka þá eftir hentisemi og túlkun þess sterkasta verður alltaf ofaná. Svona hluti lærir maður í hina akademíska umhverfi í háskólaþorpinu.

MacDonalds í mánuð

Kvikmyndagerðamaður í BNA sýndi fram á óhollustu skyndibitamatar með því að borða ekkert nema mat frá MacDonalds í mánuð. Hann gerði þetta fyrir heimildarmynd sína. Gaman að sjá menn taka kvikmyndagerðina alvarlega. Mikið vorkenni ég samt grey manninum að éta óbjóðinn frá MacDonalds í mánuð.