Archive for desember, 2003

Jólablogg

Jæja, nú er frí hjá manni fram til 2. janúar. Ég er að hugsa um að vera í sveitinni þangað til, veit ekki hvort að ég nenni í bæinn um áramótin.

Fékk dýrindis skötu áðan í hádeginu á Viktor. Skata er bara góður matur, ég vildi að hún væri oftar á árinu.

Ég vil þakka þeim sem sendu mér jólakort. Það er eitt af því sem ég geri aldrei að senda jólakort, finnst það hálf apalegur siður. Ég sendi þó kannski SMS kveðjur á Aðfangadag eða jafnvel MMS kveðjur til þeirra sem eiga þar til gerðan síma.

Svo vil ég óska öllum gleðilegs nýs árs, 2004 verður eftirminnilegt ár og mun betra en 2003………. örugglega.

Friðarganga

Ef ég væri ekki á leiðinni upp í sveit á Þorláksmessu þá væri nú farið í friðargöngu með blys niður Laugaveginn. Reyna að sýna smá lit svona í skammdeginu.

Rauður

Jólasveinn gærdagsins á Baggalút, Rauður, er núna uppáhalds jólasveinninn minn. Mér fannst vísan um hann einstaklega skemmtileg.

Rauður segir jólin rusl
og raunar einskis nýt
einkanlega espast hann
ef þau reynast hvít
hann sýpur ekki sykurvatn
né sjónvarp augum ber
sem baðað er blóði öreigans
af bandaríkjaher

Til fyrirmyndar

Ég held að skólayfirvöld í þessum enska skóla geti verið fyrirmynd fyrir íslensk stjórnvöld í framtíðinni. Það er alveg nauðsynlegt að halda þessum öryrkjum niðri, alltaf með derring alla daga, heimtandi mannréttindi og svona. Þeim var nær að fæðast svona fatlaðir…..

Bakverkur

Getur fjögurra tíma seta í Lazy-boy stól valdið bakverkjum daginn eftir? Ég held það bara svei mér þá. Heimsku lúxussalir……

Handtaka Saddams

caught.jpg

Hilmir snýr heim

Fór í gær og sá Return of the King. Óhemju löng mynd en mjög góð engu að síður, eins og við var að búast. Samt fyrir þá sem hafa lesið bækurnar þá eiga þeir örugglega eftir að sakna eins ákveðins atriðis varðandi Sarúman. Mér fannst það miður að það skyldi ekki hafa náð í myndina, en engu að síður glæsilegar myndir hjá Peter Jackson.

Enn um forsetann

Jæja þetta kemur á svona fimm daga fresti hjá mér. Býst við að Sverrir svari innan sólarhrings ef hann ætlar að halda vonlausri baráttu sinni áfram.

Vissir hlutir í lífinu eru til þess að skapa öryggi og koma í veg fyrir slys. Dæmi um það getur verið svalahandrið. Svalahandrið eru sett á svalir til þess að varna því að menn falli fram af svölunum. Það er þeirra hlutverk í lífinu. Nú getum við hugsað okkar að maður smíði sér hús með stórum og miklum svölum. Hann kaupir sér fallegt svalahandrið, gullslegið með einhverju útflúri og snobbi og setur það upp á svalirnar. Síðan býr þessi maður í húsinu í marga áratugi en selur það loks. Nýji kaupandinn lætur verða eitt af fyrstu verkum sínum að fleygja burtu svalahandriðinu. Rök hans fyrir því eru þau að aldrei hefur nokkurn tímann neinn dottið af þessum svölum og þar af leiðandi er handriðið óþarft.

Svipuðum rökum beitir Sverrir fyrir því afhverju forsetinn er gagnslaus. Aldrei hefur reynt á öryggishlutverk hans og því er hann óþarfur. Líkt og svalahandrið eru ekki fullkomið trygging fyrir því að menn eigi eftir að detta af svölunum þá er forsetinn ekki fullkominn trygging fyrir því að vondir menn eigi eftir að komast til valda. En einungis með tilveru sinni þá er hann visst aðhald fyrir þingið.

Einnig má það ekki gleymast að forsetinn hefur ekki eingöngu með löggjafarvaldið að gera. Forsetinn fer líka einn af þeim sem fer með framkvæmdavaldið og veitir þar með visst mótvægi við ríkisstjórnina.

Það er góð taktík í rökræðum að taka dæmi um einhverja vitleysinga og segja sem svo: „já þessum finnst það sama og þú, þannig að þú hlýtur að vera jafn mikill örviti og hann“. Við marga virkar þetta nefnilega oft, þeir hugsa sem svo að þeir geti nú ekki haft sömu skoðarnir og þessi apaköttur og skipta um skoðun. Er þetta skoðanakúgun….. líklega já, en þegar að svona hápólitískar bloggdeilur standa yfir þá tíðkast nú breiðu spjótin. Hins vegar er Sverrir of einbeittur til þess að þetta hafi nein áhrif á hann, sem er miður fyrir mig.

Ég skil ekki alveg athugasemdir Sverris um að ekki sé víst að Halldór verði forsætisráðherra. Samkvæmt stjórnarsáttmála á hann að taka við 15. september næstkomandi.

Rétt er það að forsetinn kostar þjóðfélagið of mikla peninga. Eitthvað má nú skera niður risnukostnað hjá honum og frysta laun hans í mörg ár. Það sama á reyndar við um alla ráðherrana, sérstaklega eftir að nýja frumvarpið verður samþykkt. En að segja að forsetinn geri EKKI NEITT er nú fulllangt gengið.

Merkilegur dagur

Ladies and gentlemen, we’ve got him, sagði Paul Bremer, landstjóri Íraks í dag. Einstaklega amerískt eitthvað og ófrumlegt. Þrátt fyrir að þetta stríð hafi verið óbjóður og vitleysa frá a til ö þá er það nokkur léttir að búið sé að ná kallinum. Ekki má gleyma því að Saddam er glæpamaður sem hefur framið glæpi gegn mannkyninu, eins og það er kallað. Reyndar hafa flestar þjóðir gerst sekar um slíkt, t.d. eru Bandaríkjamenn stórtækir í þeim efnum og voru Saddami oft innan handar við voðaverk sín meðan að hann var þeim þóknanlegur.

Meira merkilegt gerðist í dag. Ég var alveg merkilega veikur eftir jólahlaðborðið í gær þar sem ég drakk u.þ.b. tvær rauðvínsflöskur plús koníak og bjór og fleira sull. Annars var þetta ágætis jólahlaðborð í skíðaskálanum í Hveradölum, miklu skemmtilegra en ég bjóst við. Allir í þvílíku stuði að það er langt síðan að ég hef lent í öðru eins. Fólk sem fer miklu sjaldnar út að skemmta sér nær sér líklega betur upp, frekar en þeir sem fara í bæinn hverja helgi.

Já, var ég búinn að segja frá því að ég fer að sjá Hilmir snýr heim á heimsfrumsýningardaginn í VIP sal á miðvikudaginn? Borga ekki krónu fyrir ;)

Blessuð stjórnin

Það er mjög auðvelt og skemmtilegt að vera stjórnarandstæðingur þessa dagana. Ráðherrar og þingmenn stjórnarinnar keppast hvor við annan við að skíta í Stjórnarhreiðrið þannig að þeir eru allir að drukkna í eigin hægðum.

Hvernig dettur mönnunum í hug að skera niður hjá Landspítalanum um 1000 milljón kall?!? Það segir sig sjálft að Landspítalinn verður annars flokks spítali eftir þessa blóðtöku.

Hverjum datt í hug þetta dásamlega frumvarp um kaup og kjör þingmanna og ráðherra o.fl.?!? En það sem verst er, hvernig gátu Vinstri-Grænir lagt nafn sitt við þessi ósköp? Þeir eiga nú að vita betur…….

Hehe, hver er svo að fara á Return of the King á miðvikudaginn í VIP sal? Vei vei, svarið er Lárus Viðar :þ