Archive for september, 2003

Hilmir snýr heim

Þetta er líklega nöllalegt blogg en það verður bara að hafa það. Nýjasta sýnishornið úr Return of the King er kominn á heimasíðu myndanna. Eftir að hafa horft á þetta þá verður maður alveg sjúkur í að sjá þriðju myndina. Þeir sýna meira að segja Skellu…..

Þriðja bókin var langdökkust og dapurlegust. Það bara dóu allir og allt var ömurlegt og vonlaust. Mér sýnist að myndin verði í svipuðum dúr.

Frábær grein

Þessi grein Ármanns Jakobs á Múrnum um manninn sem hataði strætó finnst mér stórskemmtileg. Hérna er líklega verið að dissa Vefþjóðviljann, en það rit virðist vera alveg óþreytandi í því að tala illa um almenningssamgöngur, sérstaklega strætó.

Málfasismi

Það er fullt af orðum sem ég af einhverjum ástæðum vil alls ekki taka mér í munn. Dæmi:

djamm, óþolandi orð yfir skemmtanalífið. Fara á djammið, það hljómar alltaf svo yfirborðskennt og leiðinlegt.

tissjú, ljótt orð yfir eldhúspappír. Ég hef alltaf haft andstyggð á þessu orði.

lappir, fólk hefur ekki lappir, það hefur fætur! Kalkúnar hafa lappir t.d. nú eða borð & stólar, þoli ekki þegar að einhver talar um lappirnar á sér.

drulla, þegar notað sem sagnorð, sérstaklega þegar að fólk talar um að fara að drulla sér til einhvers. Alveg ótrúlega ósmekklegt orðalag.

fíla, að fíla e-ð. Komið af engilsaxneska orðinu feel. Mjög leiðinlegt orðalag og ófrumlegt líka.

Það er hellingur af orðum sem ég þoli ekki, ég man bara ekki eftir fleirum í svipinn….

Fréttir

Það er ekkert í fréttum í dag….

Aukavinnan hressir og kætir

Vinna þriðja laugardaginn í röð! Það verður að fara aftur til ársins 2000 hjá mér til þess að finna eitthvað sambærilegt við þetta. Enda ríkir gósentíð í bankabókinni hjá mér…. eða þannig.

Matador

Já það er búinn að vera heilmikill Matador í gangi undanfarna daga með íslensk stórfyrirtæki. Ég verð að viðurkenna það hér og nú að ég er löngu búinn að missa þráðinn í því hver er að kaupa hvað hjá hverjum fyrir hvaða fyrirtæki. Eitt veit ég þó. Björgúlfur eldri er búinn að ná tökum á Eimskipum sem hlýtur að hnýta endahnútinn á endurkomu hans inn í íslenskt viðskiptalíf. Eftir að hafa farið flatt á Hafskipum þá hlýtur það að vera góð tilfinning að stjórna nú aðalsamkeppnisaðilanum frá því í den.

Gott að sjá að það er farið að þjálfa fólk fyrir austan til þess að fara að vinna í álverinu. Hugsið ykkur að hafa það sem framtíðaráform að fara að vinna í álveri. Ég hef unnið í álveri og var það versti vinnustaður sem ég hef komið á. Við vorum þrír saman að skipta um mötunarstúta á skautabrúnum og við gátum aðeins unnið í um kortér í senn því að hitinn var svo gríðarlegur. Þá þurftum við að hlaupa út og fara úr vinnufötunum. Þarna sá ég í fyrsta sinn mann svitna í gegnum vinnugallann, þetta er náttúrulega ekki heilbrigt.

Hvað sagði ekki Bubbi einu sinni:

Í þorpi úti á landi er lífið svona,
þar leyfa menn sér að dreyma og vona,
að verksmiðja rísi og reisi við bæinn,
með rífandi vinnu allan guðslangan daginn
og þá verður gaman að lifa…

Já þá verður nú gaman á Reyðarfirði…. eða hvað?

Blautt malbik

Rottweiler myndbandið sem var bannað er á kvikmynd.is. Þetta er bara nokkuð gott lag hjá þeim og Ron Jeremy er náttúrulega stórleikari og vinnur leiksigur í þessu myndbandi.

Mánudagspistill

Að fara niðrí bæ er góð skemmtun. Þar er alltaf mikið af hipp og kúl fólki og stemning í gangi. Síðasta laugardag fór ég í partý hjá Kristínu Gróu. Var það gaman. Fór svo á einhverja skemmtistaði, Vegamót, Felix og Nelly’s. Var það miður gaman. Svona gengur þetta.

Jimi Hendrix

Jimi Hendrix lést þennan dag 1970 sagði Múrinn mér. Þess vegna ætla ég að láta mynd af kallinum á síðuna mína og hlusta á safndiskinn hans The Ultimate Experience. Ég nenni ekki að gera neitt af viti í kvöld hvort eð er.

Ótrúlegt, á þessum degi árið 1955 giftust Ché Guevara og Hilda Gadea, Roman Polanski fæddist þennan dag árið 1933 og í dag er þjóðhátíðardagur Chile-búa ….. gaman að svona gagnslausum upplýsingum um daginn í dag.

Mér finnst það ljótt að sjá eyður á síðunni minni sem myndast við hliðina á stórum myndum ef maður skrifar lítið með myndinni þannig að ég ætla að fylla upp í hana einhvernveginn. Ég er ekki viss um hvað ég á að skrifa meira, kannski gæti ég skrifað um vinnuna, um múrarann sem var að segja mér magnaðar sögur um arkitektinn sem hannaði „nýja“ Náttúrufræðahúsið og þegar að hann rak strippbúllu (múrarinn þ.e. ekki arkitektinn), nenni því samt ekki núna. Kannski ég ætti að skrifa eitthvað um pólitík, hnattvæðinguna, Impreglio, Cancun ráðstefnuna og Kárahnjúkavirkjun, nenni því samt ekki núna. Skrifa um vitleysu í fólki sem virðist vera gætt einstökum hæfileikum til þess að sjá allt það versta hjá öðrum en gera sér enga grein fyrir því hversu gallað það sjálft er, nenni því samt ekki núna…….. er helv…. eyðan ekki orðinn uppfyllt….. jú þetta hafðist…. nei ég þarf líklega að skrifa tvær línur í viðbót……..

Stebbi stóð á ströndu, stóð að troða strý, strý var ekki troðið nema að Stebbi træði strý….

Norræn blogg

Nú er Katrín byrjuð að blogga frá Finnlandi, gaman að því. Það hlýtur að vera gaman að flytja til annars lands og búa þar bara. Guðrún Helga og Ingibjörg Helga fluttu í síðasta mánuði til Danmerkur þannig að nú eru þrír á bloggaralistanum mínum sem blogga frá öðrum Norðurlöndum. Það sem ég sem ég get lesið út úr skrifum þeirra þriggja er það að þær eru alltaf á einhverju djammi með öðrum útlendingum drekkandi bjór og áfengi hægri vinstri. Þær fá mikið ríspekt frá mér fyrir það :þ

Hvað varð annars um síðuna hans Munda? Hún er bara ekki til á Netinu lengur, hvað er að ske?