Archive for ágúst, 2003

Búdda kallinn

Í Tælandi tilbiðja menn Búdda eins og flestir vita. Ég held að Búddismi sé bara ágætis trú. Ég á nú þegar mynd af Búdda þannig að ég get farið að taka hana upp ef mér sýnist svo….

Nei annars, ég er svo innilega trúlaus að ég hef það ekki af. Allavega þá á Búdda mörg gullkorn, þetta t.d. er alveg frábært:

Let us rise up and be thankful, for if we didn’t learn a lot today, at least we learned a little, and if we didn’t learn a little, at least we didn’t get sick, and if we got sick, at least we didn’t die; so, let us all be thankful.
Buddha

Reiðhjólið?

Sverrir er ekkert að skilja þetta, úthverfið mitt er nú minnsti hluti vandans hjá mér……..

Ostur?

Sverrir og Siggi Tomm sýndu einhver viðbrögð við pistlinum, Hvað er að gerast? sem er hér fyrir neðan. Sverrir heldur að lausn á vandanum sé að pumpa lofti í hjólið mitt sem er búið að standa óhreyft niðrí kjallara í einn og hálfan mánuð. Siggi Tomm heldur að ég sé að breytast í „surburbían hrylling sem fer bara beint áfram og fær annahvort sjokk eða ekki sjókk fyrir að borða ostinn sinn„. Hvað í ósköpunum ertu að tala um maður? Svör óskast.

Veikindi

Jú, jú ég er ennþá veikur. Er að tapa af öðrum deginum í röð frá vinnu, þvílíkt og annað eins. Það merkilega er að ég verð óvinnufær nákvæmlega sama daginn og ég hefði átt að byrja í skólanum undir venjulegum aðstæðum. Er verið að reyna að segja mér eitthvað :þ

Skrítið

Afhverju ætti bláókunnugt fólk að hafa gaman af því að skrá sig inn í myndaalbúmið mitt? Á fólk sér ekkert líf…..

Skandalar

Þar sem ég er veikur þá fór ég ekki í vinnuna í dag og get því kannski bloggað svolítið af viti í dag þar sem ég er útsofinn. (og þó)

Allavega þá hafa nokkur hneykslismál borið upp undanfarna daga. Fyrst er kannski að minnast Impreglio, ítalska verktakafyrirtækisins sem sér um byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Komið hefur í ljós að aðstæður allar á vinnustaðnum eru ekki mönnum bjóðandi, iðnaðarmenn og verkamenn eru fluttir inn og hafðir á smánarkaupi, allir samningar og reglugerðir um aðbúnað og kjör starfsfólks þverbrotnir. Það er leiðinlegt að þurfa að vera í hópnum sem segir alltaf „ég sagði að þetta ætti eftir að gerast“ en svoleiðis er það nú. Um leið og nafn þessa fyrirtækis bar fyrst á góma í umræðunni um Kárahnjúka þá voru fjölmargir fjölmiðlar sem tóku út fyrirtækið, fjölluðu um mútugreiðslur þess til stjórnvalda í fátækum löndum, um sóðaskap þeirra í umhverfismálum o.s.frv. Viðbrögð forstjóra Landsvirkjunar voru einfaldlega þau að svona væri þetta bara þarna í þessum villimannalöndum. Ekkert við því að gera. Fannst engum það skrítið að Impreglio bauð mörgum milljörðum lægra tilboð í verkið heldur en sá sem var næstlægstur? Hvernig spara menn sér svona gríðarlegar fjárhæðir? Jú, menn skera niður launakostaðinn. Á Íslandi hefur verkalýðshreyfingin veikst svo mikið undanfarið að hún fær varla rönd við reist lengur. Meira segja þeir stjórnmálaflokkar sem teljast til vinstri minnast ekki á þetta í dag. Kannski eru Vinstri-Grænir hættir að reyna að malda í móinn varðandi þessar framkvæmdir fyrir austan. Enda er það orðið um seinan.

Annað hneyksli sem kom upp var þegar að Björn Bjarnason réð frænda Davíðs Oddsonar sem hæstaréttardómara þrátt fyrir að mun hæfari menn sóttu um starfið. Það eina sem Björn gat sagt þegar að hann var spurður hvort að um frændsemisráðningu hafi verið að ræða að það væri ómálefnalegt að spyrja svona. Að vísu er það rétt hjá Birni að Hæstiréttur sjálfur á ekki að hafa um það lokaorðið hverjir verða hæstaréttardómarar. Framkvæmdavaldið á að skipa dómara. Ég verð reyndar að segja að þetta mál kom mér nákvæmlega ekkert á óvart og mér finnst varla taka því að tala um það. Það vita það allir að sú ríkisstjórn sem nú situr er ríkisstjórn einkavinavæðingar og greiðvikni við þá sem fylgja henni að málum. Hvað er eitt embætti á milli vina og ættingja? Þetta vildi þjóðin og kaus yfir sig.

Enn eitt hneykslið varð þegar að uppvíst varð um að Sigurður Kári Alþingismaður hafði verið tekinn af lögreglu fyrir að keyra fullur. Reyndar segir almannarómur á Netinu að þetta hafi verið á kosninganótt og hann hafi sagt við lögregluna: „veistu ekki hver ég er? ég er alþingismaður!“. Aðrar sögur segja að Sigurður sé oft á blindafyllerí niðri í bæ um helgar. Viljum við hafa Alþingismennina okkar svona? Verðum við ekki að gera þá kröfu um að þeir hætti að haga sér eins og 17 ára unglingar eftir að þeir hafi verið kosnir á þing?

Hveitibrauðsdagar „nýju“ ríkisstjórnarinnar voru vart liðnir þar til hún gekk á bak orða sinna í tveimur stórum kosningaloforðum. Loforðin um Héðinsfjarðargöngin og línuívilnunina voru skyndilega gleymd og grafin. Skyndilega breyttust aðstæður svo gríðarlega að fresta þurfti gangnagerð um mörg ár og forsætisráðherra man ekki lengur hvað hann sagði á fundum fyrir vestan. En það var svosem vitað að þetta yrði allt svikið, ég bjóst bara ekki við því að það yrði byrjað á því strax.

Veikindi

Ég er veikur, reyndar alveg fáránlega mikið veikur. Ég get ekki einu sinni mætt í vinnuna á morgun. Endurreisnin verður að bíða betri daga.

Hvað er að gerast?

Stundum velti ég því fyrir mér hvað ég sé að gera. Afhverju er ég ekki að gera meira en ég geri í dag? Afhverju eyði ég lunganum úr öllum virkum dögum í stritvinnu við húsbyggingar? Hversvegna sit ég öll kvöld fyrir framan tölvuna eða sjónvarpið glápandi á einhverja vitleysu? Afhverju eyði ég öllum helgum niðrí bæ eða í útilegum hellandi í mig öli og viskýi þar til að ég er hættur að sjá? Afhverju fara allir sunnudagar í að jafna sig eftir heimskupör helgarinnar? Hlýtur ekki að vera betri leið til þess að nýta tímann sem ég hef? Eins og sagt var í myndinni „Educating Rita“; hlýtur ekki að vera til betra lag til þess að syngja?

Ég gæti lesið einhverjar fræðandi og gáfulegar bækur eins og byltingarbókina sem ég keypti í Tælandi eða ritsafn Mohandas Gandhi. Ég gæti lesið einhverjar skemmtilegar, klassískar skáldsögur, ég gæti nefnt tugi bóka sem mig langar að lesa þar. Ég gæti lesið mínar eigin fræðibækur sem margar hverjar eru hin ágætasta lesning og fróðlegar í meira lagi, ekki veitir af að halda í þessa þekkingu sem ég hef dregið að mér.

Ég gæti heimsótt vini og ættingja sem ég sé suma hverja aldrei, þótt að ég viti hvar þeir eiga heima og er jafnvel stundum í nágrenninu.

Ég gæti tekið þátt í einhvers konar félagsstarfi, gengið jafnvel í Samtök Herstöðvaandstæðinga. Kannski byrjað að mæta á alla fundi sem Vinstri-Grænir halda og tekið virkan þátt í flokksstarfinu. Jafnvel tekið upp einhverja tómstundaiðju eins og að ganga í taflfélag, reynt að mynda pool-hóp eða farið í keilu. Gæti byrjað að vera harður Víkingsmaður og mætt á alla leiki þeirra í Víkingstreyju, málaður rauður í framan, öskrað einhver svona fótboltahvatningaröskur.

Í stað þess að fara í bíóhús og sjá nýjustu fjöldamenningarmarkaðsafurðirnar frá Hollywood; andlausar, rándýrar, hálf-tölvuteiknaðar, illa leiknar, ótrúverðugar, heiladrepandi afþreyingarhryllingsmyndir þá væri hægt að fara í leikhús. Sjá einhver leikrit eftir meistara hins talaða máls sem hafa söguþráð og persónur.

Frekar en að fara á sveitaböll með einhverjum uppstríluðum, hæfileikalausum, hundleiðinlegum poppurum væri hægt að fara á Sinfóníutónleika og hlýða á alvöru tónlist. Í staðinn fyrir að fara á Glaumbar og hristast í einhverjum veruleikaflótta við taktfasta ládeyðu sem streymir úr hátalarakerfum „heitustu staðanna“ væri hægt að fara á tónleika með alvöru tónlistarmönnum s.s. jazzleikurum.

En nei……

Á morgun á ég eftir að vakna, þreyttur. Ég þarf svona tíu mínútur til þess að sannfæra sjálfan mig um að það sé þess virði að fara á fætur, venjulegast nota ég peningarökin þegar að ég rökræði við sjálfan mig við þessar aðstæður. Ég á eftir að skreiðast á fætur, fara í vinnufötin, smyrja mér einhvert nesti sem venjulega er einhver mæjónesmartröð næringarfræðinga ofan á brauð úr 10-11 ásamt úrgangsmjólk frá hinu miðstýrða landbúnaðarkerfi bragðbætt með kakósulli með mynd af bröndóttum ketti framan á. Ég á eftir að dröslast niður stigann, bíða eftir nágranna mínum sem vinnur með mér. Hann á eftir að koma á rauðu Toyotunni og við brunum í vinnuna á Álftanesi, 1,4 km frá Bessastöðum. Þar á ég eftir að eyða deginum við störf sem hentuðu betur tömdum órangútan heldur en hinum viti borna manni, þ.e. þeir eru sterkari en ég og betri að klifra. Um morguninn bíð ég eftir kaffinu kl 9:30, eftir kaffi bíð ég eftir matnum kl. 12:00, eftir mat bíð ég eftir að dagurinn endi kl. 17:00. Ég kem heim, allur rykugur og sveittur, snýti svörtu. Fer í sturtu og elda einhvern óbjóð í kvöldmatinn, yfirleitt nær hugmyndaflugið ekki lengra en til 1944, matur fyrir sjálfstæða Íslendinga. Eyði svo kvöldinu fyrir framan tölvuna, skoðandi vitleysu eða fyrir framan sjónvarpið, horfandi á vitleysu. Hápunktur kvöldsins er þegar að Jay Leno birtist kátur í Kanasjónvarpinu Skjá Einum. Segir brandara um hvað Bush er heimskur, um Ben Affleck og strippara, O.J. Simpson og þegar að hann drap konuna, um ríkisstjóraframboðið í Kaliforníu, um Clinton og kellingar og síðast en ekki síst Saddam Hussein.

Um helgina á ég eftir að enda á einhverjum pöbb. Talandi um pöbb; afhverju eru allir pöbbar orðnir svo slitnir og lúnir? Ég er að tala um að allar innréttingar á öllum pöbbum eru orðnar gatslitnar, sætin uppurin, borðin öll rispuð, gólfin á sumum stöðum eru eins og í fjósi og hitinn og fnykurinn innandyra er á stundum velgjulegur. Á þessum pöbb er einhvert fólk sem ég tala við, man aldrei nöfn eða andlit daginn eftir. Kannski kenni ég nokkrum Englendingum að segja „ég heiti“ og „takk“. Ég hitti aldrei fólk sem mig langar til að hitta, kannski stundar það aðra staði, kannski hefur það vit á því að vera ekki að þvælast í bænum allar helgar, kannski hefur það fundið betri staði, hver veit. Kvöldin enda í móðu, fer með vinalegum leigubílstjóra upp í úthverfið, hann rukkar mig um 1000 kall þótt mælirinn sýni 1150, segist ekki geta gefið til baka og gefur mér „égerhvorteðeraðrukkaofmikið“ glott. Skreiðist upp í alltof stóra rúmið mitt í alltof litla herberginu mínu, vakna þunnur og fer síðan í bað.

Mér finnst eins og ég sé fastur í vítahring sem ég veit ekki alveg hvernig á að komast út úr. Mér líður svipað eins og Jack Nicholsson í „As good as it get´s“ þegar að hann spurði fólkið á biðstofu læknisins, „What if this is as good as it gets?“ Til marks um andleysi mitt þá er ég búinn að vitna í tvær bíómyndir nú þegar í þessum pistli.

Það er maður á aldur við mig orðinn alþingismaður. Ég velti því stundum fyrir mér, gæti ég líka verið alþingismaður? Gæti ég ekki gert eitthvað spaklegra við líf mitt? Ég er meira menntaður en allur vinnuflokkurinn minn samanlagt en samt er ég með þeim lægra settu. Ég eyði þessum litlu launum sem ég hef í áfenga drykki, mat og í að borga niður skuldir.

En í dag hefst endurreisnin. Ég veit ekki hvernig en hún er hafin. Á morgun verð ég betri maður en í dag.

Víkingur

Bústaðahverfið er yfirráðasvæði Knattspyrnufélagsins Víkings. Þar af leiðandi verð ég líklega að vera harður Víkingsmaður. Í dag fékk ég fyrstu leikauglýsinguna í póstinum. Stuðningsmenn Víkings ætla að hita upp á Pizza Hut í dag kl. 3 fyrir leikinn á móti Þór, öl á tilboði og fríar pylsur í boði á vellinum 15 mín fyrir leik meðan að birgðir endast. Maður ætti kannski að skella sér? Áfram Víkingur!

Bindi

Það er allt á Netinu, maður þyrfti að nota það meira. Ég hef alltaf verið í vandræðum þegar að ég ætla að fara á e-ð snobbskemmtanir þá get ég aldrei bundið alminnilegan bindishnút sjálfur. Svo var ég að finna núna grilljón heimasíður sem kenna þetta, t.d. þessi. Í tilefni af því ætla ég að setja upp bindi í kvöld :þ