Archive for júlí, 2003

Síðasti dagur júlímánaðar

Þegar að júlí endar þá veit maður af fenginni reynslu að verslunarmannahelgin er framundan. Um þessa verslunarmannahelgi verður farið á Steinar 2003, einkaútihátíð sem Gummi ætlar að halda. Ég hef ekki hugmynd um hverjir verða, hvort að einhverjir verða eða hvort þeir séu eitthvað skemmtilegir. Ég stefni því út í óvissuna en ég hef fulla trú á því að þetta verði bara gaman.

Annars hefur þessi júlímánuður verið einstaklega góður veðurfarslega séð. Ég vona að það endist fram yfir helgi…….

Snilld

deficit.jpg

Á Góðri Stund

Jú, jú það var farið á Grundarfjörð um helgina. Þar var margt um manninn og mikið fjör. Slegið var upp tjaldbúðum heima hjá Sigga Tomm og partýað þar. Siggi grillaði á laugardaginn og heppnaðist það með ágætum. Við fórum á helstu staðina þarna í Grundó; Krákuna og Kaffi 59. Ég smyglaði mér inn á ball með Írafári seint um laugardagsnóttina, man ekki afhverju.

Við fórum í sund hjá Sigga og hann færði okkur kaffi í heita pottinn. Það var sko almennileg þjónusta þar á bæ. Ég verð að segja það að Siggi er í ótrúlega þægilegri vinnu, allavega miðað við mína vinnu. Vildi að ég hafði svona dauðar stundir til að drepa í vinnunni, þær vantar alveg hjá mér……

Á Krákunni ríkti mögnuð stemning á föstudagskvöldinu. Þar voru tveir menn á aldur við afa minn sem spiluðu lög með Brimkló á skemmtara og meðalaldurinn á dansgólfinu var sirka 73,2 ár. Aðeins var seldur flöskubjór og kostaði hann 700 kr. stykkið. (rippoff) Óli er búinn að setja inn myndir af herlegheitunum. Ég hugsa að það gæti bara orðið árviss viðburður að fara á Góða Stund, það er nauðsynlegt að fara úr bænum af og til.

Bloggnet

Sá á Netinu bloggnet sem sýnir tengsl á milli bloggara. Sá að Kristín Gróa og Mundi eru þarna á blaði en þau voru þau einu sem ég kannaðist við.

Björn Bjarna….

… er kominn með skýringu á meintu verðsamráði olíufyrirtækjanna. Jú er þetta ekki arfur frá Sovéttímanum. Þetta hlaut einhvern veginn að tengjast kommúnistunum, þeir eru jú allstaðar og við þurfum að verjast þeim. Kaupa hergögn og stofna þúsund manna herlið með 21.000 manna varaliði til að verjast þessum lýð. Ég held í alvöru að það sé eitthvað að Birni, hann er ekki alveg með fulle fem.

Annars ætti það ekki að koma neinum á óvart að olíufélögin hafi haft samráð um útboð og verð á olíuvörum. Nú verður hinsvegar að stöðva þessi fyrirtæki fyrir fullt og allt. Þetta á ekki að líðast í nútíma viðskiptaumhverfi. Baugur ætlar víst að fara í samkeppni við olíufélögin og er það hið besta mál. Hins vegar finnst mér slæmt að Þórólfur borgarstjóri sé flæktur í þetta. Ég hélt að þetta væri ágætis kall enda fyrrum sveitungi minn en svo er þetta bara braskari og durgur. Þetta gæti verið endalok setu hans í borgarstjórastólnum og jafnvel komið af stað endanlegri upplausn í R-listanum. Það væri sorglegt að horfa á eftir borginni aftur í hendurnar á íhaldinu eftir gott gengi hjá R-listamönnum undanfarinn áratug.

Menn fagna um víða veröld yfir sigri 200 manna herliðs á fjórum mönnum í Írak. Uday og Qusay Saddamssynir eru dauðir og Bush og Blair keppast við að lýsa því yfir hversu mikill sigur þetta er fyrir Íraka og heiminn allan. Þvílíkir þjóðarleiðtogar sem fólk asnast til að kjósa yfir sig. Bush getur afsakað allt sem hann segir opinberlega vegna þess að hann semur ekki sínar eigin ræður og Blair er lygari af verstu sort. Nú hafa 7800 óbreyttir borgarar látið lífið í Írak af völdum stríðsins og sú tala á eftir að hækka enn frekar. Verða menn sáttir þegar þeir ná upp í 10.000 eða hvað?

Einhver undrast kannski afhverju það er mynd af Jennifer Lopez með þessum pistli. Hún á nefnilega 33 ára afmæli í dag og fær hún spes kveðjur frá mér :þ

Tortímandinn 3

Fór í gær að sjá Terminator 3. Ekki sem verst en í samanburði við fyrri tvær myndirnar þá var þetta nú óttalega klént allt saman. Verst fannst mér að hún eyðilagði eiginlega hinar tvær myndirnar í endann, eða allavega mynd nr. 2.

Allavega þá var þetta ágætis mynd miðað við allan sorann sem streymir frá Hollywood. En samt voru tæknibrellurnar hálfgerð vonbrigði og eiginlega var mynd nr. 2 flottari í þeim efnum. En mér er farið að finnast þessi pistill of nördalegur og því hef ég hann ekki lengri.

Útilegur

Jamm, fór í útilegu í Skaftafelli. Hitti þar m.a. Tékka, Ungverja, Ástrali, Bandaríkjamenn, Walesbúa, Rúmena, Frakka, Slóvaka, Dani, Austurríkismenn, Grikki og svo náttúrulega einhverja Íslendinga. Einnig komu Portúgalarnir með mér þannig að þetta var mjög alþjóðlegt allt saman. Sem áhugamaður um alþjóðlega samvinnu og samstarf fannst mér þetta mjög fróðlegt og skemmtilegt. Þarna drakk ég tékkneskt jurtabrennivín og lærði að segja Catherine Zeta-Jones með velskum hreim.

Þarna fórum við í siglingu á Jökulsárlóni en ég komst ekki til að skoða Svartafoss eða neitt annað því ég var að drepast úr kvefi þarna. En það var grillað, drukkinn bjór og farið í leiki. Rubens kenndi mér grundvallar takta í capoeira og ég kenndi honum undirstöðuna í íslenskri glímu í staðinn. Ég held að íslensk glíma sé mesta og besta sjálfsvarnaríþrótt í heimi, það er ekki spurning…..

Í fyrra fór ég á útilegu á Skógum og týndi þar símanum mínum. Mér tókst að gera það sama um þessa helgi. Ég týndi símanum mínum sem ég er ekki einu sinni búinn að borga að fullu……. Ég held að næst þegar að ég fer í útilegu þá skilji ég símann eftir bara heima.

Næsta útilega verður líklega á Grundarfirði næstu helgi. Þá verður farið á Góða Stund í Grundarfirði og heimabær Sigga Tomm skoðaður. Ég held að það sé merkilegur staður…..

Skaftafell

Nú á að fara í Skaftafell í útilegu bara. Ég, Renato, Rubens og 80% Óli ætlum að skella okkur með hópi kátra AIESEC stúdenta og verður það örugglega alvöru. Við förum að skoða Svartafoss, siglum á Jökulsárlóni og förum kannski upp á Vatnajökul. Síðan verður grillað, drukkinn bjór og sungið. Ég held að þetta geti ekki klikkað.

Ég hef aldrei komið í Skaftafell áður. Reyndar eru margir margir staðir á Íslandi sem ég á eftir að sjá. Ég hef enn ekki séð t.d. Dettifoss, Ásbyrgi, Mývatn, Hallormsstaðarskóg, Landmannalaugar…. aldrei farið til Vestfjarða eða Austurlands. Maður verður að fara að bæta úr þessu.

Svo sá ég þetta hjá Munda. Þetta er bara það asnalegasta sem ég hef séð lengi, krakkasíða Sjálfstæðisflokksins í kraganum…….

Leiðrétting

Sagði í gær að Hulk væri versta mynd sem gerð hafði verið eftir sögum Stan Lee´s. Það er alls ekki rétt. Ég gleymdi hörmungarmyndinni Daredevil þar sem tókst meira að segja að láta Kingpin líta út fyrir að vera vitleysing. Hulk er stórgóð mynd í samanburði við Daredevil.

Hulk

Fór að sjá Hulk í gærkvöldi og ég verð að segja að þessi mynd hangir í meðalmennskunni. Þrátt fyrir að Siggi Tomm haldi fram að hér sé á ferðinni mikil mynd með sálfræðilegum freudískum pælingum, Ödipusarduld og ég veit ekki hvað þá er það bara ekkert að virka. Þrátt fyrir að það sé mjög skemmtilegt að sjá Hulk brjóta allt og bramla í reiðiköstum sínum, rústa skriðdrekum, þyrlum o.fl. þá er sagan frekar þunn og óspennandi. Sverri fannst myndin heldur leiðinleg og ég verð að segja að þetta er versta myndin sem gerð hefur verið eftir sögum Stan Lee’s. Líklega átti Hulk að vera „dýpri“ mynd en hinar myndirnar voru að minnsta kosti skemmtilegar. Einnig veldur Ang Lee vissum vonbrigðum því að mér fannst Crouching Tiger, Hidden Dragon vera frábær mynd.

Merkilegt annars með Jennifer Connelly, aftur leikur hún konu geðveiks vísindamanns sem fer yfir strikið. Nick Nolte leikur pabba Hulks og á hann líklega að vera ógurlega sleipur gaur en er frekar mikil steríótýpa svona. Semsagt meðalmynd í alla staði.