Ferðaskrifstofa Íslands….

er ekki að standa sig þessa dagana. Fór þangað áðan til að borga flugmiðann minn til Tælands. Var þá ekki tölvukerfið þeirra hrunið og ég fékk engan miða. Gat samt skilið eftir greiðslukortsnúmer og komið ferðaávísuninni minni í lóg sem gefur 5000 kr. afslátt af ferðinni. Það munar um minna fyrir námsmenn.

Magnað með þessa ferðatryggingu sem fylgir ef maður greiðir ferðir með greiðslukorti. Ég fékk þykkan bækling um reglur varðandi þessar tryggingar. Ég er tryggður fyrir öllu mögulegu, t.d. fæ ég dánarbætur ef ég drepst úti og þær hækka eftir því sem þú ert með betra greiðslukort, þ.e. gull eða platínu. Ég er bara með silfur þannig að ég fæ aðeins 4,5 milljónir ef ég verð étinn af tígrisdýrum úti. Einnig ef ég verð fyrir áfalli sem veldur varanlegri örorku þá fæ ég bætur í samræmi við það. 100 % örorka er t.d. „ólæknandi vitskerðing“ eða „missir fótar við ökkla eða ofar“. Síðan eru reglur um bætur varðandi tjón á farangri. T.d. bætir félagið ekki „tjón á frímerkjum, handritum, skjölum, peningum eða hvers kyns verðbréfum. Það þýðir því ekki að koma til tryggingafélaganna og kvarta yfir því að frímerkjum manns hafi verið stolið.

Mér finnst það samt svindl að þeir sem eru með platínu kort fá mannránstryggingu með ef þeim er rænt í ferðalaginu, ekki ég. Síðan kemur fram að félagið bætir ekki: „Tjón sem beint eða óbeint leiðir af beitingu eða notkun hvers kyns kjarnorkuvopna eða kjarnorkubúnaðar sem orakað getur sprengingu, geislun , losun, dreifingu, sleppingu eða leka kjarnakleyfs efnis sem gefur frá sér geislavirkni og veldur varanlegri örorku eða dauða vátryggðs.“ Þannig að ég á sem sagt að forðast öll kjarnorkustríð úti.

Lokað er fyrir andsvör.