Út vil ek!

Fékk nett áfall áðan sent í tölvupósti. Fékk þar að vita nákvæmar tímasetningar á Tælandsfluginu ógurlega. Þá svona loksins áttaði maður sig á þessu að þetta er alveg að bresta á. Fer semsagt miðvikudaginn 21. maí kl. 7:45 a.m. frá Keflavík og lendi í Kóngsins Kaupinhafn kl. 12:45 að staðartíma. Thai-Air þotan fer svo frá Köben til Bangkok kl. 14:35 og lendir í Bangkok kl. 6:00 að staðartíma þann 22. maí. Sá á Netinu að þetta flug er 10 klst og 25 mín! Hvað gerir maður sitjandi í flugvél í 10 tíma? Ég held að maður taki með sér góða bók bara eða eitthvað. Annars hef ég á mínum skólaferli náð afbragðs góðum árangri í því að sofa sitjandi. Sá hæfileiki á eftir að koma sér í góðar þarfir í flugvélinni.

Ég er sammála Sverri. Kjósendur eru ekki með fulle fem hérna. Ætla þeir að láta þessa einstæðu auglýsingafljóðbylgju plata sig út í það að kjósa Framsókn. Máttur auglýsinganna yfir auðtrúa fólki er ótrúlegur.

Hvað er með þessa Siv Friðleifs annars? Alltaf þegar hún kemur fram í fjölmiðlum þá segir hún í hvert einasta sinn: „Við höfum staðið í erfiðum málum, sem hafa skilað miklum árangri sem aðrir flokkar ætla að nýta sér á komandi kjörtímabili……..„. Hvað er hún að tala um? Er hún að tala um þessa Kárahnjúkavirkjun sína? Var það eitthvað erfitt mál? Jú, jú þessu var mótmælt sem var von og næst minnsti flokkurinn á Alþingi talaði á móti þessu, það er allt og sumt. Á maður að lúta höfði fyrir svona hetjuskap miðjumoðsmanna? Síðan er allt óvíst um þennan ímyndaða hagnað af þessari vitleysu. Eða er hún kannski að tala um stuðning Framsóknarmanna og íhaldsins við Íraksstríðið? Er það erfiða málið sem á eftir að færa öllum velsæld og ómældan olíugróða til Vesturlanda? Eða hin ömurlega hagstjórn á árunum 1999-2000 sem stjórnarandstaðan varaði við og lá við að allt færi á annan endann hérna á síðasta vetri? Hún skrifast reyndar að miklu leiti á íhaldið og það var ekki ríkisstjórninni að þakka að ekki fór ver. Ég lýsi eftir þessum erfiðu málum framsóknarmanna.

Síðan spyr ég að lokum; hver er munurinn á ræðismannsskrifstofu og sendiráði?

Lokað er fyrir andsvör.