Archive for apríl, 2003

Slugs

Ég nenni engan veginn að læra fyrir próf. Allt er miklu skemmtilegra en að læra fyrir próf. Bora í nefið með tannstöngli eða horfa á gamla „Maður er nefndur“ þætti á spólu er örugglega skemmtilegra en að læra fyrir próf. Ég fór áðan og keypti mér MAD blað til þess að hafa eitthvað ógáfulegt að lesa. MAD er bara það skemmtilegasta sem maður kemst í.

Athugaði stöðu mína á kosningakompás mbl.is. Niðurstöðurnar voru eftirfarandi:

Vinstri-Grænir 85 %
Nýtt Afl 83 %
Frjálslyndi Flokkurinn 81 %
Samfylkingin 78 %
Framsóknarflokkur 71 %
Sjálfstæðisflokkur 63 %

Skrýtið með þetta Nýja Afl. Ég hélt að þetta væru aðallega afdankaðir, úreltir sjálfstæðis- og framsóknarmenn með gráan fiðring. Hann virðist vera afar vinstri-sinnaður samkvæmt þessu.

Mikið lýst mér illa á það að Framsókn sé farin að bæta við sig í skoðanakönnunum. Að vísu dalar fylgi Sjálfstæðismanna en samkvæmt síðustu könnun heldur ríkisstjórnin velli. Ég ætla nú rétt að vona að fólk hafi ekki látið ótrúlega auglýsingaherferð framsóknar plata sig. Best af öllu er þegar að Siv Friðleifs kemur í þessum sjónvarpsauglýsingum þeirra og segir að það sé mikilvægt að ganga vel um umhverfið. Ég hló mikið þegar að ég sá það fyrst enda er það eins og vondur brandari að þessi kona segi slíka hluti eftir störf sín sem umhverfisráðherra.

En ég held því miður að margt fólk láti auglýsingar hafa áhrif á sig. Það kvartar yfir því að vita ekki fyrir hvað hinir og þessir flokkar standi fyrir og hvað þeir ætli að gera komist þeir til valda. Halló! Þið hafið haft alla ykkar ævi til þess að kynna ykkur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn, fimm ár til að kynna ykkur Samfylkinguna og fjögur til að kynna ykkur Frjálslynda og Vinstri-Græna. Reyna að hafa augun opin, lesa blöðin, horfa á fréttir eða eitthvað.

Sniðugt þetta sem Óli setti fram um túlkun MSN á stjórnmálaflokkunum. Kannski viðeigandi með ríkisstjórnarflokkana því þeir fóru á mesta kosningaloforðafylleríið fyrir þessar kosningar. Hjarta vinstri-grænna er svo brostið vegna lélegs gengis í skoðanakönnunum :(

Sigurður í Hlíðum

Eitt það skemmtilegasta sem ég les á Netinu eru ljóð Sigurðar í Hlíðum. Ég vil hvetja hann til að halda áfram að birta verk sín opinberlega. Ég man í FVA þá kom hann, þá einungis ungur drengur, upp á kaffihúsakvöldum og las upp ljóð. Gaman væri nú að sjá þau ef þau væru einhversstaðar til.

Fann afskaplega undarlega síðu á Netinu. Einhvers konar kirkjugrínsíða, dálítið skondið…..

Femínismi

Það eru ekki mörg ár síðan að sú mynd sem ég hafði af femínistum var sú að þetta væru einhverjar leiðindabeyglur sem gætu ekki náð sér í mann og femínistahreyfingin væri einhvers konar útrás þeirra fyrir niðurbælda reiði í garð karlmanna. En ég sem betur fer (fyrir mig) reyni að fylgjast með umræðunni og leitast eftir að vera eins upplýstur um hlutina eins og tími gefst til. Ég hef loks komist að því að femínistahreyfingin er í raun merkishreyfing og á fyllilega rétt á sér.

Það er skondið að skoða hin og þessi blogg og vefrit þessa dagana sem bæði ljóst og leynt eru að snúa út úr fyrir femínistum. Ég hef tekið eftir því að margir hlekkja í þessa grein og hrýs hugur við þeim heimi sem þarna er kynntur til sögunnar. Einhver (ætti víst að hlekkja í hann en ég man ekki hver) líkti femínistahreyfingunni við Ku Klux Khlan vegna þeirra skoðana sem þarna komu fram. Þvílík vitleysa.

Einnig er þessi umræða um kynferði Ingibjargar Sólrúnar undarleg. Maður tekur eftir því undanfarna mánuði hvernig Sjálfstæðismenn hafa otað sínu kvenfólki fram í auglýsingum, eru farnir að halda sérstök konukvöld og hafa gætt þess að kjósa kvenfólk í embætti innan flokksins. Eins og þetta snýr við mér virðist þetta vera n.k. andsvar við þeirri miklu áherslu sem Samfylkingin hefur lagt á jafnréttismál og persónu Ingibjargar Sólrúnar. Sjálfstæðismenn vilja sýna að þeir eru jú alveg gífurlega jafnréttissinnaðir svona kortéri fyrir kosningar. Ef einhver reynir að benda á hið gagnstæða fara þeir að tala um blessuðu fæðingarorlofslögin sín. En ég verð að segja það að mér finnst alls ekkert að því að auglýsa það að Ingibjörg Sólrún sé kvenmaður. Það er bara staðreynd eins og það að Davíð Oddsson er með risaeyru og Steingrímur Joð er sköllóttur. Aftur á móti þá hafa verið hér sköllóttir forsætisráðherrar og eyrnastórir en aldrei hefur kona verið forsætisráðherra.

Ef að jafnrétti er hér í landi eins og íhaldsmenn halda statt og stöðugt fram afhverju höfum við þá aldrei haft kvenforsætisráðherra? „Það á ekki að kjósa eftir kynferði“ segja framsóknarmenn og sjálfstæðismenn. Auðvitað á ekki að kjósa eftir kynferði. Það vita það allir en margir pólitíkusar láta alltaf eins og kjósendur séu fáfróð fífl sem þarf að upplýsa um svona hluti. Aftur á móti höfum við Íslendingar í þessum kosningum tækifæri til þess að fá okkar fyrsta kvenforsætisráðherra Íslandssögunnar. Það að fá konu í forsætisráðherrastólinn er fyrir mér ekkert kappsmál í sjálfu sér en það væri samt óneitanlega skref í jafnréttisátt (svo að maður beiti nú klisjum) ef svo færi. Það þarf að taka á jafnréttismálum hér í landi af einhverri alvöru. Ekki bara blaðra um og lofa öllu fögru og svíkja það strax eftir kosningar. Við vitum öll að ef gamli Kvennalistaskörungurinn kæmist í forsætisráðherrastólinn þá yrðu hérna breytingar í jafnréttisátt mun ákveðnar en ef einhver annar tæki við því embætti.

Það er leiðinlegt og þreytandi að hlusta á ríkisstjórnarflokkana núna. Það eru engin málefni á dagskránni hjá þeim lengur. Nú snýst allt um það að reyna að koma höggi á stjórnarandstöðuna og þá helst Samfylkinguna og þá allra helst að rakka niður persónu Ingibjargar Sólrúnar með útúrsnúningum, skítkasti og dólgslátum. Ganga þar hægri vefritin hvað harðast fram í því. Einnig sér maður í blöðunum langar níðgreinar um Samfylkinguna og forystumenn flokksins. Oft þegar að ráðherrar ríkistjórnarinnar eru spurðir um úrlausnir í ýmsu málefnum þá svara þeir með því hvernig stjórnarandstaðan ætlaði að halda á málum og hvernig hún ætti eftir að færa yfir Íslendinga harðæri, hungursneyðir og hamfarir ef hún kæmist til valda. Framsóknarmenn óttast það sérstaklega ef að einhverjir aðrir en þeir komast til valda.

En þessi grein átti víst að vera um femínisma og er orðin alltof löng.

Um daginn sá ég leigusalann minn, Arnar Jónsson stórleikara, koma í Kastljósið og sagðist vera femínisti. Það fannst mér skrýtið en svo hafa margir aðrir karlmenn komið út úr skápnum með það að undanförnu. Ég get nú reyndar ekki tekið undir það því þrátt fyrir stuðning minn við jafnréttisbaráttuna þá er ég líka gríðarleg karlremba. Ég reyni ekki að afneita því að kynin séu ólík heldur þvert á móti. En fólk er fólk og það á ekki að gera upp á milli fólks. Það er inntak jafnaðarstefnunnar. Gefum félagshyggjuflokkunum tækifæri á að breyta íslensku samfélagi til betri vegar. X-U en ef ekki þá X-S. Þá er ég kátur.

Sprengjuvesti Saddams

Sá skemmtilega frétt í Fréttablaðinu í dag. Saddam Hussein á víst sprengjuvesti sem hann hefur æft sig í að nota ef svo skildi fara að hann yrði handsamaður. Hvernig æfir maður sig í að nota sprengjuvesti? Ég sé það ekki alveg fyrir mér…..

Geðveikur

Já ég er orðinn geðveikur á þessum prófastappi og ég vil vara fólk við því að tala við mig næstu daga. Það kemur ekkert upp úr mér nema bull og vitleysa þessa dagana. Ég held að ein orsökin gæti verið sú að ég hef ekki komist á alminnilegt fyllerí síðan ég fór í vísó síðast sem var 14 mars! Ég þjáist því af skelfilegum etanólskorti sem kallast á latínu kenderius frahvarvus. Ég þurfti að neita boði frá Óla um að koma á kosningadjamm því að þá þarf ég að vera að læra fyrir próf eins og venjulega. Ég sé það að ég kemst ekkert til að detta í það fyrr en kannski í Tælandi ef að okkur verður þá leyft að fara þangað. Bölvaður lugnabólguvírus………

Sverrir eldist

Ég gleymdi náttúrulega afmælinu hans Sverris þann 21. apríl, enda er það frekar gay að muna eftir afmælisdögum vina sinna. Ég óska Sverri hér með opinberlega til hamingju með afmælið.

Þegar ég fór að hugsa út í það þá hef ég þekkt Sverri núna í tæp sjö ár! Það er voðalega langur tími eitthvað……

Allavega þá er ég sammála Óla um að Sverrir eigi að fara halda oldskúl partý (eftir próf). Bara ekki að tala um pólitík eða stríð í því partýi, þá verður gaman.

Guðjón var að segja mér það samkvæmt áreiðanlegum heimildum þá er atkvæði mitt örugglega ógilt. Ég má þó víst kjósa aftur en ég veit ekki hvort maður á að láta sig hafa það. Ég er búinn að fá nóg af lýðræðislegum kosningum í bili.

Að kjósa rétt

Þrátt fyrir að nú séu um 7 ár síðan ég fór að heiman þá hef ég alltaf haldið lögheimilinu mínu heima í sveitinni. Af þeim sökum þarf ég að kjósa í mínu sveitarfélagi, Kolbeinsstaðahreppi. Þar sem ég get ekki verið heima á kjördag þurfti ég því að kjósa utankjörstaðakosningu hjá hreppstjóranum þar og gerði ég það síðast liðinn miðvikudag. Ég hef tekið þá ígrunduðu ákvörðun um að kjósa aldrei nokkurn tíma utan kjörstaða aftur. Fyrst þurfti ég að byrja á því að fylla út eyðublað. Það gekk nú stórslysalaust fyrir sig. Síðan fékk ég kjörseðilinn og fór og ætlaði að krossa við minn flokk. Þá komst ég að því mér til skelfingar að ég fékk ekki hefðbundinn kjörseðil heldur einhvern svona algildan utankjörstaðaseðil sem hægt er að nota í þingkosningum, sveitarstjórnarkosningum og forsetakosningum. Á hann átti ég að skrifa listabókstaf þess flokks sem ég vildi kjósa. Ég skrifaði náttúrulega U, fyrir Vinstri-Græna. U, mér fannst það eitthvað svo lítilmótlegt að atkvæði mitt í þingkosningunum, atkvæði sem ég hafði beðið í fjögur ár eftir að gefa Vg skildi vera einn bókstafur á pappírsbleðli. Þannig að ég ákvað að bæta við nafni flokksins og skrifaði U-Vinstri-Græðir. Þá fattaði ég það að ég hafði skrifað Græðir í stað Grænir. Þannig að ég krassaði yfir Græðir og skrifaði Grænir fyrir neðan, skellti atkvæðaseðlinum í umslag og lokaði, ég var búinn að fá nóg af þessum kosningum.

Á kjördag verður þetta umslag svo opnað á kjörstað af kjörnefnd og gengið úr skugga um að atkvæðið sé gilt. Ég ætla rétt svo að vona að atkvæðið verði tekið gilt en þeim gæti svosem dottið í hug að dæma það ógilt þótt ekki hafi staðið skýrum stöfum að óheimilt væri að skrifa meira en listabókstafinn á seðilinn. T.d. mátti maður breyta uppröðun á lista með því að skrifa sína útgáfu af listanum. Hins vegar hef ég miklar áhyggjur af því hvað kallarnir í kjörnefnd sem eru náttúrulega bara bændur úr sveitinni haldi um mig að eftir fjögur ár í framhaldskóla og tvö í háskóla geti ég samt ekki stafað grænir skammlaust.

Ég er búinn að ákveða það að í næstu kosningum þá ætla ég að kjósa á kjörstað þar sem maður fær þar til gerðan kjörseðil og einfalt X er allt sem þarf. Aldrei aftur utankjörstaðakosning, það er bara vitleysa.

Páskafrí

Ég er farinn í páskafrí heim í sveitina. Það verður núna langt hlé á skrifum mínum á þessari síðu fram undir mánaðarlok. Gleðilega páska allir saman.

DJ Sóley á Alþingi?

djsoley.jpgÉg var að komast að því bara í dag að fimmta sætið fyrir Frjálslynda í Reykjavík norður skipar plötusnúðurinn ógurlegi DJ Sóley. DJ Sóley er náttúrulega öllum kunn. Hún var valinn besti plötusnúður ársins á dögunum og spilar hún reglulega á Vegamótum þar sem maður kíkir oftast af öllum stöðum. Ég man að um daginn, einhvern tímann fyrir áramót fór ég blindbeyglaður á Vegamót með Renato og hann kynnti mig fyrir henni. Við skiptumst á einhverjum orðum en ég man ekkert hvað ég sagði. Ég held nú samt að enginn skandall hafi verið á ferðinni.

Það yrði nú skemmtilegt ef DJ Sóley kæmist inn á þing. Ég held að hún yrði góður þingmaður og á eftir að berjast af alefli fyrir ódýrari bjór og lækkuðum skemmtanaskatti.

Tilvitnun dagsins

America is the only nation in history which miraculously has gone directly from barbarism to degeneration without the usual interval of civilization.
Georges Clemenceau