Archive for mars, 2003

Knútur bloggar

Nú er Knútur byrjaður á blogginu. Mig minnir að síðast þegar ég hitti hann og Óla uppi á Skaga þá sagði hann að allir þeir sem ættu bloggsíðu væru internetsnördar. Ég segi bara velkominn í hópinn Knútur

Ég nenni ekki að gera efnagreiningaskýrslur…..

Fífl

Já, ég er fífl. Ég gleymdi víst að mæta í verklegan tíma í dýralífeðlisfræði á miðvikudaginn. Hélt að ég ætti að mæta í næstu viku. Afleiðingarnar? Jú ég þarf að skrifa heila ritgerð um starfsemi nýrna og þá fjalla sérstaklega um þátt nýrna í stjórn á saltvægi og vatnsvægi í líkamanum og þau stýrikerfi sem þar koma við sögu. Í staðinn fyrir að mæta í þægilegan tilraunatíma (er mér sagt), míga í glas og mæla jónastyrk nokkurra efna í þvaginu og flytja stutta munnlega skýrslu um tilraunina þá þarf ég að skrifa ritgerð. Það er ekkert elsku mamma í líffræði. Ég hef akkúrat engan tíma til þess að fara að skrifa ritgerð núna. Ég er á eftir í öllum greinum. Afhverju fer maður bara ekki að vinna á lager eða eitthvað og hættir þessu rugli?

Reiðir og óttaslegnir

stridirak.jpgSamkvæmt þessari frétt hér eru margir Kanar reiðir og óttaslegnir því komið hefur í ljós að bandarískir hermenn hafa verið drepnir í Írak. Þessu bjuggust þeir ekki við og eru reiðir þeim sem sögðu þeim að stríðið yrði auðvelt, einungis kökusneið eins og Kaninn segir. Hversu vitlaust getur fólk orðið? Héldu allir að þeir gætu bara farið í stríð og allir Íraksbúar tæku þvi fangandi að fá boðbera frelsis og mannúðar í heimsókn til sín með sínar sprengjur og skriðdreka?

Það er þreytandi að hlusta á malið í þeim hræsnurum sem spyrja í sífellu: hvar voruð þið mótmælendur þegar að Saddam myrti mörg þúsund Kúrda með eiturgasi og pyntaði borgara sína o.s.frv. Afhverju mótmæltuð þið ekki þá? Afhverju mótmæltuð þið ekki viðskiptabanninu sem hefur kostað nokkur hundruð þúsund mannslíf? Viðskiptabanninu var vissulega mótmælt þótt að mun minna færi fyrir þeim mótmælum. Ég var átta ára þegar að Saddam myrti Kúrda með eiturgasi þannig að ég get ekki sagt að ég muni eftir einhverjum mótmælum þá. En málið er að við getum ekki setið heima og horft upp á það að Vesturlönd ráðist inn í fátækt þriðja heims ríki sem þeir eru fyrir búnir að kúga í tólf ár. Við getum ekki horft upp á það að það sé verið að beita hátæknihernaði á fólk í Írak í nafni frelsis þegar að hinn raunverulegi tilgangur er öllum ljós. Og fyrst og fremst getum við ekki unað því að þetta er gert í okkar nafni. Í nafni Íslendinga og fleiri þjóða ganga stríðshaukarnir fram og sprengja og drepa fólk í tugatali. Við sem mótmælum hötumst einnig við Saddam en þetta er alls ekki góð leið til þess að koma honum frá völdum. Ég efast ekki um það að einhvern daginn eigi ríkisstjórn Saddams eftir að hrökklast frá völdum og ný leppstjórn Vesturlanda taka við. Hvað er réttlætanlegt að drepa marga til þess að þessum markmiðum verði náð? Samkvæmt ræðu Bush í dag er það ekki málið eða með hans eigin orðum: „We will be relentless in our pursuit of victory.“ Ekki var farið mörgum orðum um þá almennu borgara sem beðið hafa bana í árásum hers Bússa heldur féllu nokkur væmin orð um þá hermenn sem drepist hafa í Írak. „We pray that God will bless and receive each of the fallen, and we thank God that liberty found such brave defenders.“ Hvernig getur þessi maður þóst trúa á Guð? Hvernig er það bara mögulegt að einhver trúi slíku? Ég trúi ekki á neitt en ég veit þó hvað stendur í Biblíunni, hvernig væri að fara eftir því fyrst að menn vilja vera að nefna Guð í tíma og ótíma?

Nú ætla ég að fara að sofa. Það verður nú spennandi að sjá hvað margir verða drepnir og limlestir í nótt.

Adaptation

Fór að sjá Adaptation í bíói með Jakobi. Þurfti að borga bíómiðann hans af því að hann vann veðmálið um hvort að Jónína næði þremur efstu sætunum. (bastarður) Hann er líka að vinna djöfuls formúluleikinn sem mér gengur ekki vel í. En allavega Adaptation er mynd sem ekkert er hægt að segja um í rauninni án þess að fletta ofan af þeirri brilljant sögu sem sögð er í henni. Spike Jonze er alger snillingur í að gera frumlegar myndir sbr. þessi og Being John Malkovich. Nicolas Cage fer með aðalhlutverkið og gerir það vel. Leikur semsagt tvíburabræður sem eru afar ólíkir um margt. Meryl Streep er í hinu aðalhlutverkinu og fékk óskarstilnefningu fyrir. Síðan er þarna Chris Cooper nokkur sem ég man nú ekki eftir að hafa séð áður en hann fékk óskarinn í ár fyrir sitt hlutverk í myndinni. Allavega þá er þetta hin skemmtilegasta mynd og fær þrjár og hálfa stjörnu.

Lágmarksríki

Nú er vefurinn Lágmarksríki kominn í loftið aftur eftir nokkurt hlé. Hann er kannski búinn að vera í loftinu í nokkra daga, ég tók allavega eftir því fyrst í dag. Þetta er sem sagt að manni skilst nokkurs konar málgagn Frjálshyggjufélagsins. Ég svona renndi í gegnum pistlana sem komnir eru upp og ég verð að segja að allavega til að byrja með þá er þetta allt svona hófstilltara og vandaðra núna en það var. Það fer mun minna fyrir hatri á vinstri mönnum og allt er svona mun málefnalegra einhvernveginn. Það væri óskandi að þeir héldu áfram á þessari braut í staðinn fyrir að enda eins og skoðunarbræður þeirra á Vefþjóðviljanum sem hafa drekkt sjálfum sér í hatursskrifum í garð Ingibjargar Sólrúnar. Ofsinn í þeim er alveg magnaður. Það mætti halda að þeim væri borgað fyrir að hrauna yfir Samfylkinguna. Hver veit, kannski er þeim bara borgað…..

Ha ég?

Ég hef verið sakaður um arðrán á opinberum vettvangi af Sigurði. Ég hef verið sakaður um stuld á góðum hugmyndum og það að hafa nýtt þær í mína þágu. Ég segi fyrir mig, upphaflega eru t.d. myndir Clay Bennets ekki teiknaðar af þér Siggi heldur jú hvað haldið þið, Clay Bennet þannig að þú átt ekkert tilkall til þeirra. Hver kenndi þér að setja áðurnefndar myndir Clay Bennets inn á bloggið? Að lokum vil ég vitna í Sigurð sjálfan:

Jú hann er snillingur hann Clay og öllum er velkomið að skoða og nota hans beinskeyttu skrípómyndum!

Hvað er þá málið?

Kreppa vinstri manna

liberate.jpgÞað er vont að vera vinstri sinnaður í dag. Flest allt það sem vinstri menn hafa mælt á móti, t.d. Kárahnjúkavirkjun og árásarstríð BNA og Bretlands hefur náð fram að ganga. Samfylkingin hefur algerlega neitað því að hún sé vinstri flokkur, er núna nútímalegur jafnaðarmannaflokkur á miðjunni. Vinstri-Grænir síga neðar og neðar í skoðunakönnunum á meðan að hægri flokkarnir vinna sífellt á. Umhverfisvernd á ekki lengur upp á pallborðið, ekki þegar hún þvælist fyrir hagvexti og gróðanum. Velferðarkerfið er kerfisbundið brytjað niður og það kallað hagræðing. Maður spyr sig, til hvers að vera að rífast og röfla yfir þessu? Á maður ekki bara að leggja allar hugsjónir á hilluna og hætta þessu? Vera illa upplýstur almennur plebbi með engar sérstakar skoðanir á neinu?

Nei, maður verður bara að halda áfram og vona að dagurinn á morgun verði betri. Það er það eina sem maður getur gert í stöðunni. Jú kjósa rétt og reyna að aulast til að mæta á mótmæli gegn stríði.

Það er frekar óhugnalegt að fylgjast með teljaranum á síðunni hans Sverris sem fylgist með því hve margir almennir borgarar hafa fallið í Íraksstríðinu. Tölurnar hafa hækkað í hvert sinn sem maður lýtur á síðuna. Allt þetta ofbeldi og dauði í heiminum. Fyrir hvern og til hvers?

Það er eitt sem ég skil ekki. Afhverju er Íraksstríðið alltaf kallað Iraq crisis í erlendum fjölmiðlum? Crisis þýðir samkvæmt orðabók:

1) sótthvörf eða sóttbrigði 2) straumhvörf, umskipti eða tímamót 3) kreppa, erfiðleikatímar eða hættuástand

Það er vissulega erfiðleikatímar og hætta á ferðum í Írak. Einnig er hægt að kalla þetta stríð viss tímamót en afhverju ekki bara kalla þetta war? Vilja menn kannski ekki kalla völtun yfir fátæka þriðja heims þjóð af öflugustu herjum heimsins stríð að því að þetta er ekki það mikið mál?

Fyndið

Dagbók Baggalúts:

Þennan dag fyrir 15 árum var upphafsmaður jassballetsins dreginn fyrir dómstóla sakaður um glæpi gegn mannkyninu.

Af Baggalút

Smokkfiskur og veðmál

squid.jpgJamm, í gær fór ég og Jakob til Renato og hann eldaði smokkfisk fyrir okkur. Ég hafði aldrei prufað smokkfisk áður og er þetta fínasti matur bara. Það var samt hálf undarlegt í fyrstu að kjamsa á örmunum því að þeir voru ennþá fastir saman og maður gat séð sogskálarnar og allt heila klabbið. En gott var það. Síðan fengum við Gold Strike skot og kokkteila sem frændi hans Renato mixaði. Allt mjög gott.

Nú er Jónína frænka mín víst búin að taka þátt í Ungfrú Vesturland keppninni. Ég veðjaði við Jakob upp á einn bíómiða að hún yrði í einu af þremur efstu sætunum. Enn sem komið er höfum við ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um úrslitin. Þeir sem vita úrslitin látið okkur endilega vita.