Archive for febrúar, 2003

Af vondum bloggum

Rósa bloggið þitt er ekki innantómt og leiðinlegt. Ég vil á hinn bóginn ekki halda áfram að skrifa um mitt daglega líf vegna þess að mér leiðist mitt daglega líf. Það er alltaf sama rútínan dag eftir dag og ég kýs frekar að skrifa um hluti sem skipta máli, ekki hvar ég var fullur seinustu helgi o.s.frv. Svo er spurt, afhverju að skrifa blogg sem enginn nennir að lesa? Blogg er náttúrulega einskonar dagbók, maður skrifar það sem manni sýnist og er ekkert að miða við það að aðrir hafi eitthvað gagn og gaman af því sem manni dettur í hug.

Nú og svo er Rósa hvort eð er hætt að lesa þetta að eigin sögn og þá get ég bara haldið mínu pólítíska þvaðri áfram. Bloggið mitt er ekki hugsað sem dægrastytting eða neitt því um líkt. Það er.

Vonbrigði?

Já þá er Rósa byrjuð að rífa sig yfir bloggskrifum okkar Sverris. Ég skil ekki reyndar hvernig fólk getur einfaldlega tekið sér rétt til þess að gagnrýna bloggsíður annarra. Það kemur fólki einfaldlega ekki neitt við hvað fólk er að skrifa á sínar bloggsíður. Til þess að geta skoðað bloggsíður þarft þú jú að opna þær í vafranum þínum, enginn er að troða neinu upp á neinn. Og ef þér líkar ekki skrifin þá á fólk einfaldlega ekki að vera að skoða þessar síður.

Ég segi fyrir mig að mér finnst mun áhugaverðara að skoða síður hjá fólki sem er með meiningar og skoðanir á hlutunum og er ekki feimið við að tjá þær. Mér leiðast bloggsíður þar sem ekkert markvert kemur nokkurn tímann fram. Blogg um hvað fólk var að éta, hvað nýji pappírinn hjá Papco sé mjúkur og hvað veðrið sé vont. Afskaplega innantómt og leiðinlegt.

Er ég með pólítík á heilanum? Já og ég get ekki að því gert. Pólítík snertir alla þætti lífs okkar og það er einfaldlega ómögulegt að komast hjá því að hugsa, skrifa og tjá sig um pólitík. Kommúnusíðan hefur frá upphafi verið pólítísk og verður það til 1. júní þegar að henni verður lokað um aldur og ævi. Punktur

Ummæli dagins

Sá þetta í dag á Frelsi.is, málgagni Heimdalls, fannst bara fyndið.

Frelsi.is hvetur þá lesendur sína, sem stunda nám við HÍ, að styðja við bakið á Vökumönnum og hafna öfgafyllri vinstristefnu Röskvunnar.

Öfgafull vinstristefna, þar hafið þið það. Ekki kjósa kommúnistana, þið munið nú hvernig fór fyrir gamla Sovét.

Æ fjandinn…. hvernig er hægt að segja að ákveðið vefrit sé óháð og ótengt öllum flokkum og félagasamtökum og birta síðan lofpistill um ákveðin samtök…….

Hér er ég að tala um Deigluna og þennan pistil.

Hann er stílaður á ritstjórnina. En það er svosem vitað hvar Deiglan stóð í þessum málum, það er ekki það……

Jæja já, ég er víst heimsmethafi í brjóstaþukli samkvæmt þessari frétt. Ég segi bara: Gangi þér vel Siggi með heimsmetstilraunina :þ

Kjósum öll!

Stúdentar, ég skora á ykkur að mæta á kjörstað í dag eða á morgun og kjósa. Ég ætla ekki vera með áróður á kjördegi, ég vil bara hvetja fólk til þess að nýta sér kosningarétt sinn. Allir hljóta jú að hafa skoðanir um stúdentapólitík. Er svo ekki málið að mæta á kosningavökur hjá sínu fólki og hafa svolítið gaman af þessu? Það ætla ég að gera allavega.

The Sopranos

sopranos.jpgLoksins loksins er Tony Soprano mættur aftur á skjáinn. Ég held því fram að líf mitt sé orðið betra núna þegar að nýju Sopranos þættirnir eru byrjaðir aftur. Þessir þættir eiga engan sinn líka í sjónvarpssögunni, allavega hef ég aldrei séð neina sambærilega þætti. Samtölin, persónunar og atburðarásin, helst er til að jafna grísku harmleikjunum og Shakesphere leikritum þegar að samanburði er leitað. Ég gæti skrifað langan pistil um The Sopranos en ég segi þess í stað, sjón er sögu ríkari.

Voða langur pistill

Háskólalistinn er búinn að kynna sín stefnumál á Tungu.is. Það er meira að segja viðtal við Þorgeir og allt. Skrýtið að hin framboðin afþökkuðu boð Tungu.is um að kynna sín málefni þar. Þetta er kannski ekki orðið nógu vinsælt vefrit.

Var að koma úr bólusetningu fyrir Tælandsferðina ógurlegu. Nú er ég hér með ónæmur fyrir mænusótt, taugaveiki og lifrarbólgu A. Á núna eftir að fá sprautur við stífkrampa og barnaveiki, bóluefnið kláraðist víst. Læknirinn spjallaði við okkur fyrir sprauturnar og varaði við helstu smithættum þarna úti. Hvað má éta og hvað ekki o.s.frv. Merkilegast fannst mér að besti áburðurinn til varnar gegn moskítóflugum er hvergi að finna á Íslandi né Tælandi. Það þarf líklega að panta hann sér frá Bandaríkjunum. Markaðurinn er alls ekki að standa sig hérna.

Aftur að stúdentamálunum; mér finnst það afskaplega slappt hjá Röskvu þessi talnaleikfimi þeirra sem á að sýna það að síðasta hækkun námslána hafi verið sú lægsta í áraraðir. Jú vissulega ef miðað er við mestu verðbólgu á síðustu fimm árum! Þetta er nú ekki boðlegur málflutningur, ég get ekki sagt annað. Það er hægt að koma með mun uppbyggilegri gagnrýni á núverandi meirihluta heldur en einhverjar svona hundakúnstir. Gott andsvar við þessari gagnrýni má lesa á Pottinum.com.

Svona reikningslistir eru stundaðar víða núorðið. T.d. þessi mýta um að skuldir Reykjavíkurborgar hafi hækkað um 1100% síðan að R-listinn tók við. Þetta kom fram fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar og var allt hrakið þá en skýtur upp kollinum núna aftur. Þeir sem halda þessu fram nú vona líklega að fólk sé búið að gleyma þessum rangfærslum Bjössa og co.

Hins vegar hefur það ekki verið hrakið svo að sannfærandi sé, tölur um hækkun tekjuskatts á einstaklinga í tíð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar. Líka það að skatthlutfall ríkisins af heildartekjum landsmanna hefur hækkað. Geir Haarde svaraði því til að það væri afleiðing af auknum hagvexti og hækkandi tekjum að skatthlutfall ríkisins ykist. Ég er nú ekki hagfræðingur en ég skil þetta ekki alveg. Allavega finnst mér hækkunin vera mjög mikil þótt ég muni ekki tölurnar í svipinn. Síðan þessi skattalækkun á fyrirtæki, átti hún ekki að örva fyrirtækin til fjárfestinga og auka atvinnu? Hvað varð um þessa atvinnu? Við erum að horfa upp á mesta atvinnuleysi sem sést hefur síðan á níunda áratugnum og ríki og sveitarfélög hafa séð sig knúin til þess að auka opinber umsvif til þess að mæta þessu. Þetta finnst mér vera hörmulegt ég segi ekki annað. Hvað á það líka að þýða að setja svona miklar fjárhæðir í malbik!?! Eiga allir að fara að vinna hjá Vegagerðinni?

Hvað er líka með þessa stefnu ríkisstjórnarinnar að selja vel rekin fyrirtæki sem skila miklum hagnaði og byggja vegi fyrir vænan part af söluverðinu? Er þetta gáfuleg stjórnun? Vegir eru nú ekki mjög arðbærir. Hvernig á svo að mæta tekjutapinu af bankasölunni? Jú, ríkisstjórnin hefur gefið tóninn. Nú á að selja Íslenska Aðalverktaka og fá þannig inn fé. Svona hefur þetta gengið undanfarinn áratug og hvernig endar þetta að lokum? Ríkið þarf síðan að lokum að hækka skatta á einstaklinga til þess að fá inn peninga sem það hefur orðið af með sölum á fyrirtækjum. Allt til þess að halda í kenninguna um það að Ríkið eigi ekki að skipta sér af atvinnulífinu. Var þetta ekki reynt undir stjórn Tatchers í Bretlandi? Við munum nú öll hvernig það fór. Fyrst var mikill uppgangur og svo sigldi allt í strand. Bretar lentu í sinni mestu kreppu síðan í Heimskreppunni miklu og hafa í raun ekki náð sér enn þrátt fyrir efnahagsbata undanfarinna ára. Sama gilti um Bandaríkin og stjórn Reagans sem hefur verið kennd við krakk. Samlíkingin er dregin af því að krakk veldur skjótri og ofsamikilli vímu en fráhvarfið er afar sársaukafullt. Það er magnað hvernig þeir frjálshyggjupjakkar sem hafa undanfarið ár keppst um að mæra efnahagsstjórn Reagans tala aldrei um hvernig hún endaði, aðeins um hvernig efnahagurinn tók fyrst í stað við sér og hagvöxtur jókst. Jafnaldrar mínir muna nú alveg eftir efnahagsþrengingum Bush-stjórnarinnar sem er nú að endurtaka sig eftir að stjórn Clintons hafði náð að snúa við blaðinu. Viljum við Íslendingar feta lengur í þessi fótspor? Við sjáum nú þegar hvernig komið er. Geðsjúklingar eru á götunni, fátækt eykst dag frá degi virðist manni, þeir ríku hafa aldrei verið ríkari, menntakerfið er illa statt, Davíð virðist vera kominn í einhverskonar einræðisherrafíling, utanríkisstefnan snýst um algera hlýðni við Bandaríkin í einu og öllu og umhverfisvernd á engan veginn upp á pallborðið. Er ekki kominn tími á að senda stjórnarflokkana í endurhæfingu í stjórnarandstöðumeðferð? Það finnst mér allavega…….

Þessi pistill einhvern veginn vatt upp á sig. Hann átti alls ekki að vera svona langur…….

Jæja H-lista félagar. Nú verðið þið að svara gagnrýni Deiglumanna um hið nýja kosningafyrirkomulag.

Vil bara benda fólki á mjög merkilega grein á Múrnum um fyrirhugað árásarstríð W og Blairs á Írak.