Archive for janúar, 2003

Jú, jú Mundi, ég gleymdi Davíð en fólkið á Þverá er ekkert skyldara mér en hver annar. Það var bara það að við fimm áttum sama forfaðir sem mér fannst sniðugt. Ég hef verið að fletta upp fleira fólki sem ég man eftir úr sveitinni en enginn merkilegur skyldleiki hefur komið í ljós.

Ég er samt fúll út í foreldra mína því að þeir voru búnir að segja mér að ég og Vala Flosa værum mjög skyld. Að ég gæti kallað hana frænku. Ég gerði það sem betur fer aldrei opinberlega því ég hef komist að því að við erum eins fjarskyld og hægt er bara.

Svo neita ég því að við séum eitthvað innræktaðir! Þegar ég er búinn með kúrs í mannerfðafræði þá get ég rökstutt það betur!

Já ég gleymdi að segja að fjórði fyrrum sveitungi minn, Davíð frá Hausthúsum er líka sexmenningur við mig í gegnum sama manninn.

Jæja eftir ýtarlegar ættfræðirannsóknir með hjálp Íslendingabókar þá hef ég komist að eftirfarandi: Ég og þrír fyrrum sveitungar mínir, þeir Sigursteinn frá Fáskrúðarbakka, Bubbi frá Lækjarmótum og sjálfur Svansson.net erum sexmenningar og það er allt í gegnum sama manninn. Sá heitir Björn Andrésson fæddur 1765 og bjó í Kolbeinsstaðahrepp. Merkilegra fannst mér hvað ég og Siggi Tomm vorum skyldir. Ég og pabbi hans erum víst fjórmenningar. Ég og Signý erum líka mjög skyld. Ég og amma hennar erum fjórmenningar, sem er merkilegt út af fyrir sig að ég og amma hennar erum í sömu kynslóð…….. Og meira af Grundfirðingum. Ég og mamma hennar Valdísar sem bjó á vistinni í FVA erum þremenningar hvorki meira né minna. Þannig að það er rétt það sem ég hélt. Ég er náskyldur Grundfirðingahyskinu. Síðan er maður náttúrulega kominn af Agli Skallagrímssyni. Það eru örugglega allir Íslendingar.

Spánverjar eru ömurlegt hyski.

Ég ætlaði að læra helling í dag en það fór fyrir lítið. Nú verður höfð þurr helgi og lært eins og ég veit ekki hvað. Ég er nefnilega kominn í þá aðstöðu að vera í þremur glósunargengjum og þarf því að glósa og glósa eins og ég veit ekki hvað. Maður getur ekki brugðist samstúdentum sínum þótt ég nenni ekki að læra fyrir sjálfan mig….

Nýtt Háskólaframboð komið á koppinn. Hvað skyldu þeir nú hafa fram að færa? Ég bíð spenntur að sjá hin róttæku stefnumál sem rúmuðust ekki innan Röskvu.

Nú þarf ég að fara að velja mér einhvert kvikindi sem lifir í Thailandi til þess að skrifa ritgerð um. Má líka vera planta náttúrulega en ég held að ég haldi mig við dýrin. Þetta þarf að vera eitthvað um 15 bls. að mér skilst. Ég bara veit ekki hvað ég á að skrifa um. Ætlaði að skrifa um fílinn, Elephas maximus, en það er frátekið víst. Finn ekki neitt sniðugt á Netinu…….. þá er nú fokið í flest skjól.

Hvað getur verið meiri sóun á peningum heldur en að kaupa sér lóðir á fjandans tunglinu?!? Ekki byggir maður sumarbústað þar, ekki ræktar maður skóg þar….. með öflugum sjónauka væri kannski hægt að sjá svæðið sem skikinn er á. Ef fólk á svona gríðarlegt umframmagn af peningum þá á það að gefa fátækum (þ.m.t. mér) þá.

Fór og mótmælti virkjun í dag og hlustaði á Arnar Jónsson og Ögmund halda ræður. Vettlingarnir voru samt búnir þegar ég kom….. Ég er samt hræddur um að þetta sé komið of langt til þess að hægt sé að stoppa þetta. Þá er ég kominn með sömu skoðun og Össur Skarp sem er nú ekki gott til afspurnar.

Mikið er verklegt í þróunarfræði sviðnir tímar. Sat í dag fyrir framan UNIX-tölvu og var að rembast við að smíða módel sem átti m.a. að lýsa stökkbreytingum m.t.t. hendinga í stofnum. Síðan átti að keyra þetta í margar kynslóðir og athuga hvort stökkbreytta allelið tók yfir eða datt út úr stofnunum. Ekkert stuð.

bangkok.jpgÚff, ég var að skoða „upplýsingar fyrir ferðamenn“ um Bangkok, höfuðborg Thailands sem ég er að fara til eftir fjóra mánuði. Þar var greinilega verið að gefa í skyn að maður fengi hvað sem er í borginni. Nokkrar tilvitnarnir:

Fallegar stúlkur, sem eru oftast frá fátækum þorpum í norðurhluta landsins, þekkja skemmtanalífið út í hörgul. Light Show eru sýningar dansara, sem eru berir að ofan, á fyrstu hæð skemmtistaðanna. Uppi á lofti er stundað vændi og varðmenn gera viðvart, ef lögreglan kemur of nærri. Geri lögreglan rúmrusk, eru gestirnir ekki handteknir. Gagnkynhneigðir karlmenn, sem vilja gera sér glaða nótt í Bangkok, verða að gæta sín á því, að stundum geta fallegar „stúlkur“ verið klæðskiptingar. Einn af vinsælustur kabarettunum í borginni er Calypso, sem klæðskiptingar annast.

og þeir halda áfram………

Fylgdarþjónustur útvega konum og körlum félaga. Gestamóttöku hótelanna mæla gjarnan með þessum fyrirtækjum. Enginn, sem fer út í nóttina í Bangkok, er lengi einn…. Tælenzkir karlar vilja skemmta sér saman. Konurnar þurfa ekki að sitja auðum höndum á meðan. Nuddstofan Chippendale’s, við hliðina á Mannhattahótelinu, var hin fyrsta til að opna dyr sínar fyrir þeim. Þar velja konurnar sér velvaxna félaga til að tala við, dansa við og gamna sér með. Aukaþjónusta fer eftir samkomulagi.

Síðan er niðurstöður svissneskra rannsókna kynntar….

Samkvæmt nýlegri (1994) svissneskri talningu voru 97 næturklúbbar, 119 nuddstofur, 248 (dulbúin) vændishús og 394 veitingastaðir með diskótónlist í borginni. Fjöldi ástarhótela skiptir hundruðum (flestir nota gistiheimili). Viðskiptavinirnir leggur bílum sínum fyrir utan herbergi, tjald fellur fyrir aftan hann og borgunin fer fram í gegnum lúgu. Sums staðar eru einungis skaffaðar mottur. Staðir í dýrari kantinum eru búnir speglum í lofti, uppbúnum rúmum o.fl. Líkamsnudd þýðir kynlíf. Fyrir það er krafizt gjalds fyrir hvern klukkutíma og upphæðin, sem gefin er í þjórfé, fer venjulega eftir aukaþjónustunni.

Ég veit ekki hvað mér á að finnast um þetta………….

Nú er ég kominn á fullt í ættfræðirannsóknir í Íslendingabók. Reyndar gengur það afskaplega illa því að það er eitthvað mikið að þessum vef eða álagið svona gríðarlegt því maður getur bara skoðað nokkra í einu og síðan koma villumeldingar og læti. Það merkilegasta sem ég hef komist að hingað til er að ég er nokkuð mikið skyldur Grundfirðingum. Mig hafði reyndar grunað þetta vegna þess að Gestur afi var úr Eyrarsveit en skyldleikinn var samt meiri en ég hafði haldið. Einnig var nokkur skyldleiki milli mín og Rósu. Hins vegar kom það í ljós að ég er álíka skyldur Ingibjörgu eins og Davíði Oddsyni. Kom það mér ekki á óvart og held ég að þessi ruglingur með skyldleika okkar eigi rætur að rekja til þess að líklega eru tvær óskyldar Fjeldsted ættir til í landinu, allavega hef ég heyrt það einhvers staðar. Þannig að Ingibjörg verður að hætta að kalla mig frænda þegar í stað ;) Ítarlegar niðurstöður ættfræðirannsóknanna verða birtar síðar.

Fór á Þorlákshöfn á laugardaginn. Fékk þar saltfisk og rúgbrauð hjá Guðjóni. Það var mjög gott og þakka ég honum fyrir góðar móttökur. Síðan fórum við á Dugguna sem er aðalstaðurinn í Þorlákshöfn. Þar spilaði ég billjarð í fyrsta skiptið, var búinn með fimm bjóra og tókst samt að vinna Guðjón. Hvað segir það okkur um hæfileika Guðjóns í billjarði? Þeir eru allavega meiri en í Trivial Pursuit, það kom einnig í ljós um kvöldið………

Kommúnan óskar Dagbjörtu opinberlega til hamingju með afmælið í gær.

Var að koma úr Þjóðleikhúsinu. Sá þar stykkið „Með Fullri Reisn“ í boði foreldra minna. Þetta var fínasta stykki bara, ekkert nema gott um það að segja. Nú er ég búinn að sjá „landlordinn“ Arnar á sprellanum. Veit ekki hvað mér á að finnast um það…….

Hvar er lykilorðið mitt úr Íslendingabók?!!? Það eina sem fólk talar um þessa dagana er hverjum það er skylt og hvað Íslendingabók sé sniðugt fyrirbæri og ég fæ ekkert að vera með. Ég sótti um daginn sem síðan opnaði. Þetta er óréttlátt!

Að lokum vil ég benda fólki á snilld dagsins (þótt það sé nokkurra daga gamalt). Síðustu þrífarar á Baggalút, gott BURN þar á ferð.