Archive for desember, 2002

Einkunnir streyma inn aldrei þessu vant og er ég búinn að fá tvær af fjórum fyrir áramót sem er mun betri frammistaða hjá kennurunum en á síðasta ári. Búinn að ná Erfðafræði og Vistfræði en einkunnir verða ekki gefnar upp hér á opinberum vettvangi. Var samt afar sáttur við einkunnina í Vistfræði :) Nú er bara að bíða og sjá hvernig hin tvö prófin hafa gengið sem voru tvö erfiðustu próf sem ég hef tekið. Prófið í Almennri Efnafræði I var hörmung vegna þess að ég kunni EKKERT og Bakteríufræðin var hörmung vegna þess að það var bara einfaldlega geðsjúkt próf. Ég náði ekki einu sinni að klára það……… en ég var víst búinn að væla um það áður………..

Fór á Hringadróttinssögu áðan með Jakobi, Sigga Tomm og Adami og þetta er svo góð mynd að ég segi bara pass. Sjón er sögu ríkari, farið og sjáið fyrir ykkur sjálf :Þ

Hæ hó og gleðileg jól. Nú hafa liðið margir dagar síðan eitthvað birtist hér eftir mig en nú er þögnin rofin. Jólin voru ágæt að venju en fara samt einhvern veginn dvínandi ár frá ári. Maður er líklega að verða gamall………..

Hvað meira… jú Ingibjörg Sólrún er farin í landsmálin. Þrátt fyrir að ég sé enginn einlægur aðdáendi hennar þá eru þetta samt góðar fréttir. Sérstaklega finnst mér frábært að líkur eru á að Halldór Ásgrímsson falli barasta útaf þingi. Það er það besta sem ég hef heyrt lengi. Ég er bara mest hræddur um að Samfylking og Íhaldið myndi stjórn. Ég er orðinn leiður á bláu höndinni sem hangir yfir skerinu.

Nú nenni ég ekki að læra og því skal bloggað. Ég var í prófi í morgun í bakteríufræði sem var það þyngsta, lengsta, smámunasamasta og leiðinlegasta próf sem ég hef nokkurn tímann tekið og ég vona að botninum í HÍ-prófum hafi verið náð í dag. Ég náði því í fyrsta sinni í prófi að fylla prófbókina og var kominn að því að biðja um aðra þegar tíminn leið út. Ég náði ekki á þremur klukkutímum að svara þessum hvað 9 spurningum sem ég þurfti að svara þrátt fyrir að hafa vitað alveg heilan helling, kannski vissi ég of mikið, kannski var það málið (nei kannski ekki). Allavega þá held ég því fram að ég hafi náð þessu prófi (tæplega þó) og vil ég þakka Rósu fyrir að hafa hjálpað mér að læra fyrir prófið.

Hvað með nú eru flest allir búnir í prófum sem ég þekki nema náttúrulega þeir sem eru með mér í Almennri Efnafræði I. Sverrir kláraði 17 des. Jakob kláraði í gær og drakk sig fullan í tilefni þess, gott hjá honum. Hann fór síðan heim í dag eftir að búið var að setja nýja framrúðu í bílinn hans sem einhverjir bastarðar méluðu.Dagbjört kláraði 13 des.!!! , hvað er með svoleiðis fólk?!? Kristín Gróa kláraði líka í gær. Siggi Tomm kláraði fyrir löngu síðan en það skiptir kannski ekki máli því að það fór allt fyrir bí…. Þegar ég fer að hugsa um það þá veit ég bara hvenær bloggararnir og þeir sem búa með mér eru búnir. Ég hef ekki hugmynd um hvenær aðrir eru búnir….. hættur að tala við fólk heldur kýs frekar að lesa um það. Hversu bjánalegt er það?

Síðan held ég að ég fari bara í partý á laugardaginn. Ég ætla ekki að gefa upp hvar því að þeir fáu sem lesa þetta vita hvaða partý ég er að tala um. Af öryggisástæðum þá ætla ég samt ekki að gefa staðsetninguna upp. Síðan fer ég heim í sveitina 22. desember. Það verður nú ljúft.

Við lýsum eftir leigjenda í herbergið hans Hauks sem er að fara að yfirgefa okkur fyrir litla sjávarþorpið þar sem hann ólst upp í og getur ekki hugsað sér að yfirgefa. Ég vona að hann finni hamingju og lífsfyllingu þar sem hann gat ekki fundið í borg óttans.

Þjáist þið af höfuðverkjum og svefnleysi? Vargur.net nefnist maður sem veit afhverju það stafar. Jú er það ekki bara kaffið………. feginn að ég er hættur að drekka þennan óþverra.

Fór að sjá Tveggja Turna Tal áðan með Stínu systir. Þetta gæti hugsanlega verið besta bíóferð allra tíma. Ég fékk gefins miða, gefins popp og kók, mættum nógu snemma til þess að ná bestu sætunum og myndin er ein af bestu myndum sem ég hef nokkurn tímann séð. Þannig að ég endurtek, líklega besta bíóferð allra tíma.

Myndin er allt það sem maður bjóst við eftir að hafa séð Föruneyti Hringsins. Þetta er jú í rauninni sama myndin þannig séð. Mjög góður leikur er það sem stendur uppúr eftir myndina og góð tónlist. (hún Emílíana okkar :p) Sagan er náttúrulega góð þótt að sumir Tolkien hreintrúarmenn verði líklega pirraðir á breytingum á sögunni í nokkrum smáatriðum. Smjagall er í einu orði sagt frábær og hafa sumir líkt eintölum hans við eintöl í Shakesphere leikritum. Það er örugglega rétt hjá þeim, ekki hef ég hugmynd um það. Gimli var samt bestur…….. og ekki orð um myndina meir af tillitsemi við pöpulinn sem þarf að bíða eftir almennum sýningum.

Ég fór í sund áðan í Sundhöllinni sem er nú ekki í frásögur færandi nema hvað í sturklefanum var undarlegur maður. Hann leit út fyrir að vera á aldur við mig og var með mikla ístru. Þetta manngerpi gekk síðan rólega fram og aftur í sturtuklefanum, það var það eina sem hann gerði, fram og aftur, fram og aftur, fram og aftur, fram og aftur, fram og aftur…… Þetta var einhver geðsjúklingur og gott ef ég sá ekki annan þegar í laugina var komið. Þar var einhvert mannskrípi sem var að synda en synti bara þegar hann náði ekki í botn, í grunnu lauginni gekk hann bara en þóttist samt vera að synda. Voða grillað lið í sundi í dag. Síðan í pottunum voru heitar umræður um pólitík, Þingvelli, ríkisafskipti, skattinn og margt fleira. Alltaf eitthvað í Sundhöllinni…….

gwb.jpgÞað er ekkert grín að vera forseti Bandaríkjanna. Hellingur af allskyns drasli sem maður þarf að vita. Hvað er Afríka, hvernig virkar örbylgjuofn, hvar er G-bletturinn o.s.frv. Þá er nú gott að geta gripið til bókanna „….for Dummies“ Þessar bækur hafa gert líf mitt svo miklu, miklu auðveldara. Nú lít ég ekki lengur út fyrir að vera fífl á alþjóðavettvangi. Nú kann ég fullt af löngum og flóknum orðum og fólk lýtur upp til mín sem heimsleiðtoga og finnst ég vera greindur og skemmtilegur. Byrjaðu í dag að lesa og þú munt öðlast skilning. Með bestu kveðjum. W

Tilvitnun dagsins : „Þess vegna hefur enginn flokkur barist einarðlegar fyrir þátttöku þjóðarinnar í vestrænu samstarfi en Sjálfstæðisflokkurinn.“ (Davíð Oddson, Sjálfstæðisstefnan, 1981)

Skoðanir manna breytast víst með tímanum……….

Eitt próf búið, þrjú eftir………

finaltheatrical_poster.jpgEins og segir í kvæðinu: „I got two tickets to paradise, I got two tickets to paradise….. etc.“ þá hefur mér áskotnast einn miði á forsýningu á Lord of the Rings. Næsta laugardag verður semsagt farið á The Two Towers. Húrra húrra húrra.

Fór í Kringluna um daginn. Sá Írafár, Land og syni og Pál Rósinkrans kynna nýju plöturnar sínar. Birgitta Haukdal lítur bara miklu betur út í „real live“ heldur en í sjónvarpi.

Fór í bíó um daginn og sá James Bond 20, Die Another Day. Hún var nú miklu betri en tvær síðustu (ekki erfitt að slá þær út) en samt var hún nú bara svona í meðallagi, aðeins fyrir ofan það samt. Í bíóinu voru Magnús Ólafsson a.k.a. Bjössi Bolla, Gunnar Eyjólfsson, Pétur Guðmundsson fyrrverandi NBA leikmaður og Þórarinn fyrrverandi forstjóri Símans.

Ég hef sem sagt séð jafnmikið af „selebrity“ undanfarna viku og ég geri venjulega á einu ári. Þetta tengist örugglega einhvernveginn því að þetta er kosningavetur.