Archive for ágúst, 2002

Að lesa annarra manna blogg er orðið hluti af mínu daglega lífi og mér liggur við að segja ómissandi hluti. Ég er ennþá þó ekki það langt leiddur að ég sé farinn að lesa blogg hjá ókunnugu fólki heldur bara hjá fólkinu sem ég þekki en það eru 5 síður sem ég skoða nánast daglega. Það er dáldið skrýtið hvernig maður verður háður þessu og það tekur alltaf nokkurn tíma frá manni daglega að lesa þessa vitleysu. Mig langar til þess að benda fólki á sniðuga grein á stúdent.is sem er heimasíða Stúdentaráðs Háskóla Íslands en þar má lesa grein um bloggara þar sem er leitast við að útskýra þetta fyrirbæri blogg og er linkur hér.

Tags:

Föstudagur…. Ég held að ég hafi breyst mikið síðastliðin misseri. Í staðinn fyrir að plana hvar maður eigi að vera fullur þessa helgi þá sit ég og les erfðafræðibókina mína og hef bara gaman af. Ég hugsa að ég þurfi hjálp….sem fyrst.

Kúl, Clinton er pabbi minn…

Who’s your daddy?? Find out @ blackhole

Háskólinn byrjar bara ágætlega í þetta skiptið. Ég er búinn að fara í fyrirlestra í öllum þeim kúrsum sem ég tek og þetta lítur sæmilega út. Staðan er eftirfarandi:

Bakteríufræði: Kennd á Grensás, valáfangi fyrir sameindalíffræði. Góður kennari (hefur kennt mér áður) og áhugavert fag. Vistfræði: Einnig kennd á Grensás, skylduáfangi fyrir líffræði, aðeins einn fyrirlestur búinn. Kennarinn virðist vera ágætur (sá hann fullan í vísindaferð í fyrra) og námsefnið við fyrstu sýn ekki mjög erfitt svona til tilbreytingar. Plús við fáum að fara í bátsferð í einum verklegum tíma, nokkuð sáttur bara. Erfðafræði: Kennd í VR II en verklegt náttúrulega á Grensás. Skylduáfangi í líffræði. Skemmtilegt fag og mér sýnist kennarinn vera ágætur.

Síðan er það áfangi dauðans:

Almenn efnafræði I: Skylduáfangi í sameindalíffræði. Þetta er áfanginn sem margir fræknir kappar hafa fallið í (engin nöfn) og ég held að ég skilji afhverju. Kennarinn er ekki sá líflegasti sem ég hef séð og námsefnið er afar óspennandi og hundleiðinlegt. Verklegu æfingarnar líta ekki vel út heldur, ég spyr bara afhverju að læra títrun, þetta er löngu útdauð aðferð og það eru til mun betri og einfaldari aðferðir í dag. Rúsínan í pylsuendanum (hver setur rúsínur í pylsur?) eru dæmatímar á laugardagsmorgnum, er ekki allt í lagi með fólk? Þannig að maður verður að halda sig á mottunni alla föstudaga í vetur. Þessi áfangi dregur í rauninni önnina mikið niður en maður reynir bara eftir bestu getu.

En það er best af öllu að ég þarf ekkert að mæta á morgun, föstudag, og aðra föstudaga ekki fyrr en kl. 1 (hehe). Það er spurning um að kíkja á Prikið í kvöld….

Á morgun gerist það að ég flyt frá Kirkjubrautinni aftur í borg óttans, Reykjavík, til hýru mannanna og Gumma á Njálsgötunni. Knútur og Helgi Þór eru að flytja hvað úr hverju en Óli verður víst alveg fram að mánaðarmótum en þá fær hann Jakobsvelli til umráða. Inn á Kirkjubrautina flytja í staðinn (minnir mig) Jón Egill, Múffi, Hjörtur og Jón Ingi jr. og vonast ég til að þeir haldi áfram partýhöldum og hrelli nágrannana um hverja helgi og hef ég reyndar nokkra trú á þeim í þeim efnum. Síðan á þriðjudag hefst HÍ og sýnist mér að dagurinn hefjist á Bacteriology hjá Guðna Alfreðssyni, ótrúlegt en satt þá lýst mér einna skást á þann kúrs í haust. Það er sagt að fyrsta árið í Háskólanum sé alltaf verst en síðan skáni það mikið, ég verð bara að bíða og vona að það sé rétt.

Kannski skjótum við þig bara í hausinn Óli :)

Tags:

Síðasti dagurinn í vinnunni er liðinn og nú geri ég líklega ekki neitt af viti næstu 9 mánuðina eða svo. Þótt að vinnan hjá Skipasmíðastöð Þorgeirs & Ellerts (a.k.a. Slippurinn) var oft sóðaleg, hávaðasöm og leiðinleg þá tek ég hana fram yfir leiðindin í hvenær sem er. Það verður þó ágæt tilbreyting að flytja aftur í bæinn í einbýlishúsið okkar í Þingholtunum þar sem alvaran verður viðhöfð alla daga. Á mánudaginn flyt ég aftur á Njálsgötuna til Davíðs, Heiðars og Gumma og bý þar til 1. eða 2. sept. Þá ætlar helvítis útlendingurinn Renato að flytja í skápinn minn og ég flyt í villuna mína á Óðinsgötunni. „I think a change will do you good“ söng Sheryl Crow um árið, við skulum vona að það eigi við um mig í næstu viku.

Tags:

Ég vil óska Siggu Olgu, líffræðivinar míns, góðrar flugferðar yfir hafið til Kaupmannahafnar, Danmörku, þar sem hún mun leggja stund á dýralækningar í vetur í háskóla þar ytra en hún fer í loftið um fimmleytið næstu nótt.

Ég hreinlega trúi ekki því sem ég var að lesa á heimasíðunni hans Óla Helga. Þar stendur að Dagbjört hafi komist inn á Skerjagarðana í einstaklingsíbúð. Ég óska Dagbjörtu náttúrulega til hamingju en spyr í leiðinni, hvernig í andsk… komst hún inn?!!? Ég hélt að annars árs stúdentar hefðu forgang fram yfir fyrsta árs nema, ég hélt að fjarlægð frá Reykjavík hafði eitthvað að segja, ég hélt að eftir að 15 einingum í HÍ væri náð þá fengi maður hærri forgang en nei. Ég sem dæmi er annars árs nemi (Dagbjört er á fyrsta ári), bý á Snæfellsnesi og búinn með 32 einingar í HÍ og er á biðlista eftir íbúð á Skerjagörðum, eins og Dagbjört fékk, og er númer 31 eftir 9 mán. íbúð og 63 eftir 12 mán. íbúð!!! Það læðist að manni sá grunur að kynferði sé mikilvægt þegar umsækjendur eru valdir úr og reyndar eins og Sverrir benti réttilega á um daginn þá þekkjum við aðeins stelpur sem hafa komist inn á Stúdentagarðana. Er það stundað að flokka umsækjendur eftir kynferði á Görðunum? Vinna eintómir femínistar á skrifstofum Garðanna? Spyr sá sem ekki veit…..

Svo vil ég notfæra mér aðstöðu mína hérna á blogginu og óska systur minni, Kristínu Lilju, til hamingju með afmælið á þriðjudaginn. Ég keypti enga gjöf en ég hef góða afsökun þar sem ég er stúdent og fólk býst ekki við því að þeir geti verið að gefa fólki gjafir sökum fátæktar.

Tags: