2012

Árið 2012 er að kveðja. Þetta var afbragðs gott ár og ég vona að nýja árið verði einnig farsælt. Hjá mér stendur upp úr að ég komst til Íslands ásamt fjölskyldunni eftir fjögurra ára fjarveru og var frá byrjun júní fram í september. Ég lenti í smá óhappi með myndirnar sem við tókum í fríinu og því miður hefur líklega hluti þeirra glatast vegna klaufaskapar. Þess vegna hafa ekki margar myndir birst á Facebook undanfarið.

Mér þykir alltaf leiðinlegt hvað þessari síðu hefur verið lítið sinnt undanfarin ár. Í rauninni er það ágætt að hafa bloggið sem yfirlit yfir það sem maður hefur verið að bauka því eftir því sem árin líða fer minnið að bregðast manni varðandi hitt og þetta. Vona að bloggið verði meira 2013 en engu er hægt að lofa.

Hafið það gott á nýju ári. Kveðjur frá Mexíkóborg.

Efnisorð: ,

Stórafmæli

Ég vil óska mömmu minni til hamingju með stórafmælið þann 2. nóvember. Annað var það ekki að sinni.

Efnisorð:

H&M í Mexíkó

Konan er ofsaglöð en mig er farið að kvíða fyrir löngum verslunarferðum til Santa Fe.

Efnisorð:

Fríið búið

Við erum komin aftur til Mexíkóborgar, þetta var nú gott frí.

Vegabréf

Ég og strákarnir urðum okkur úti um íslensk vegabréf og fengum þau send í pósti heim í sveit. Þetta er allur munur og nú verður ekkert vesen í kringum vegabréf eða vegabréfsáritanir allavega næstu fimm árin. Ungir menn eins og Ían fá einungis vegabréf til eins árs í senn í Mexíkó og íslensk vegabréf eru að auki ódýrari sýnist mér.

Þar sem við verðum (vonandi) mikið á ferðinni til Íslands liggur beinast við að notast við Bandaríkin sem stoppistöð en þar er betra að hafa Visa Waiver vegabréf á borð við þau íslensku. Það er nefnilega alls ekki sjálfgefið fyrir Mexíkana að fá útgefna vegabréfsáritun til hinna miklu Bandaríkja Norður-Ameríku. Ég veit mörg dæmi þess að fólki hafi verið hafnað um áritun án haldbærrar ástæðu. Ákaflega sérstakt hjá þessu tiltekna ríki að geta meinað fólki inngöngu án þess að það hafi í rauninni gert nokkuð af sér.

Ég notaði gamla vegabréfið í fjórum heimsálfum, ég á ekki von á því að það nýja verði jafn víðförult en þó er aldrei að vita.

Okkur langar að fara næst til Kúbu og verður það vonandi fljótlega þar sem við þurfum einungis að borga flugið. Kúbverskt vinafólk ætlar að hýsa okkur en við kynntumst pari þaðan þegar þau voru í ófrjósemismeðferð í Mexíkóborg sem kúbverska ríkið borgaði undir þau (!). Meðferðin heppnaðist með miklum ágætum og þeim fæddist stúlka sem fékk nafnið Anel eftir minni ektafrú og því er nauðsynlegt að heimsækja litlu Anel á Kúbu. Fer ekki hver að verða síðastur að sjá Kúbu undir kommúnistastjórn?

Efnisorð: ,

Sumarfrí

Þessi síða er komin í sumarfrí ásamt eiganda sínum þótt ótrúlegt sé. Á Íslandi er gott að vera eins og alltaf, ætli ferðasagan af sumarfríinu langa komi hér ekki inn með haustinu.

Efnisorð:

Forsetakosningar 2012

Ekki get ég látið þetta bloggtækifæri framhjá mér fara. Forsetakosningar á laugardaginn á Íslandi og á sunnudaginn í Mexíkó. Þar sem kjörtímabilið í Mexíkó eru sex ár á móti hinu fjögurra ára íslenska tímabili gerist þetta ekki oft en þó á 12 ára fresti.

Gerðist síðast árið 2000 þegar Ólafur Ragnar tók því rólega á Fróni og var sjálfkjörinn í embættið. Þetta kosningaár í Mexíkó varð aftur á móti hið sögulegusta en þá urðu mikil valdaskipti í Mexíkó. Frambjóðandi PAN flokksins (Partido Acción Nacional) Vicente Fox sigraði þá og varð fyrsti forsetinn í 70 ár sem kom ekki úr röðum hins þaulsætna PRI flokks (Partido Revolucionario Institucional). Ef snara ætti þessum flokksnöfnum yfir á íslensku gæti PAN heitið Þjóðvaki og PRI Stofnana-Byltingarflokkurinn. Fox sat til 2006 og eftirmaður hans og núverandi forseti Felipe Calderón kemur einnig úr PAN flokknum.

Sá síðarnefndi hefur orðið umdeildur í Mexíkó vegna hinnar hörðu stefnu hans í fíkniefnamálum. Hann sigaði hernum á dópgengin með þeim árangri að frá 2006 hefur tala fallinna farið yfir 50 þúsund manns. Í raun ríkir einhverskonar borgarastríð í Mexíkó þrátt fyrir að það sé minna sýnilegt en hefðbundin átök. Þrátt fyrir að Calderón hafi í raun ekki staðið sig svo illa í öðrum málaflokkum líkt og ágætur árangur í efnahagsmálum gefur til kynna þá verður þetta arfleið hans í mexíkanskri stjórnmálasögu, forsetinn sem lagði allt undir og tapaði í þessu endalausa „stríði gegn eiturlyfjum“.

Fjórir frambjóðendur eru í framboði í Mexíkó. Núverandi valdaflokkur PAN sýndi lit og bauð fram konu í embættið en kona hefur aldrei vermt forsetastólinn þar vestra. Hún Josefina Vázquez Mota hefur þó ekki hitt á réttu nóturnar í þessari baráttu og hún virðist ætla að enda í þriðja sæti ef marka má skoðanakannanir. Skömmu áður en við fórum frá Mexíkó lýsti hún því yfir í fjölmiðlum að hún tryði enn á kraftaverk en sjaldnast er gott að stóla á þau í pólitík.

Litli maðurinn í þessum kosningum og sá sem mælist með minnst fylgi heitir Gabriel Quadri en hann býður sig fram fyrir Nueva Alianza (PANAL) eða Nýfylkinguna. Þessi flokkur er að bjóða fram í annað sinn, bauð fram fyrst 2006 og er enn að mótast. Reyndar líst mér ágætlega á Gabríel þrátt fyrir að hann líti út eins og illmenni úr Austin Powers mynd með sitt fjallmyndarlega yfirvaraskegg í gamla stílnum. Held ef hann myndi raka sig ætti fylgið eftir að stíga því af því sem ég hef séð af honum var margt ágætt og ætti alveg skilið meira en Ástþórs-fylgi í kosningunum.

Sá sem virðist ætla að hafna í öðru sæti gerði það einnig 2006 en Andrés Manuel López Obrador eða AMLO eins og hann er oft kallaður er fyrrverandi borgarstjóri Mexíkóborgar og tapaði naumlega 2006 fyrir Calderón. Einungis munaði um hálfu prósentustigi eða um 250 þúsund atkvæðum. Hann býður sig fram fyrir kosningabandalag sem leitt er af hans flokki PRD (Partido de la Revolución Democrática) og gæti útlagst Lýðræðissinnaði Byltingarflokkurinn. Aðrir flokkar í bandalaginu eru PT (Partido del Trabajo) eða Verkamannaflokkurinn og Movimiento Ciudadano sem ágætt er að þýða sem Borgarahreyfinguna, flokkur sem stofnaður var á síðasta ári úr eldri flokki, krataflokkur sem berst fyrir kerfisbreytingum í mexíkönsku stjórnkerfi. Verkamannaflokkurinn eru á pari við VG í stjórnmálum og jafnvel til vinstri við þá meðan PRD eru sósíaldemókratar.

Eins og menn kannski muna þá voru úrslit þessara kosninga dregin í efa af stuðningsmönnum Andrésar og reyndar fleirum. Múrinn birti þessa grein skömmu eftir að úrslitin lágu fyrir. Margir ásökuðu PAN um að hafa stolið sigrinum og falsað kjörseðla og lengi á eftir voru mikil mótmæli í gangi um allt land. Andrés var dubbaður upp sem „réttkjörinn forseti“ og Calderón kallaður „ólögmæti forsetinn“ og er reyndar enn kallaður svo af mörgum.

Karlinn sem mun þó líklega sigra á sunnudaginn ber nafnið Enrique Peña Nieto og yfirleitt kallaður báðum eftirnöfnum sínum. Sá er fulltrúi gamla valdaflokksins PRI sem býður fram í bandalagi við Partido Verde, Græningja eða Græna flokksins sem leggur áherslu á umhverfisvernd og baráttu gegn skipulögðum glæpum.

Peña Nieto þykir með myndarlegri mönnum sem hefur kannski skilað honum eitthvað áfram í pólitík. Hann var ríkisstjóri fjölmennasta ríkis Mexíkó sem kallast Estado de México og fyrir mörlandann er hægt að líkja því ríki við Kragann. Semsagt ríkið sem liggur í kringum höfuðborgina sjálfa, Distrito Federal eða alríkisumdæmið sem er kjarni Mexíkóborgar og saman mynda DF og Estado de México stórborgarsvæðið.

Það hljómar kannski skringilega að Mexíkanar vilji hleypa PRI aftur að kjötkötlunum eftir 12 ára útlegð en þeir sátu eins og áður sagði að völdum í um 70 ár og hafa ýmislegt á samviskunni. Flokkurinn virðist síðan þá hafa unnið eitthvað í ímynd sinni, segjast nú vera flokkur 21. aldar og séu nýr PRI og ég veit ekki hvað. Peña Nieto hefur kjörþokka með sér en virðist ekki vera með þeim sleipustu þrátt fyrir það. Frægt var í Mexíkó fyrir skömmu þegar hann sótti heim bókaráðstefnu og var spurður af fréttamanni hvort hann gæti nefnt þrjár bækur sem höfðu haft áhrif á hann á sínum ferli. Skemmst er frá því að segja að hann gat það ómögulega, tafsaði eitthvað og umlaði og náði að lokum eftir drykklangt hlé að segja Biblían en mundi þó ekki eftir fleiri bókum. Þessi uppákoma og fleira í þessum dúr hefur orðið til að draga andlegt atgervi forsetaframbjóðendans í efa.

Sjálfur hef ég ekki kosningarétt í Mexíkó en ég veit í sjálfu sér ekki hvað ég ætti eftir að kjósa. Líklega er AMLO illskásti kosturinn en mér hefur þó fundist hann koma frekar illa út í umræðuþættum. Leggur yfirleitt höfuðáherslu á að rægja Peña Nieto í stað þess að koma sínum málstað á framfæri. Reyndar er nokkuð furðulegt að í landi þar sem yfir 100 milljónir búa að ekki sé hægt að finna betri forsetaframbjóðendur, mér líst frekar illa á öll fjögur.

Heldur mun ég ekki kjósa í þeim íslensku vegna smá klúðurs, hefði kosið Ara en það verður bara að hafa það. Þrátt fyrir að mér líki í raun ekki illa við Ólaf en hann bauð mér í kokkteilboð fyrir nokkrum árum úti í Mexíkóborg, geri aðrir betur. Held að það væri ágætt að breyta til á Bessastöðum en ég mun ekki gráta þótt Ólafur sitji eitthvað áfram þar.

Svona hljóðaði nú fréttaskýring dagsins.

Efnisorð: , , , , , , , , ,

Á heimleið

Hér eru að verða mikil tíðindi. Eftir tæp fjögur ár fjarri heimahögum hefur verið sett upp mikil ferðaáætlun og munum við lenda á Fróni í júní.

Þetta hefst 2. júní þegar að Ane fer til Boston en hún á bókaðan kúrs í tannígræðslum þar dagana 4-8. júní. Ég fer með Ara, Emil og Ían ásamt Becky tengdamömmu þann 8. júní til Boston og svo verður farið til Íslands þann 10. júní sem mun vera sunnudagur.

Ég var síðast á Íslandi í ágúst 2008. Þá átti ég eitt barn og ekkert hrun hafði orðið á gamla landinu. Sjálfstæðisflokkurinn réð landi og borg og íslensku bankarnir virtust standa vel. Vægast sagt hefur ýmislegt breyst síðan þá. Synirnir orðnir þrír og Ísland búið að ganga í gegnum algjört hrun fjármálakerfisins, búsáhaldabyltingu og hefur svo haft hreina vinstri stjórn í rúm þrjú ár. Ég missti semsagt að einhverjum viðburðaríkustu árum sem ég man eftir. Hér áður fyrr gerðist aldrei neitt á Íslandi, allavega ekki í samanburði við hrunið. Er að sumu leiti svekkjandi að hafa ekki upplifað þetta en einnig hefur það haft óneitanlega nokkra kosti að hafa staðið fyrir utan á meðan að þessu stóð.

Annars verður það skemmtilegt að sjá fjölskyldu og vini á nýjan leik sem og að sjá hvernig Ísland hefur breyst síðan sumarið 2008. Ég vona að þessi dvöl verði til þess að strákarnir læri meiri íslensku en ég hef alltaf rembst til að kenna þeim eitthvað en þeir hafa ekki hingað til haft mikinn áhuga á bablinu í pabba.

Langtímamarkmiðið hjá okkur er að flytja til Íslands alfarið einn góðan veðurdag. Ég lít á þessa för sem skref í þeirri áætlun, ef maður býr á einum stað í þrjá mánuði á ári þá er hægt að segja að sá búi á tveimur stöðum, ekki rétt? Við stefnum að því að vera á Íslandi í þrjá mánuði ár hvert þangað til við flytjum alfarið. Þetta verður einnig prófraun á bisnessinn okkar góða, hvort að við getum fjarstýrt honum frá annarri heimsálfu og hvort að einhver ágóði verður af rekstrinum fyrir okkur til að lifa af sumarið.

Ef reynslan verður góð þá má búast við því að við getum flutt heim skjótt fyrir fullt og allt en sjáum til hvernig þetta fer allt saman.

Þetta verður gott sumar, engin hætta á öðru.

Efnisorð:

Nintendo fyrr og nú

Líklega var það í október þegar ég og frúin sáum á uppgjöri einu kreditkortanna að punktastaðan var orðin ískyggilega há. Þar sem umrætt kort er alltaf notað þegar fjárfest er í einhverju stóru fyrir bisnessinn þá hafði það gefið vel af sér í punktum. Þar sem þeir úreldast hér á fimm árum og þeir elstu höfðu þegar kvatt þennan heim þótti ekki annað viðeigandi en að koma nú þessum náðargjöfum kortafyrirtækjanna í góð not.

Við athuguðum því á netinu hvað væri í boði og viti menn, við gátum fengið Nintendo Wii gefins fyrir punktana.

Ég var reyndar mjög efins um að taka Wii gripinn. Minnugur eigin reynslu af tölvuleikjum og einnig höfðu nokkrir ungir karlar haft það á orði að réttast væri að láta það eiga sig að kaupa leikjatölvu handa strákunum.

Sjálfur átti ég elstu gerðina af Nintendo þegar ég var polli, líklega kom hún á heimilið þegar ég var sjö ára (1987). Þetta var náttúrulega bylting á sínum tíma og hvað maður gatt eytt tímanum í þetta. Var reyndar galli að ekki var hægt að vista leikina man ég og því var það alltaf allt eða ekkert sem gilti. Maður þurfti að klára leikina frá byrjun í einum rykk og það var stundum ekkert áhlaupaverk.

Eftir á að hyggja veit ég ekki hversu hollt þetta var fyrir mann, ekkert sérstaklega skaðlegt kannski en maður veit aldrei. Það dempaði reyndar minn spilatíma að aðeins eitt sjónvarp var á heimilinu þannig að ég gat lítið spilað á kvöldin, fréttir og Derrick höfðu þar forgang.

Ég eignaðist aldrei PC tölvu fyrr en ég var orðinn tvítugur þannig êg datt aldrei inn í þann leikjaheim. Gömlu Nintendo var skipt út fyrir Sony Playstation árið 1995 sem var að sjálfsögðu önnur bylting en eftir að hóf háskólanám 2001 hef ég varla snert á tölvuleik fyrr en nú. Hafði einfaldlega ekki tíma fyrir slíkt dútl.

Þar sem þetta var mikill tímaþjófur fyrir mig hafði ég eins og áður sagði efasemdir um Wii. Einnig rifjuðust upp gamlar minningar um skaðsemi tölvuleikjanna. Ég man eftir einum sveitunga mínum sem var samtíða mér á heimavist Fjölbrautaskóla Akraness. Hann datt svo innilega inn í þennan heim, gott ef það voru ekki Final Fantasy leikirnir sem áttu hug hans allan. Einn góðan veðurdag vaknaði hann upp við vondan draum, búinn að skrópa sig út úr skólanum, heimavistinni og öllu saman. Foreldrarnir mættir í dyragættinni rauðir í framan til að draga hann heim, líklega skýrasta dæmið sem ég man eftir.

Fleiri sem ég þekki eyddu of miklum tíma í ýmis tölvuspil, bitnaði á þeirra námi veit ég fyrir víst.

Ég lét þó til leiðast á endanum og við fengum Wii í hendurnar nokkrum dögum síðar. Settum þó reglur um spilunartíma, einungis er hér spilað um helgar og eftir að allri heimavinnu hefur verið sinnt. Gripurinn kom með Mario Kart Wii sem er kappakstursleikur og höfum við keypt tvo leiki í viðbót síðan þá.

Man reyndar eftir forvera þessa kappakstursleiks á Nintendo 64 sem var stundum leigð á heimvist FVA af vídeóleigunni Ás. Ætli krakkar leigi ennþá svona leikjatölvur? Eru vídeóleigur ennþá til á Íslandi? kæmi mér ekki á óvart ef þær hefðu dagað uppi.

Hvað um það, Wii er hin besta skemmtun fyrir alla fjölskylduna og ég hef staðið sjálfan mig að því að vera eftir miðnætti í brjáluðum kappakstri á regnboga út í geimnum eða vera að bjarga heilu vetrarbrautunum með gamla góða Maríó, pípara með meiru. Skemmtilegt að sjá gömlu persónurnar enn í fullu fjöri, strákarnir eru að leika með sömu kallana og ég fyrir aldarfjórðung í ehm… eilítið betri grafík.

Ég sé ekki eftir því að hafa eignast Wii en hef lofað sjálfum mér því að myndarlegu drengirnir mínir fá ekki að enda sem niðurlútir tölvunirðir. Ég gæti aldrei fyrirgefið sjálfum mér, allt er best í hófi.

Efnisorð: , , ,

Stúdíómyndir af fjölskyldunni

Hér má sjá einhverjar nýjar myndir af okkur.

Efnisorð: