Engar áhyggjur

Kannski var síðasta færsla full dramatísk, ég var orðinn frekar áhyggjufullur þegar ég skrifaði eitthvað hér síðast. Við erum að mestu komin út úr öllum vandræðum og er bara bjart framundan.

Er dálítið leiðinlegt að hér skuli hafa orðið messufall því það sem ég met mest við bloggið eru minningarnar sem það geymir. Ég ætla að reyna að halda þessu við svo ég geti átt mína dagbók hér.

Núna er komið páskafrí hjá drengjunum. Líklega munum við fara á ströndina með vinafólki. Leiðin liggur til Acapulco sem er vinsæll áfangastaður fyrir þá sem búa í Mexíkóborg þar sem hægt er að keyra þangað á um fimm klukkustundum.

Líklega er hægt að finna enn betri sólarstrendur en þar sem fjarlægðir eru miklar í þessu landi þá látum við Acapulco duga að sinni.

Fundur

Fór á mikilvægan fund í gær. Leysti líklega úr þeirri stöðu sem var kominn upp í kaupum á seinna húsinu. Ég ætla ekki að kaupa húsnæði í bráð, þetta ætlar engan enda að taka. Líklega komið eitt og hálft ár síðan við byrjuðum á þessu basli en á endanum verður þetta gott, vona ég.

Efnisorð: ,

Efahyggja

blame.jpg

Eggskortur

Ég sakna páskaeggja, örlítið.

Efnisorð:

MH370

Um mig fer hrollur, er það virkilega mögulegt að ræna heilli Boing 777 og fljúga með hana út í veður og vind? Enginn tekur eftir neinu fyrr en mörgum klukkustundum síðar. Í raun finnst manni þetta óhugnalegra en að þotan hafi einfaldlega hrapað. Þetta er þegar orðið eitt magnaðasta hvarf flugvélar sem sögur fara af og enn er ekki vitað hvað gerðist. Hvernig fer þetta?

Efnisorð:

Tvennir fjórtán

Febrúar er leiðinlega stuttur, útgjöldin eru hin sömu en tekjurnar dragast saman sem nemur þessum fáu dögum. Sem betur fer er aðeins einn á hverju ári.

Efnisorð:

Svona var það 2013

Ég tilnefni árið 2013 sem næst erfiðasta ár ævi minnar. Ekkert slær út 2009, eða það vona ég. Þetta nýliðna ár var langt og strangt, jafnvel þótt að dagafjöldinn sé alltaf sá sami á þessum árum þá entist 2013 mun lengur. Allavega var það mín upplifun.

Auðvitað voru engin alvarleg vandamál á ferðinni. Þetta var mest vesen í kringum húsnæðismál. Lúxusvandamál heitir það víst, við keyptum okkur tvö flunkuný hús á árinu og því ekkert undarlegt að það hafi verið strembið.

Síðan við komum heim frá Íslandi haustið 2012 þá ákváðum við ekki mætti bíða lengur með að flytja í nýtt húsnæði. Við bjuggum í lítilli tveggja herbergja íbúð sem tengdamamma keypti sér við upphaf tíunda áratugsins þegar Anel var enn lítil gelgja. Tuttugu árum síðar var löngu orðið timabært að flytja í betra húsnæði.

Við áttum aðra íbúð í sömu blokk sem var mun minni og hafði áður verið tannlæknastofa Anelar. Henni var breytt í íbúð 2008 og þar bjó tengdamamma. Báðar íbúðirnar voru settar á sölu í lok nóvember 2012, ef ég man rétt, og sú stærri seldist á þremur vikum enda bjuggum við mjög miðsvæðis. Í byrjun febrúar 2013 þurftum við að flytja allt okkar hafurtask niður í minni íbúðina þar sem tengdó bjó og þar hýrðumst við öll sex í marga mánuði á 46 fermetra svæði. Er það ein helsta ástæða þess hversu langdregið og erfitt árið var.

Leitin að framtíðarhúsnæði hófst um sama leiti og við settum okkar íbúð á sölu. Fyrst vorum við ekki viss um hvort að betra væri að leigja fyrst og kaupa síðar. Því fór töluverður tími í að kanna leigumarkaðinn enda höfðum við lítið spáð í þessum málum áður. Alltaf var ljóst að við vildum vera í nágrenni World Trade Center þar sem við eigum okkar atvinnurekstur. Einnig vissum við ekki hvað ætti að gera í skólamálum drengjanna þannig að þetta voru óvissutímar. Óvissan er alltaf erfið.

Eftir að hafa skoðað endalaust af íbúðum til leigu fórum við að athuga meira með að kaupa húsnæði. Eftir nokkurt streð fundum við loks í lok febrúar skemmtileg hús sem byggð voru 13 saman á einni lóð. Hvert hús er ekki stórt að flatarmáli en á móti kemur að þau eru byggð á þremur hæðum auk þess sem þakgarður er á efstu hæðinni. Þetta er í göngufjarlægð frá vinnustaðnum og verðið var hreint ekki slæmt, en húsin voru ný og eru reyndar enn í frágangi.

Við slógum til og þá hófst nýr kafli þar sem við þurftum að fjármagna kaupin og borga um þriðjung fyrirfram en það hafðist allt með tímanum og við fengum húsið afhent þann 4. september og var það mikill gleðidagur. Einnig tókum við þá ákvörðun að kaupa annað hús af þessum 13 fyrir tengdamömmu. Reyndar var það líklega einum of en í apríl á þessu ári verðum við búin að fjármagna þau kaup, ef allt gengur upp. Ef ég verð enn ekki orðinn gjaldþrota í aprílbyrjun þá verð ég mjög hamingjusamur maður, því skal ég lofa.

Einnig þurftum við að finna skóla fyrir drengina en við fundum einn að lokum sem okkur leist vel á. Hann kallast Woodland School þar sem kennslan fer að mestu fram á ensku. Þetta er mjög skemmtilegur skóli og strákunum líður mjög vel þar, öllum þrem.

Skólinn er einnig í göngufjarlægð frá nýja kofanum sem kemur sér vel þar sem við höfum verið bíllaus allt síðasta ár en gamli bílskrjóðurinn var seldur í desember 2012. Ég bjóst reyndar ekki við því að vera bíllaus svo lengi en með þessi fasteignakaup þá hefur verið lítið svigrúm undanfarið fyrir lúxus eins og einkabíl. Vonandi breytist það á þessu ári en að vissu leiti er það ágætt að vera ekki að vandræðast með bíl því þeim fylgja mikil útgjöld og oft eitthvað vesen.

Einnig höfum við ekki getað fyllt húsið strax af öllum þeim húsgögnum sem líf nútímamannsins krefst en það kemur bara smán saman.

Húsnæðismálin voru semsagt þungamiðja ársins 2013 og tóku þau sinn toll af manni. Þetta horfir þó allt til betri vegar, flutningar afstaðnir og regla komin á hlutina á ný.

Af öðrum atburðum þá voru ríkistjórnarskiptin á gamla landinu ein helsta fréttin fyrir mér. Ég er enn svekktur yfir þessum kosningum og að fá gamla DB ríkisstjórn. Sýnir kannski hvernig skoðanir manns eru enn verulega á skjön við meðal-Íslendinginn.

Einnig var það mikil breyting fyrir okkur að Ían Magni fór á leikskóla í fyrsta sinn nú í haust og að auki er hann hættur á bleyju fyrir all nokkru. Sefur enn með hana en það verður ekki lengi. Við skiptum um bleyjur án þess að stoppa frá janúar 2007 fram á síðasta haust. Ekki á ég eftir að sakna þess, það er næsta víst.

Reksturinn hefur gengið mjög vel og við erum nú með níu manns í vinnu auk okkar. Við erum með nokkrar hugmyndir við viljum útfæra á nýju ári en best að segja sem minnst á þessu stigi hvernig það verður. Svo virðist sem að skóli drengjanna eigi eftir að hjálpa nokkuð til þar sem þegar eru farnir að streyma nýir kúnnar þaðan.

Í stuttu máli, gamla árið var erfitt en við náðum okkur markmiðum. Endirinn var mjög góður, en við vorum á sólarströnd yfir jól og áramót, gerist varla betra.

Ég er mjög bjartsýnn á nýja árið, hef ekki verið svona bjartur síðan…… ehemm 2008 gekk í garð en það geta varla orðið mörg efnahagshrun á einni mannsævi, er það nokkuð? Þetta verður ágætt, heimurinn er alltaf að batna og heldur því líklega áfram á nýja árinu. Vonandi komumst við til Íslands á þessu ári en það kemur í ljós með tímanum.

Lifið heil.

Efnisorð: ,

Jól og áramót á sólarströnd

Umhverfið er eins lítið jólalegt og það gerist. Hvítar strendur, túrkís blátt haf, pálmatré og ferðamenn af öllum þjóðernum í stuttbuxum og bikini hvert sem litið er. VIð erum við karabíska hafið og verðum fram yfir áramót, nánar tiltekið í Cancún sem er líklega þekktasti ferðamannastaðurinn hér. Við vorum boðin í giftingu sem fór fram á vetrarsólstöðum í gær og þar sem við erum komin hingað ákváðum við að vera ekkert að flýta okkur til baka og nýta flugfarið almennilega.

Ég tók upp á því nú í ár í fyrsta sinn að gefa í skóinn, einhvern veginn var það ekki við hæfi þar sem við bjuggum áður en eftir flutningana í nýtt húsnæði þá einhvern veginn byrjuðu jólasveinarnir að streyma alla leið til Mexíkóborgar. Þeir leggja líka leið sína til Cancún. Úti á svölum hótelherbergisins þar sem sjá má öldurnar leika í fjöruborðinu má finna litla skó sem bíða eftir Ketkrók, þeir koma víða við kallarnir.

Hér verðum við að sulla á sundlaugarbakka og við leik á ströndinni fram á nýja árið. Þetta ár sem er að líða hefur verið það klikkað að við eigum inni smá frí frá öllu stressinu.

Ég óska öllum gleðilegra jóla og að hamingjan megi finna ykkur og þið hana á nýja árinu.

Efnisorð: ,

Handþvottur

After coming into contact with a religious man I always feel I must wash my hands. Friedrich Nietzsche

Efnisorð:

Blame

blame.jpg

Efnisorð: